c

Pistlar:

12. janúar 2020 kl. 15:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjósköðum fækkaði með tilkomu kvótakerfisins

Í umræðu í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir hádegi sagði formaður Sósíalistaflokks Íslands að engir útgerðarmenn hefðu látist við sjósókn hér við land. Þau orð lýsa ekki mikilli þekkingu á útgerðarsögu landsins. Lengst fram eftir síðustu öld voru útgerðarmenn gjarnan við stjórn eigin báta og þoldu sömu örlög og sjómenn sem þar voru um borð. Segja má að eftir að kvótakerfið kom til sögunnar í upphafi níunda aldar dró verulega úr sjóslysum og sjósköðum eins og hefur verið rakið hér í pistlum áður. Staðreyndin er sú að með tilkomu stórútgerðarinnar í dag og fjárfestingar í þekkingu og nýjum skipum hafa öryggismál tekið stakkaskiptum. Sjósókn var stunduð við miklu betri skilyrði og öryggi eins og best verður á kosið. Það er helst að það þurfi að hafa áhyggjur af smábátaútgerð enda eimir enn af einhverskonar sóknarstýringu í því kerfi.

Einstaklega góður árangur hefur náðst í öryggismálum sjófarenda. Fjöldi látinna á sjó hefur dregist saman úr 25 á ári að jafnaði á árunum 1958-1967 í um það bil 1 á ári að jafnaði á árunum 2008-2017. Enginn hefur látist í sjóslysum á árunum 2017, 2018 og 2019. Helstu ástæður fyrir þessari fækkun eru raktar í skýrslu um öryggi sjófarenda. Þar segir að ástæðurnar megi rekja til betri skipa og eftirlits, áhrifa fiskveiðistjórnunarkerfisins sem hefur dregið úr sjósókn í vondum veðrum, betri þjálfunar sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkomu vaktstöðvar siglinga, eflingu Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskyldu íslenskra skipa sjómanna, árangurs af öryggisáætlun sjófarenda og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða.sjoslys

Banaslys heyri til undantekninga

Á síðustu árum hefur það hvað eftir annað gerst að enginn hefur látist til sjós á heilu ári; árin 2008, 2011, 2014 og síðustu þrjú ár. Er því ljóst að ekki er óraunhæft að stefna að því að slíkum árum fjölgi og á endanum heyri banaslys á sjó til algerra undantekninga segir í skýrslunni.

Skipsskaðar hafa að meðaltali verið fimm árlega yfir þriggja ára tímabil á árunum 1998–2006. Á þriggja ára tímabili 2007–2009 og 2010–2012 fórst að meðaltali eitt skip á ári. Því hefur skipssköðum fækkað og er ætlunin að halda þeirri þróun áfram með því að fækka skipssköðum um 5% á ári.

Hættulegt starf

Hver einasta fjölskylda í landinu þekkir sjóslys þar sem ástvinir hafa farist. Sjómennskan var tvímælalaust hættulegasta starf samfélagsins og er það enn eitt það hættulegasta þó mikið hafi breyst. Í lok síðustu aldar voru 25% allra slysa á Íslandi vegna slysa á sjómönnum, enda þótt þeir væru aðeins um 5% þeirra sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði. Hafa verður í huga að nánast öll banaslys og mikill meirihluti annarra slysa eiga sér stað á fiskiskipum.

Útgerð hefur breyst gríðarlega hér á landi eins og og ekki síst síðustu 30 árin vegna kvótakerfisins. Það gerir það að verkum að útgerðum var kleyft að stýra sókn sinni miklu betur og þörfin fyrir að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er hvarf. Um leið stækkuðu skipin og sérhæfing sjómanna jókst. Nýliðum fækkaði, sjómennskan varð smám saman að meira fagi þar sem hver og einn um borð hafði skilning og þekkingu á sínu starfi og þeim hættum sem því fylgdi. Um leið og skipin urðu stærri og betri voru öryggismálin tekin fastari tökum. Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var árið 1985, hefur leiki þar stórt hlutverk. Þetta er einstaklega ánægjuleg þróun og engin ástæða til að láta vinstri-popúlista snúa út úr því og afbaka söguna. Það er líka erfitt að hlusta á gefið í skyn að það snerti ekki útgerðarmenn að missa menn á sjó. Það held ég að sé einstaklega ósanngjörn lýsing.