c

Pistlar:

29. október 2018 kl. 22:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitísk umskipti í Brasilíu

Um helgina var gengið til kosninga í Brasilíu, fjölmennasta og stærsta ríki Suður-Ameríku. Eins og búist var við sigraði hægri maðurinn Jair Bolsonaro og batt þannig enda á valdatíð Verkamannaflokksins sem haldið hefur um valdataumanna í Brasilíu í 20 ár. Gengið var til tvennra kosninga áður en Bolsonaro var lýstur sigurvegari þannig að umboð hans er skýrt en hann fékk 55% atkvæða í seinni umferðinni. Einhverjir hafa kallað Bol­son­aro hitabeltisútgáfuna af Trump og vissulega var hann duglegur að nota sam­fé­lags­miðla í kosn­inga­bar­áttu sinni eft­ir að hann var stung­inn í mag­ann á kosn­inga­fundi 6. Sept­em­ber. Hinn 63 ára gamli Bol­son­aro tek­ur við embætti 1. janú­ar næstkomandi.bols

Að hluta til skýrist sigur Jair Bolsonaro af því að fólk var að kjósa á móti Verkamannaflokknum um leið og Brasilíumenn óttuðust örlög nágranaríkisins Venesúela en segja má að stjórn sósíalista þar hafi steypt landinu í glötun eins og hefur verið rakið í nokkrum pistlum á þessum vettvangi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, býr hluta af árinu í Brasilíu og fylgdist með kosningunum úr návígi. Hann benti á það, í umræðu á Facebook, að Bolsonaro hefði notað dæmið af Venesúela í sjónvarpsauglýsingum sínum, meðal annars myndir af fyrrverandi forsetum landanna, þeim Luiz Inácio „Lula“ da Silva og Húgó Chavez saman. Því hafi kjósendur sagt með þessum úrslitum: Við viljum ekki, að Brasilía verði önnur Venesúela.

Mikil verkefni á efnahagssviðinu

Margar yfirlýsingar Jair Bolsonaro eru vafasamar og hann á eftir að sanna sig sem leiðtogi þrátt fyrir að hafa starfaði í stjórnmálum um langt skeið. Aðalráðgjafi hans í efnahagsmálum er hagfræðingurinn Paulo Guedes sem Hannes hrósar. Guedes er lærður við Chicago-háskóla og mun væntanlega leggja áherslu á aðhaldssama efnahagsstjórn. Nú er um 12% atvinnuleysi í landinu og núverandi fjárlög voru samþykkt með 7% halla. Skuldir landsins nema um 80% af vergri landsframleiðslu sem er mikið miðað við þróunarástand Brasilíu. Stjórnsýsla landsins er mjög bólgin og launakostnaður gríðarhár. Þá eru eftirlaunaskuldbindingar til handa ríkisstarfsmönnum rausnarlegar. Það er spurning hvort Chicago-skólinn nær að vinna á þessu.lula

Spilling Verkamannafloksins

Verkamannaflokkur Fernando Haddads hefur orðið uppvís að ótrúlegri spillingu í gegnum tíðina og telur Hannes að það sé líklega ein helsta skýring úrslitanna. Pólitísk umskipti eru nú að eiga sér stað en eftir að herforingjar landsins gáfu frá sér stjórnartaumanna fyrir tæplega 30 árum hafa vinstri menn ríkt þar. Um tíma naut Brasilía efnahagslegs uppgangs enda náttúruauðlindir landsins gríðarlegar og landið eitt það fjölmennasta í heimi með sína 210 milljónir íbúa.

Forsetinn Brasilíu 2000–2008, Lula, situr í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur. Þar var um að ræða nokkrar milljónir Bandaríkjadala sem hann þáði meðal annars af byggingafyrirtækjum. Honum var meinað að taka þátt í kosningabaráttunni. Eftirmaður hans, Dilma Rousseff, var sett úr embætti fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar um fjármál flokks síns. Rousseff starfaði hjá ríkisolíufyrirtækinu Petrobras en var þar áður í skæruliðasveitum á tímum herforingjastjórnarinnar. Hún naut aldrei vinsælda á við hinn litríka Lula sem enn ræður miklu enda heimsækir Haddad hann reglulega í fangelsið og þiggur hjá honum ráð. Mörgum blöskrar slíkt ráðslag. Varaforsetaefni Haddad er úr brasilíska kommúnistaflokknum. Ef Bolsonaro verður forseti, þá er það aðallega vegna þess, að menn eru að kjósa á móti Verkamannaflokknum.

Létu olíu í skiptum við nautakjöt

Brasilíumenn hafa fylgst með falli Venesúela í forundran og neyðst til að loka landamærum sínum öðru hvoru þegar streymi örvæntingafullra flóttamanna frá Venesúela keyrir úr hófi. Tengsl landanna eru eðlilega mikil og oft náin. Það hafa verið margháttuð vöruskipti milli Brasilíu og Venesúela sem á tímabili virtust vera bandamenn í draumi sínum um 21. aldar sósíalisma. Ekki komst hnífurinn á milli Lula og Chavez sem dreymdi báða um nýja tegund af suðrænum sósíalisma. Einhverskonar Bolivar-sósíalisma. Því tóku þeir að vefa hagkerfin saman, oft á heldur óskynsaman máta. Sem dæmi gaf Venesúela Brasilíu olíu í skiptum fyrir nautakjöt. Þetta hafði því miður þær afleiðingar að gera landbúnað í Venesúela óarðbæran og hann þurrkaðist út í gjöfulasta landi álfunnar enda búið að taka markaðsverðlagningu úr sambandi eins og Einar Hannesson lögfræðingur benti á í umræðum á Facebook-þræði hjá Hannesi. Einar taldi þetta allt byggt á pólitískri draumsýn.

Bolsonaro hefur lofað að halda uppi lögum og reglu enda landsmenn orðnir langþreyttir á ástandinu. Um leið vonast menn til þess að honum auðnist að innleiða skynsamlega efnahagsstefnu þó vítin séu sannarlega til að varast í þessari heimsálfu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.