c

Pistlar:

29. desember 2019 kl. 17:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Faðir skáldsins - athafnamaðurinn

Bókaheitið hefst á skammstöfun sem allir þekkja. HKL: Ástarsaga heitir nýjasta verk Péturs Gunnarssonar rithöfundar. Þar rekur hann sögu frægasta rithöfundar okkar Íslendinga á nýstárlegan hátt og þætti sumum kannski ekki við miklu að bæta, hér í bókaskáp heimilisins eru líklega vel á þriðja þúsund blaðsíður sem fjalla um ævi og verk skáldsins með einum eða öðrum hætti. „Skáldfræðisaga“ heitir það víst á bókmenntamáli, ritið sem Pétur sendi frá sér fyrir jólin. Þeir sem lásu bækur hans um Þórberg Þórðarson voru án efa eftirvæntingafullir. Pétri skrifar sérlega læsilegan stíl og kemur með glöggar og eftirtektarverðar úttektir á viðfangsefnum sínum og dýpkar þannig skilning á skáldskap þeirra og áhrifum.

Hér ætla ég að taka fyrir afmarkaðan þátt sem birtist í þeirri tilraun Péturs að skilgreina upphaf Halldórs Guðjónssonar, síðar HKL, sem hafnaði föðurnafninu og kenndi sig við Laxness, jörðina sem faðir hans keypti þegar Halldór litli var þriggja ára. Bók Péturs rekur ágætlega það þjóðfélag niðursetninga og ölmusufólks sem Halldór er sprottinn uppúr. Lífsbaráttan er svo hörð að hún virkar á köflum vonlaus en þess merkilegra er að lesa um lífsverk föður skáldsins, Guðjóns Helga Helgasonar, sem er sannur aldamótamaður eins og við þekkjum úr rómantískum lýsingum annarra rithöfunda en HKL.HKL_astarsaga_72

Atorkumaðurinn Guðjón

Guðjón er hin mesti atorkumaður, maður sem gerir allt úr engu. Hann fær vinnu við vegagerð en nýtir um leið öll tækifæri sem gefast til að mennta sig þó honum sé ófært að ganga hina viðurkenndu menntabraut sem á þeim tíma bjó fyrst og fremst til embættismenn landsins. Um leið leikur hann á fiðlu og sýnir þannig hin listrænu taug sem HKL augljóslega hefur.

Guðjón og Sigríður, móðir HKL, eru gefin saman árið 1896 og stofna heimili í litlum steinbæ við Laugarveg 32. Pétur segir að Guðjón hafi hlaupið í þau verk sem gáfust en nýtt aðra tíma í að bæta húsakostinn við Laugaveginn þar sem hann reisir timburhús yfir fjölskylduna á að því er virðist skömmum tíma. Pétur giskar á að Guðný tengdamamma hafi lagt til nokkur efni.

Pétur vitnar í grein eftir gamlan samstarfsmann Guðjóns, Jónas Magnússon frá Stardal sem hafði unnið undir stjórn Guðjóns Helga í vegavinnunni. Jónas bregður upp mynd af manni sem allt leikur í höndunum á, vegirnir sem hann leggur hafi verið augnayndi, hleðslurnar ekki haggast og holræsin sannkölluð listasmíði!

Kaupir Laxness til endurbóta

En Guðjón hefur vilja og metnað til verka. Þegar Halldór er þriggja ára kaupir hann jörðina Laxness í Mosfellssveit. „Þannig getur hann fundið starfsorku sinni farveg til enn meiri hlítar,“ skrifar Pétur. Hann segir að í Reykjavík hafi komið dagar þegar ekki hafi verið næga vinnu að fá og verkleysið helst yfir sem var augljóslega eitur í beinum Guðjóns. Með því að kaupa jörð og gerast bóndi yrðu engin takmörk fyrir því sem hægt væri að gera og þess sem yrði að gera þar sem jörðin var í niðurníðslu, útspörkuð af hrossastóði en íbúðarhúsið timburhús á hlöðnum kjallara sem „völundurinn“ gerir að því frambærilegasta í allri sveitinni segir Pétur. Að því loknu ræðst hann í jarðarbætur og túnrækt og áður en við er litið er Laxnesið orðið að mestu kostajörð. Að auki bætir Guðjón Helgi mannlífið í sveitinni, leikur á orgel í kirkjunni, þjálfar kórinn og situr í sveitastjórn.

Pétur er eðlilega með vangaveltur um það hvernig hinum „verklagna og verkfúsa“ Guðjóni falli verkfælni sonarins? Um það skal ekkert sagt hér enda skiptir það ekki máli. Lýsingin sýnir hins vegar að á þessum tíma gátu duglegir menn komist í nokkrar álnir á Íslandi, bætt hlutskipti sitt og skilað af sér skáldi á heimsvísu sem reyndar þoldi aldrei fullyrðingar um að hann hafi alist í fátækt. Það var ekki upplifun skáldsins af æskuheimilinu, þó efnin væru ekki mikil þá leið engin skort.

Þeir sem þekkja ævi HKL vita að hann hvarf af landi brott skömmu eftir andlát föður síns. Móðir hans seldi hlut úr búi sínu til að afla honum farareyris. HKL skyldi hana eftir i Laxnesi með tvær ungar dætur og sigldi út í heiminn. Faðir HKL var framkvæmdamaður og viljugur til verka. Hugsanlega hefði hann orðið „self-made man” ef hann hefði farið til Ameríku. Þess sérkennilegra er að HKL skuli fara þangað, gleyma athafnasemi föður síns og koma sem „bolsi” til baka frá Ameríku eins og Pétur segir í bók sinni. Sú pólitík sem einkenndi skrif HKL var tæpast fengin úr föðurgarði.

Síðar nýtir HKL peninga sem bárust meðal annars frá Ameríku í skáldalaun til að kaupa föðurarfleiðina og lætur þá konu sína byggja sér herragarð en það er önnur saga!