c

Pistlar:

25. mars 2020 kl. 13:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Neikvæður hagvöxtur og breytt peningastefna

Það er varla ástæða til að tína til það sem hefur breyst undanfarna daga, bæði í hinu raunverulega hagkerfi en ekki síður í hinum kennilega. Í dag var greint frá því að peningastefnunefnd seðlabankans hefði tekið ákvörðun um að kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl á næstunni. Nemur heimild bankans til kaupanna 150 milljörðum króna eða um 5% af landsframleiðslu. Seðlabankastjóri sagði á fundi í morgun, þegar kaupin voru kunngerð, að þau væru mun minni í sniðum en hjá öðrum seðlabönkum. Eftir sé að útfæra kaupin nánar, meðal annars í samvinnu við fjármálaráðuneytið.

Hér er um að ræða svokallaða magnbundna íhlutun (e. quantitative easing), sem snýst um að seðlabankar kaupi ríkisskuldabréf á opnum markaði og fjármagni þannig hallarekstur ríkissjóðs. Með öðrum orðum; svona lítur seðlaprentun út! Þetta er í fyrsta sinn sem bankinn nýtir sér þetta stýringartól en hafa má í huga að útilokað var að beita því þegar fjármálakerfið hrundi fyrir tæpum 12 árum. Þá skorti ekki íslenskar krónur inn í kerfið. Ósjálfbær staða hagkerfisins hafði þá birst og afleiðingarnar eru flestum Íslendingum minnisstæðar. Margt bendir til þess að endurkoman geti verið hraðari en margt er einnig óljóst.ásgeir

Óvissan um framvinduna

Seðlabankastjóri var búinn að gefa fyrirheit um að svona yrði brugðist við, já, var bara nokkuð höfðinglegur þegar hann sagði að krónur myndi ekki skorta. Auðvitað skiptir það máli þó að seðlaprentun næstu tveggja til þriggja næstu mánaða fari augljóslega í að fjármagna hagkerfi sem er lamað og skapar lítil sem engin verðmæti. Hvað stórt högg hagkerfið er að fá er ómögulegt að segja, það veltur í raun á hvernig gengur að endurskapa samskiptatraust í kjölfar þess að útbreiðsla veirunnar dregst saman. Hvenær það verður er ómögulegt að segja og erfitt að ráða í svör heilbrigðisyfirvalda um það. Enn sem komið er höfum við bara fyrri spá Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns um að við getum byrjað að grilla aftur í júlí! Engin leið er að ráða í áreiðanleika þeirrar spá sem kynntar eru kl. 14 á hverjum degi.

Sambærilegur samdráttur og 2009?

En hve mikill verður samdrátturinn? Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðings Seðlabankans, sagði á kynningarfundi bankans í morgun að hagvöxtur á Íslandi gæti orðið neikvæður um nær 5% á þessu ári. Áður hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að á árinu yrði tæplega 1% hagvöxtur þannig að viðsnúningurinn er 6%. Í útvarpsviðtali 23. mars sagði fjármálaráðherra að gert væri ráð fyrir 6-7 prósenta samdrætti landsframleiðslu sem jafnast á við samdráttinn árið 2009. Á fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 909 milljarða króna tekjum ríkissjóðs. Ef gert er ráð fyrir 7% samdrætti landsframleiðslu, sem Viðskiptaráð telur tiltölulega bjartsýnt í umsögn sinni um fjáraukalög í þinginu, þýðir það eitt og sér í grófum dráttum um 60 milljarða króna tekjusamdrátt. Flestir yrðu ánægðir ef hann yrði ekki meiri.

Hvenær byrjar fólk að ferðast aftur?

Þórarinn tefldi fram tveimur sviðsmyndum á fundinum. Sú mildari gerir ráð fyrir 37% fækkun ferðamanna á árinu og 14% samdrátt heildarútflutnings milli ára. Sú dekkri sýnir hins vegar 55% fækkun ferðamanna og 21% samdrátt heildarútflutnings. Ljóst er að höggið er gríðarlegt fyrir hagkerfið þó á móti komi að eyðsla Íslendinga erlendis mun einnig dragast saman enda flestir þeir sem dveljast langdvölum erlendis komnir heim. Það mun hafa áhrif á innanlandsneyslu en ekki bæta stöðu ferðaþjónustunnar. Í spá bankans er búist við að erlendum ferðamönnum næstu mánuði fækki um yfir 90% frá því í fyrra en í raun ekkert sagt um hvenær það geti breyst. Nú er búið að loka með valdboði þjónustu sem nær til um 40% af starfsemi í landinu.

Í bankahruninu urðu ekki nærri því jafn víðtækar raskanir á raunhagkerfinu á svo stuttum tíma líkt og nú enda áfallið allt annars eðlis. Nú eru forsendur til staðar fyrir snörpum viðsnúningi ef rétt er brugðist við. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir stöðunni og geri þau það blasir við að frekari breytingar þarf á fjárlögum.