c

Pistlar:

21. ágúst 2018 kl. 13:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hrun Venesúela heldur áfram

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Soniu Petros, ís­lenska kona af venesú­elsk­um upp­runa, um ófremd­ar­ástandið sem nú rík­ir í hennar gamla heimalandi. Lýsingar hennar eru sláandi enda segist hún ekki skilja ástandið þar frekar en aðrir. „Ástandið verður klikkaðra með hverj­um deg­in­um og verðið hækk­ar stöðugt,“ segir Sonia sem reynir að styðja við ættingja sína í landinu með peningasendingum. Svo virðist sem slíkar peningasendingar frá brottfluttum Venesúela-búum sé helsta vörn gegn enn skelfilegra ástandi.

Undanfarin misseri hefur heimurinn fylgst agndofa með venesú­elsk­a þjóðfélaginu hrynja. Í ágætri fréttaskýringu Boga Arasonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu í dag er rifjað upp að talið er að um 2,3 milljónir manna hafi flúið frá Venesúela á síðustu fjórum árum vegna efnahagskreppunnar. Hún hefur leitt til mikils skorts á matvælum og lyfjum í landinu. Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins segja flestir flóttamannanna matvælaskortinn vera helstu ástæðu landflóttans og um 1,3 milljónir þeirra þjást af vannæringu. Um 15% allra barna í Venesúela eru vannærð, að sögn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Búist er við að landflóttinn haldi áfram á næstu mánuðum en nágranaríkin eru nú við það að gefast upp á ástandinu og hafa takmarkað móttöku flóttamanna. Eins og áður hefur komið fram hér í pistli er með ólíkindum að slíkur flóttamannastraumur sé frá landi þar sem ekki ríkir styrjöld. Nema hægt sé að kalla óstjórn sósíalista undir forystu Nicolás Maduros, forseta landsins, stríð gegn lífskjörum. Það er kannski tímanna tákn að þeir sem nefna Venesúela á íslenska sósíalistaspjallinu hér á Facebook er hent út!

Ljósin slokkna

„Flest­ir í fjöl­skyld­unni minni eru farn­ir frá Venesúela en faðir minn og tvær syst­ur mín­ar búa enn í land­inu,” segir Sonia í Morgunblaðsviðtalinu en hún hefur neyðst til að kaupa lyf fyr­ir föður sinn. Það er mjög erfitt að kaupa lyf­in í Venesúela en hún sendi þau með sínum mín­um sem fljúga þangað. „Ég sendi þeim líka pen­inga í hverj­um mánuði, um það bil 300 Banda­ríkja­doll­ara í hvert skipti sem þau geta notað á svarta markaðnum. Ég veit ekki hvað ég þarf að senda mikið núna.“vene

Sonia seg­ist síðast hafa komið til Venesúela árið 2014. „Ég var steini lost­in þegar ég sá landið. Borg­in mín, Maracai­bo, hef­ur alltaf verið besta borg­in í Venesúela. Núna er hún eina borg­in sem skort­ir raf­magn. Það er slökkt á raf­magn­inu í tólf til fimmtán klukkustundir á hverj­um degi. Þegar við erum ekki með raf­magn erum við ekki held­ur með vatn.“ Petros seg­ir ástandið í land­inu hafa versnað eft­ir að Hugo Chá­vez for­seti dó árið 2013. Maduro kunni ekk­ert á efna­hag­inn, hann hafi enga mennt­un og sé í raun klikkaður. „Hann hugs­ar bara um sjálf­an sig,“ segir Sonia. Við það má bæta að Maduro treystir fyrst og fremst á herinn og valdbeitingu til að halda völdum eins og kemur fram á meðfylgjandi mynd. Lýðræðið hefur í raun verið gert óvirkt í Venesúela.

Engin leið er að setja sig að fullu inn í þær þjáningar sem fólkið í Venesúela þarf að þola núna. Það er vonandi að nýverandi stjórnvöld fari sem fyrst frá og hægt verði að endurskipuleggja efnahagsstjórn landsins en augljóslega er tjónið mikið og varanlegt.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.