c

Pistlar:

13. september 2020 kl. 22:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þekkingarleysi formannsins um Sundabraut

Það var sérkennilegt að fylgjast með framgöngu Sigurborgar Ósk Haraldsdóttur, borgarfulltrúa Pírata og formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, í Silfrinu í dag. Þegar kom að málefnum Sundabrautar var hreinlega eins og hún hefði ekki sett sig inn í hvað Sundabraut gengur útá. Þá virtist formaðurinn þekkja lítið þá umræðu sem hefur verið um lagningu Sundabrautar í bráðum 35 ár og hefur verið tilefni fjölmargra pistla hér. Svo virðist að formaður skipulags- og samgönguráðs og reyndar meirihlutinn í Reykjavík hyggist gera allt til að koma í veg fyrir að Sundabraut verði að veruleika eða spilla því að hún nái tilgangi sínum. Virðist þá litlu skipta þær skuldbindingar sem Reykjavíkurborg hefur tekið á sig um lagningu Sundabrautar.

Því er kannski brýnt að rifja upp út á hvað Sundabraut gengur. Jú að stytta ferðalög til og frá borginni, stuðla að meira öryggi í umferðinni og um leið að tryggja betur flæði frá borginni ef hættuástand skapast sem knýr á um að fólk þurfi að koma sér burtu með hraði. Við verðum að hafa í huga að eins ástandið er núna er bara ein leið út úr borginni í austur og norður og það er um Ártúnsbrekkuna. Það er auðvitað ekki viðunandi ef kemur upp hættuástand á höfuðborgarsvæðinu, hvað þá ef leiðin til vesturs myndi loka. Annað sem styður Sundabraut er að hún styttir verulega leiðina vestur á land, upp á Akranes og inn í Grundartangahöfn og auðveldar þannig samgöngur inn og út úr borginni.

Mikilsvert framlag til þróunar byggðar

En svo má ekki gleyma því að Sundabraut styður við atvinnuuppbyggingu og myndar stærra og heildstæðara atvinnusvæði. Nú blasir við að Reykjavík þarf að geta boðið upp á fleiri svæði fyrir atvinnustarfsemi og íbúðir. Sundabraut mun þar geta gengt veigamiklu hlutverki. Fyrir Reykjavík sem höfuðborg er mikilsvert að landsmenn eigi greiðan aðgang inn í borgina og að þeim stjórnsýslumiðstöðvum sem hún geymir. Þannig er hún í hagsmunamál fyrir landsbyggðina en það er eins og margir borgarfulltrúar gleymi því að Reykjavík er höfuðborg landsins alls. Þá blasir við að Sundabraut myndi létta af umferðarálagi í gegnum Mosfellsbæ og á leiðinni til Þingvalla. Sömuleiðis myndi Sundabraut stytta leiðina niður í bæ úr Grafarvoginum og öðrum hverfum sem kunna að rísa á leið hennar. Sömuleiðis bætir hún tenginguna upp á Kjalarnes.umræða

50 km hámarkshraði?

Þegar þetta er haft í huga er stórundarlegt að hlusta á formanninn segja að ef Sundabraut yrði lögð sem hraðbraut mun það kosta mörg mislæg gatnamót og hún mun skera hverfi í sundur! Þá sagði Sigurborg að Sundabraut væri ekki fjármögnuð í samgöngusáttmálanum, en væri möguleg tenging út úr borginni. Yrði hún byggð sem hraðbraut myndi hún hafa neikvæð áhrif á loftgæði og skapa aukna umferð. Sundabraut verði fyrir alla ferðamáta og þar gæti verið 50 kílómetra hámarkshraði.

„Hún gæti verið fyrir bíla á 50 km hraða, þá getum við náð þungaflutningunum í höfnina en þá væri hún ekki að hafa þessi ofboðslega neikvæðu áhrif á íbúana sem búa í borginni,“ sagði Sigurborg í þættinum.

En því miður er svona málflutningur ekki nýr. Fyrir rúmum tveimur árum var ég staddur fundi þar sem Hjálmar Sveinsson, þá formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, mótmælti Ásgeiri Jónssyni, sem þá var bara óbreyttur hagfræðingur, en hann talaði fyrir ágæti Sundabrautar eins og hann hefur ávallt gert. Duldist engum að Hjálmar er á móti Sundabraut og nefndi hann til þau rök að með henni myndu skapast umferðartafir á Sæbraut. - Að umferðabætur skapi bara nýjar umferðartafir!

Skömmu eftir að Hjálmar lét ummælin falla skoraði bæjarstjórn Akraness á Reykjavíkurborg og ríkið að hefja án tafar undirbúning að lagningu Sundabrautar. Yfirlýsing Akurnesinga var skorinorð en um hana var fjallað hér í pistli en hún  bendir á að aðgerðarleysi og „umkenningaleikur” Reykjavíkurborgar og ríkisins hefur staðið of lengi og tími sé kominn á aðgerðir með hagsmuni borgarbúa og Íslendinga allra að leiðarljósi. Þessi yfirlýsing hefði mátt fá meiri athygli af mörgum ástæðum og hana mætti rifja oftar upp.

Það er auðvitað stórundarlegt að verða vitni að svona málflutningi aftur og aftur, það er eitt að styðja breyttar ferðavenjur en að gera það að sérstöku baráttumáli að berjast gegn ferðavenjum annarra með jafn grímulaust stjórnlindi að vopni er nýtt í samgöngusögu landsmanna.