c

Pistlar:

31. janúar 2021 kl. 20:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistar á þotuöld

Forbes tímaritið bandaríska skrifaði iðulega um byltingaleiðtogann Fidel Castro sem auðmann, líklega frekar til stríða honum og öðrum sósíalistum, fremur en að þeir teldu hann eignamann í hefðbundnum skilningi. En blaðið setti hann á lista yfir auðmenn í hinum kapítalíska heimi og gerði það reyndar við fleiri leiðtoga sósíalista. Í sjálfu sér hagaði Fidel sér ekki endilega sem slíkur, hann vildi bara hafa nóg af öllu og ekkert vesen! Fidel gekk um í velsniðnum herklæðnaði og vildi margvíslega gæði tiltækt þó hugsanlega hafi hann ekki litið á það sem eign sína. Að sumu leyti átti þetta við líka um Robert Mugabe, leiðtoga Zimbabwe, sem var hér alloft fjallað um í pistlum. Eftir því sem land hans varð fátækra vegna „stjórnvisku“ hans varð Robert Mugabe og fjölskylda hans ríkari. En ef hann kenndi sig við einhverjar pólitískar hreyfingar þá voru þær með einhverskonar sósíalisma innanborðs. Slíkir leiðtogar reyndust honum enda best þegar á reyndi og hann einangraðist í heiminum. Fjölmiðlar þreyttust seint á að segja frá fráleitu óhófslífi hans á meðan þjóð hans þjáðist.comrades

En slíkt viðhorf til eignar og notagildis hlutanna birtist líka hjá listamanninum ágæta Pablo Picasso en þegar kom að pólitík taldi hann sig vera kommúnista. Pablo baðaði sig ekki í auð heldur frægð og vildi, eins og Fidel, hafa allt tiltækt sem hann þarfnaðist, hvort sem það voru hús, konur eða annað sem þjónaði lífi hans sem listamanns. Hann skorti aldrei neitt en var svo sem ekkert óhóflegur í neyslu sinni. Hann skyldi hins vegar eftir sig gríðarleg auðæfi sem féllu í skaut afkomenda hans og þeir þurftu síðan að rífast um þau eins og kom fram í nýlegri franskri heimildarmynd sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu fyrir skömmu. Óhætt er að segja að Picasso hafi birst þar sem einstaklega eigingjarn maður og að sumu leyti eitraði hann líf þeirra sem umgengust hann. Tvær fyrrverandi ástkonur hans frömdu sjálfsmorð og börn hans fengu aldrei að kynnast honum almennilega. En um list hans þarf ekki að deila, þar er hann risi meðal manna.

Börnin erfa auðævin

Rétt eins og hjá Pablo Picasso þá hafa börn sósíalistaforingjanna erft mikil auðævi. Eftir byltinguna á Kúbu færði Fidel Castro völdin yfir í einhverskonar ættarveldi. Heimatökin voru hæg. Bróðir hans Raoul tók við af honum látnum og nú birtast helst fréttir af afkomendum Fidels sem frægðarfólki sem lifir í vellystingum praktuglega. Þegar Fidel Castro dó árið 2016 voru eignir hans metnar á 900 milljónir Bandaríkjadala eða 115 milljarða króna. Talið er að börn hans hafi aðgang að þeim fjármunum.

Á sínum tíma ríkti Hugo Chavez, fyrrverandi forseti Venesúela, yfir landi ríku af náttúrauðlindum. Hann hagaði sér svolítið eins og Fidel Castro enda voru þeir nánir vinir. Hugo Chavez var stórauðugur maður þegar hann lést og skipti engu að hann hafði oft orð á því að persónuleg auðævi væru af hinu illa. Í grein í Forbes 2015 var það metið sem svo að Hugo hefði átt sem svarar 2 milljörðum dala þegar hann lést árið 2013. Nú telja fjölmiðlar að elsta dóttir Hugo, Maria Gabriela, sé án vafa ríkasta kona Venesúela og er auður hennar metin á um 4 milljarða dala eða ríflega 500 milljarða íslenskra kóna. Talið er að fjármunirnir séu geymdir á reikningum í Evrópu.vene

Núverandi leiðtogi Venesúela, Nicolas Maduro, er talin af alþjóðlegum fjölmiðlum eiga miklar eignir. Sem oft áður er þetta matskennt en í það minnsta hefur hann aðgang að öllu því sem hugurinn girnist á meðan landsmenn hans svelta.

Allt á þetta sér samsvörun í sögunni Dýrabæ eftir George Orwell sem vísar í byltingu þeirra Leníns, Trotskýs og Stalíns. Hugsjónir byltingarinnar eru sviknar hver á fætur annarri og svínin njóta að endingu ein afrakstursins af vinnu hinna dýranna. Slagorðinu sem einu sinni var „Öll dýrin er jöfn“ er breytt í „Öll dýrin eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur“. Kröftugari satíra á sósíalismann hefur ekki verið skrifuð.