c

Pistlar:

31. október 2019 kl. 11:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ljómandi ljúfur samdráttur!

Það er augljóst að það er samdráttur í hagkerfinu en flestir virðast nokkuð sannfærðir um að hann sé hvorki illvígur né muni hann verða langvarandi. Eiginlega sé hann alveg ljómandi ljúfur og þægilegur! Við erum því að skoða óvenju bjartsýnar svartsýnisspár í efnahagslífinu! Auðvitað er tilbreyting í því að nú þegar harðnar á dalnum og dregur úr hagvexti skuli ekki allt við það að vera á vonarvöl svona einn, tveir og þrír. Það sýnir að það getur verið gott að sýna fyrirhyggjusemi í ríkisfjármálum en bæði ríki og sveitarfélög hafa borð fyrir báru. Kannski ekki lengi en það er þó hægt að vænta þess að þessi samdráttur tjóni ekki efnahagslífið og velferðarkerfið, svo fremi sem hann dragist ekki á langinn.byggja

En oftast er það nú svo að vandi ríkissjóð byggist á útgjaldavanda fremur en tekjuvanda og því er fljótt að siga á verri hliðina ef ekki er brugðist við. Auðvitað ætti að gera kröfu á löggjafann að öll frumvörp séu útgjaldametin og ekki verði stofnað til nýrra skuldbindinga án þess að þær séu fjármagnaðar. Það gerist nánast á hverjum degi að ákveðið er að hlaða nýjum skyldum á hið opinbera án þess að hugsa fyrir tekjum. Góðlegt þingmannafrumvarp sem eykur skyldur stjórnsýslunnar er dæmi um slíkt. Á meðan sjálfvirkur vöxtur er í ríkisútgjöldum skiptir þetta kannski ekki svo miklu en um leið og um hægir getur það haft alvarlegar afleiðingar. Það verður aldrei brýnt nógu oft að sömu krónunni verður ekki eytt tvisvar. Um þetta var fjallað í pistlinum Haglýsing í október í upphafi mánaðarins.

Hóflegur efnahagsbati?

Nýi hagspá hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2019—2022 var birt í gær. Bankinn gerir ráð fyrir að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vextir lágir. Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári og hagvöxtur verði neikvæður um 0,4%, en á næstu árum verði hóflegur efnahagsbati með 2% hagvexti árið 2020 og heldur meiri á hagvexti árunum 2021 og 2022.

Hagfræðideildin telur að hagvöxtur næstu ára verði studdur af lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu, auknum opinberum fjárfestingum, vaxandi útflutningi og viðsnúningi í atvinnuvegafjárfestingu þegar fram í sækir. Um leið blasir við að spáin endurspeglar talsverða óvissu um þróun hagvaxtar í heiminum á næstu misserum og það komi þegar fram í hægari vexti alþjóðaviðskipta og iðnaðarframleiðslu. Það er líklega ekki ofsagt, heimsvélin hikkastar nú af ýmsum orsökum.

Skuldaleiðréttingaaðgerðir að skila sér

Leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins í dag veltir því fyrir sér hvort Íslendingar kunni ekki að búa við stöðugleika? Má vera en staða fyrirtækja og heimila virðist nú almennt nokkuð góð ef horft er til eigna og skuldsetningar. Stöðugleiki er til staðar. Enn eru heimilin að njóta skuldaleiðréttingaraðgerða sem ráðist var í árið 2013. Þá hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri, staða ríkissjóðs er mjög sterk og staða sveitarfélaga hefur almennt batnað. Sömuleiðis hefur Seðlabankinn náð að byggja upp mjög myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sem er mikil breyting frá því sem áður var. Þar að auki styður afgangur á utanríkisviðskiptum við gengi krónunnar.

Er þá eitthvað til að hafa áhyggjur af? Jú, stundum er sagt að menn þurfi ekki að óttast neitt nema óttann sjálfan! En það blasir við að hagkerfi byggist á vonum og væntingum og það getur verið fljótt að snúast yfir á svartsýnni hliðina. Þó ríkisvaldið eigi að sýna ábyrga fjármálastjórn þá getur líka verið mikilvægt að stíga inn þegar þörf er á. Kannski ekki síður til að efla bjartsýni og slagkraft hagkerfisins.

Vextir hafa færst hratt niður undanfarið og íbúðarkaupendur sjá nú lægri vaxtatölur en þeir eiga að venjast. Venjubundnar afleiðingar þess væru hækkanir á húsnæðisverði. Það virðist ekki vera að gerast, húsnæðismarkaðurinn virðist í ekki mjög beysinn þessa stundina.

Þá má vera að menn séu að vanmeta samdrátt í ferðaþjónustu sem hefur einkennst af miklum uppgangi undanfarið með nokkuð bjartsýnum fjárfestingum. Hvernig það á eftir að lenda er vandséð en ferðaþjónustan er viðkvæm. Og annað árið í röð kemur loðnan ekki sem kostar þjóðarbúið hátt í 30 milljarða króna í lægra útflutningsverðmæti. Það munar um minna.