c

Pistlar:

19. febrúar 2020 kl. 10:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Auðmaðurinn og Washington Post

Við afhendingu Óskars-verðlaunanna, sem við Íslendingar fylgdumst með af óvenju mikilli athygli þetta árið, tóku kynnarnir og háðfuglarnir Steve Martin og Chris Rock eftir því að Jeff Bezos, auðugasti maður heims var í salnum. Þeir gátu auðvitað ekki stillt sig um að beina skotum sínum að honum og sögðu meðal annars að Bezos væri svo ríkur að þó að hann væri nýskilinn þá væri hann enn ríkasti maður heims! Hann er svo ríkur að þegar hann skrifar tékka þá tæmist bankinn, sagði Chris Rock og uppskar hlátur. Steve Martin sagðist ekki vilja gera grín að Bezos, hann vildi að vörurnar héldu áfram að koma til sín!besoz

Viðvera Jeff Bezos í salnum kemur engum á óvart. Hann er auðvitað á toppi frægðarelítu Bandaríkjanna og aufúsugestur hvar sem hann kemur. Nú síðast var greint frá því að hann hygðist gefa hluta auðæva sinna, um 10 milljarða Bandaríkjadala, til að vinna gegn loftslagsvá. Þetta er innan við tíundi hluti auðæva hans í dag (eftir skilnaðinn) en þessi gjafagerningur er án efa eitthvað sem fellur mörgum í geð en ríkir menn þurfa gjarnan að réttlæta tilveru sína með slíkum gjöfum eða framlögum til mannúðarmála. Hér hefur áður í pistlum verið fjallað um slíkt örlæti af hálfu Bill Gates sem var ríkasti maður heims þar til Bezos sópaði honum í burtu. Það virðist hafa komið hik á góðmennið Gates sem kom mörgum aðdáendum sínum á óvart með því að tilkynna að hann hygðist smíða eina dýrustu snekkju heims og skipti þá engu þó hún ætti að ganga fyrir vetni. En þess má reyndar geta að frétt um nýleg húsakaup Bezos var mest lesna frétt dagsins hér á mbl.is enda ekki tjaldað til einnar nætur þar.

En Bezos er ekki bara frægur fyrir að vera pakkakóngur heimsins í gegnum eignarhald sitt á Amazon. Pakkakóngur er reyndar ekki réttnefni því Bezos hefur tekið að sér að umbylta verslunar- og afþreyingariðnaði líka. Þar hefur eignarhald hans á bandaríska stórblaðinu Washington Post verið í kastljósinu en blaðið hefur verið óvenju hatramt í gagnrýni sinni á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, eins og fjallað var um í pistli hér í fyrra. Óhætt er að segja að blaðið sjái ekkert jákvætt við stjórn Trump og lesendur fá daglega marga skammta af mjög neikvæðri umfjöllun um forsetann. Þetta virðist hafa fallið þeim ágætleg í geð en reksturinn hefur verið að þokast til betri vegar eftir áralanga erfiðleika.

Blaðið þyrfti uppfærslu

Bezos hefur eðlilega látið sig rekstur blaðsins talsverðu varða síðan hann eignaðist það árið 2013 þó hann fullyrði að hann komi ekkert að ritstjórnarlegum ákvörðunum. Í viðtali við fréttaþáttinn „60 Minutes“ hjá CBS News, skömmu eftir kaupin, greindi hann frá því að Donald Graham, fulltrúi fyrri eigenda Post hefði leitað til hans um kaup á blaðinu. Þá með vísun í það að ef blaðið ætti að eiga framtíð þá yrði að gerbreyta tæknilegri framsetningu efnis. Enginn væri betri til þess en eigandi eins stærsta tæknifyrirtækis heims. Sjálfsagt skipti nokkru að Bezos var sérlega heppilegur kaupandi en hann reiddi fram 250 milljónir Bandaríkjadala fyrir fyrirtækið þannig að gamla Graham-ættin fékk eitthvað fyrir ævistarfið.washington-post

Selja tæknibúnað

Þegar Bezos var boðið blaðið til kaups hafði hann engar fyrirætlanir um að tengjast fjölmiðlastarfsemi. Það má auðvitað deila um hve vel Bezos hefur gengið að halda sig fjarri ritstjórnarlegum ákvörðunum og ljóst að margir telja að hann geri það alls ekki. Hann hefur skipt um fólk í brúnni og á reglulega fundi með æðstu stjórnendum. En hann hefur sannarlega sýnt því áhuga að gera blaðið rekstrarhæft og arðbært. Margvíslegar áskoranir hafa birst honum. Árið 2018 kom upp launadeila og 400 starfsmenn blaðsins sendu undirskriftarlista um að kjör þeirra yrðu bætt. Þegar horft var til þess að áskriftartekjur höfðu aukist verulaga má hafa skilning á þeirri kröfugerð. Bezos sjálfur hefur sagst vilja efla tekjugrunn blaðsins og að allir starfsmenn muni njóta þess. Hann lét hafa eftir sér á fjölmiðlaráðstefnu að rekstur blaðsins væri ekki mannúðarstarf.

Undir stjórn Bezos hefur verið lögð áhersla á að bæta þá tækni sem blaðið beitir við að dreifa efni og hefur það nú þróað búnað á því sviði sem það selur öðrum. Fyrir stuttu var sagt frá því að olíurisinn Shell hefði keypt vefumsjónar og ritstjórnarkerfi af félaginu en olíufélagið dreifir daglega fréttum til um 70 þúsund starfsmanna. Þarna er tekjulind sem Bezos horfir til enda hefur hann sagt að ein helsta þekkingarlind blaðarisans sé einmitt miðlun og dreifing efnis. Það eigi ekki að vera bundið við pappírsútgáfuna. Þá hyggst hann ná til viðskiptavina út fyrir fjölmiðlaheiminn eins og salan til Shell sýnir. Gert er ráð fyrir að slík sala verði þriðja stærsta tekjulind blaðsins innan tveggja til þriggja ára, næst á eftir áskriftar- og auglýsingatekjum. Fyrir á þessum markaði eru fyrirtæki eins og WordPress.com, Drupal og og Vox Media’s Chorus. Ljóst er að þarna getur verið vænleg tekjulind en ef allt bregst þá hefur Bezos sagt að hann muni standa með blaðinu. Eins og árar í annarri starfsemi hans þá hefur hann efni á því.