c

Pistlar:

6. apríl 2020 kl. 16:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Marshall-áætlun til endurreisnar

Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Time Warner, sagði í samtali í Silfrinu í gær að hann hefði ekki trú á að efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins sem nú gengur yfir yrðu skammvinn. Hann rifjaði upp að margir hafi gælt við að áhrifin yrðu í formi V - efnahagurinn færi hratt niður en að sama skapi hratt upp. Nú sagðist hann hafa efasemdir um það, það muni teygjast úr þessu ástandi, þetta væri ekki venjuleg kreppa heldur reiðarslag.seðlar

Þjóðir heimsins standa ráðalitlar frammi fyrir vandanum og engin treystir sér til þess að segja almennilega til um hvaða áhrif þetta hefur á efnahag heimsins og hinna einstöku landa. Ljóst er að það tekur nokkra mánuði að veiran gangi yfir og lönd heimsins eru á mismunandi stigi í faraldrinum. Í raun eru fá svör í hagfræðinni um hvernig skuli bregðast við, jú, seðlabankar heimsins eru tilbúnir að koma með gríðarlega innspýtingu en hvað svo? Því treysta fáir sér til að svara, engin kemur með spá, í besta falli sviðsmynd! Fyrirtæki gefa nú engar afkomuspár frá sér, segja það marklítið. Áhrifin á ríkissjóði hinna einstöku landa liggja ekki fyrir en það stefnir í að tekjurnar hrynji um leið og útgjöldin aukast.

Í gær voru 80 þjóðir búnar að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð vegna efnihagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins. Sjóðurinn segist hafa getu til að setja eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala í verkefnið. Það er helmingi minna en Bandaríkjamenn hyggjast setja í sitt hagkerfi. Alþjóðabankinn hefur varað við hættu á heimskreppu og hefur sett 160 milljarða dala á hliðarlínuna sem ætlunin er að nýta á næstu 15 mánuðum. Bankinn er þegar kominn af stað með neyðaraðstoð til 25 ríkja en hann hefur einnig tekið að sér að fjármagna kaup á sjúkragögnum þar sem þau hefur skort en ljóst er að sum þróunarríki eru mjög vanbúin á því sviði.

Marshall-áætlun til endurreisnar

Allstaðar eru því stjórnvöld að bregðast við. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ritaði grein í þýska blaðið Welt am Sonntag í gær og sagði: „Við þurfum Marshall-áætlun fyrir Evrópu.“ Í framhaldi þess hvatti von der Leyen til þess að við gerð fjárlaga fyrir ESB verði hugað að verulegum útgjöldum til fjárfestinga vegna afleiðinga COVID-19. Forsætisráðherra Spánar sagðist vera sömu skoðunar og orðaði það svo að grípa yrði til „styrjaldar-efnahagsaðgerða“ og síðan endurreisnaráætlunar. En ef það þarf Marshall-áætlun fyrir heiminn, hver á þá að borga?

Greiningarfyrirtækið Capital Economics spáir því að landsframleiðsla á heimsvísu falli um 3,5% en mun meira í sumum löndum, mest á Ítalíu þar sem hún geti fallið um allt að 10%. Í Bandaríkjunum verði samdrátturinn 5,5%, 6% í Frakklandi og Þýskalandi og 7% í Bretlandi. En aðeins 3,5% í Kína, þar sem faraldurinn reis upp. Þessar tölur taka eðlilega miklum breytingum enda engin leið að segja til um hvernig faraldurinn þróast og hvenær sóttvarnaryfirvöld hinna einstöku landa treysta sér til að slaka á lokunum. Þetta kemur glögglega fram í tali sóttvarnarlæknis hér á Íslandi á daglegum fundum hans.viðskiptistopp

Áhrifin á Íslandi

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á kynningarfundi bankans 25. mars síðastliðinn (fyrir 11 dögum síðan!) að hagvöxtur á Íslandi gæti orðið neikvæður um nær 5% á þessu ári. Áður hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að á árinu yrði tæplega 1% hagvöxtur þannig að viðsnúningurinn er 6%. Í útvarpsviðtali 23. mars sagði fjármálaráðherra að gert væri ráð fyrir 6-7 prósenta samdrætti landsframleiðslu sem jafnast á við samdráttinn árið 2009. Á fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 909 milljarða króna tekjum ríkissjóðs. Ef gert er ráð fyrir 7% samdrætti landsframleiðslu, sem Viðskiptaráð taldi tiltölulega bjartsýnt í umsögn sinni um fjáraukalög í þinginu, þýðir það eitt og sér í grófum dráttum um 60 milljarða króna tekjusamdrátt. Í dag teldist það líklega bjartsýn spá og líklega verður 2. ársfjórðungur þessa árs engu lýkur.

Augljóslega er hagkerfið í miklum hægagangi núna og svo virðist sem engin treysti sér til að meta hve mikill samdrátturinn er en stærsta óvissan fylgir ferðaþjónustunni, stærstu útflutningsgrein okkar sem skapaði 500 milljarða króna gjaldeyristekjur á síðasta ári. Allar vangaveltur um endurreisn efnahagsins byggjast að verulegu leyti á endurreisn ferðaþjónustunnar. Sem dæmi um hrunið má nefna að erlend kortavelta var nú í marsmánuði aðeins 5% af því sem hún var fyrir ári síðan. Aðrar helstu útflutningsgreinar landsins; sjávarútvegurinn, framleiðsluiðnaður og álfyrirtæki, eru sömuleiðis að fá þungu högg vegna minnkandi eftirspurnar á heimsvísu. Það getur því orðið bið á að við séum á leiðinni upp brekkuna.