c

Pistlar:

21. maí 2020 kl. 13:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Milljarður til framtíðar

Það er vonandi að sá milljarður króna sem ríkisstjórnin ætlar að verja í framtíðina ávaxtist vel. Í gær kynntu talsmenn stjórnarinnar að hún hefði ákveðið að verja umræddri fjárhæð, fram til ársins 2023, til að styðja við rannsóknir og nýsköpun á samfélagslegum áskorunum. Þetta verður gert í í gegnum áætlun sem ber nafnið, „Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.“ Þarna voru mættir forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og kynntu áætlunina og skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna. Við það tækifæri fjölluðu ráðherrarnir um frekari áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum.Hannesarholt_0020

Allt er þetta sett saman af góðri skynsemi og miklum áhuga. En hvernig tekst hvert og eitt samfélag á við framtíðina, sérstaklega þegar augljóst er að við erum síður en svo sátt við nútíðina og rífumst af krafti um fortíðina? Augljóslega er stefnumótun til framtíðar hluti af pólitískri sýn allra starfandi stjórnmálaafla þó vitaskuld sé misjafnt hve djúpt er kafað í þau mál. Hver flokkur selur kjósendum sínum framtíðarsýn til lengri og skemmri tíma en grundvallarspurningar snúast yfirleitt um það hver aðkoma ríkisvaldsins sé að lífi borgaranna. Hver ríkisstjórn reynir að sameinast um einhverskonar sýn til framtíðar í stjórnarsáttmála sínum sem er reyndar þannig plagg að það er ekki lesið mikið eftir að það hefur verið sett saman. Það breytir því ekki að stjórnarsáttmáli er mikilvægt skjal og mætti oft vanda betur til þess.

Ísland 2020 - man einhver eftir því?

Er dónaskapur í þessu framtíðarpartýi stjórnvalda að rifja upp að fyrir tæpum 10 árum kynnti þáverandi ríkisstjórn framtíðarsýn sem átti einmitt að rætast í ár! Ísland 2020 - man einhver eftir því? Þar sagði í inngangi: „Stefna skal að því að árið 2020 verði Ísland öflugt samfélag sem stendur vörð um velferð á sjálfbæran hátt í þágu allra hópa samfélagsins.“ En ekki hvað, gæti einhver sagt. Hér er ekki ætlunin að hnýta í þessi áform en það má vissulega velta fyrir sér eftirfylgni og stefnufestu. Ef ríkisstjórnin ein og sér stendur að slíkri markmiðssetningu er hætt við að næsta ríkisstjórn leysi hana upp. Með réttu eða röngu. Hugsanlega má af þessu læra að ef á að setja landsmönnum stefnumörkun til framtíðar þarf það að vera með afmörkuðum vel skilgreindum markmiðum sem sátt næst um. En er líklegt að það náist? Jú auðvitað viljum við vera tilbúin fyrir fjórðu iðnbyltinguna þó sumir þurfi sjálfsagt að fletta upp út á hvað hinar þrjár gengu. En hvernig viljum við forma framtíðarsýnina?

Stjórnarskráin - framtíðarsýn

Stjórnarskrá hvers ríkis er grunnurinn að athöfnum borgaranna, þangað sækja stjórnvöld lögmæti sitt. Um hana gilti lengst af ákveðin sátt eða allt til þess að ákveðin stjórnmálaöfl vildu gera hana að sínu. Hvort sem við köllum þetta byltingaröfl eða umbótaöfl þá er augljóst af orðræðu þeirra að þröngur og hávær pólitískur hópur er tilbúinn að stela sáttmála þjóðarinnar. Á þetta er minnt til að útskýra að það að kynna framtíðarsýn landsins á vettvangi stjórnmálanna eru alltaf pólitísk skilaboð. Sá hópur sem nú gerir tilkall til stjórnarskrár landsins virðist þannig ekki vera tilbúin að takmarka umsvif eða vald hins opinbera. Það er reyndar forvitnilegt að lesa í skýrslu verkefnastjórnar forsætisráðuneytisins sem kynnt var í gær nokkur sátt ríkir um grunngildi samfélagsins: „Íslenskt samfélag einkennist af trausti og virðingu fyrir grundvallargildum eins og mannréttindum og frelsi einstaklingsins.“ Tónar það við áherslur Stjórnarskrárfélagsins og þeirra sem gera út á að íslenskt samfélag sé ónýtt og allir hafi það skítt?

Leiðandi hönd ríkisins

Á sumardaginn fyrsta fyrir ári síðan velti pistlahöfundur fyrir sér hver hin opinbera stefnumörkun til framtíðar ætti að vera. Þá skrifaði ég: „Stærstu framtíðarverkefnin lúta væntanlega að því að skilgreina hvað langt við viljum ganga í að hafa áhrif og stýra þróuninni. Verða þetta gósentímar fyrir stjórnmálamenn eða aðra þjóðfélagsskipulagsfræðinga eða verður yfir höfuð hægt að stýra þróuninni? (Og verður rétt að tala um þróun?) Þó að skýrslur framtíðanefnda geti vissulega gefið einhverja sýn á framtíðina þá er ómögulegt að segja hvernig hlutirnir breytast, fái þróunin að ganga fram óáreitt og án þess að reynt sé að stýra henni.“

Förum við inn í framtíðina undir leiðsögn ríkisvaldsins eða þeirra stjórnvalda sem taka að sér að stýra þróuninni? Hve langt á hið opinbera að ganga þarna? Gæti ekki öflugasta framtíðarsýnin falist í því að draga sem mest úr stýringu og stjórnun hins opinbera? Það er reyndar þvert á þau skilaboð sem yfirleitt birtast þegar stjórnvöld taka að sér að kynna framtíðina, þá virðist hún eiga að vera undir leiðsögn Stóra bróðurs, sem er umhugsunarvert útaf fyrir sig.