c

Pistlar:

23. mars 2021 kl. 22:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bólusetningarhjáleigan Ísland

Það getur engin haldið því fram að það gangi vel að bólusetja við kórónuverunni hér á Íslandi. En það eru augljóslega margar útskýringar á því og á það virðast stjórnvöld geta treyst. Þau verða ekki beinlínis hönkuð fyrir eitthvað. Það er ekki einu sinni hægt að ásaka þau um vanhæfni. Til að vera sakaður um vanhæfni þarftu helst að hafa reynt að gera eitthvað en það hafa íslensk stjórnvöld ekki verið staðinn að. Við erum einfaldlega bólusetningarhjáleiga Evrópusambandsins og treystum að öllu leyti á að hingað berist dýrmætir dropar úr þeirra pöntunum. Við erum ekki einu sinni aftursætisfarþegar í þessum leiðangri því þar sitja frændur okkar Svíar en þeim er ætlað að rétta okkur bólefnið aftur í skottið á hinum hægfara bólusetningarbíl Evrópusambandsins. Þannig bregst hið fullvalda þjóðríki við, það einfaldlega útvistar öllu ferlinu og svo sitjum við í súpunni með þeim aðila sem hvað verst hefur gengið að bólusetja, sjálfu Evrópusambandinu sem augljóslega logar af innbyrðis illdeilum og átökum. Það helsta sem getur sameinað það er að reyna að klekkja á breska skilnaðarbarninu sem hefur tekist að framfylgja bólusetningaráætlun á margföldum hraða þess sem gerist á meginlandinu. Fyrst reyndi Evrópusambandi að kasta rýrð á AstraZeneca bóluefnið sem Bretar samþykktu fyrstir allra en síðar reyndi það að koma í veg fyrir að Bretar fengju bóluefnið. Furðulegt mál og kemur ofan í fleiri vandræðamál Evrópusambandsins frá upphafi veirunnar eins og hefur verið vikið að í pistlum hér.covid

Bretar sáttir við framvinduna

En Bretar virðast með réttan kúrs í málinu. Breska blaðið The Telegraph greindi frá því í vikunni að fjórir af hverjum tíu Bretum telja að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hafi gert landinu auðveldara með að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Þetta birtist í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins Ipsos Mori. Aðeins 14% reyndust þessu ósammála. Þá telja 67% Breta að bresk stjórnvöld hafi náð meiri árangri í bólusetningum gegn kórónuveirunni en ríkisstjórnir ríkja innan sambandsins. Þar af 65% þeirra sem kusu með áframhaldandi veru landsins innan þess í þjóðaratkvæðinu 2016. Hvað sem segja má um hrakningar Breta, sem hafa farið illa út úr veirunni, þá virðast þeir þó sáttir við að vera sjálfstæðir í bóluefnamálinu.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins benti á augljósa sannindi síðasta föstudag þar sem hann rakti skilmerkilega hve hægt gengur að bólusetja hér á meðan við sjáum þjóðir eins og Breta, Bandaríkjamenn, Ísraela og fleiri þjóta framúr okkur. Meira að segja lönd eins og Chile hafa náð umtalsverðum árangri á meðan við sitjum eftir. „Með öflugri forystu hefði mátt bólusetja þjóðina mun fyrr, opna landið og afnema um leið þær skerðingar á daglegu lífi sem við höfum búið við,“ segir í leiðara Fréttablaðsins.

Auðvitað hafa margir ESB-sinnar mótmælt þessu. Að venju hafna þeir því að fullvalda þjóð geti nokkuð gert, fullveldið (sem þeir skrifa innan gæsalappa) hefur enga merkingu í þeirra huga. Það hljóta að vera merkileg skilaboð frá þeim flokkum sem styðja ESB-aðild inn í komandi kosningar þó þeir virðist ekki treysta sér til þess að setja það fram sem kosningamál. Hugsanlega vita Samfylkingin og Viðreisn ekki enn hvor flokkurinn er með ESB-umboðið og vilja ekki láta á það reyna.grafbol

Heldur Svandís ein trúnni?

Forsætisráðherra var fyrir svörum um bólusetningu í dag á Alþingi og gat í raun engu svarað og byggði málflutning sinn upp þá útskýringum og afsökunum eins og við þekkjum orðið svo vel úr svörum heilbrigðisráðherra sem í raun svarar engu. Björn Ingi Hrafnsson er líklega sá blaðamaður sem best hefur kynnt sér þræði þessa máls. Hann bendir á það í dag í pistli að nú sé sú ótrúlega staða uppi að „íslenski heilbrigðisráðherrann Svandís Svavarsdóttir sé líklega sá evrópski stjórnmálamaður sem ákafast stendur vörð um bólusetningaráætlun Evrópusambandsins, jafnvel þegar flestir kollegar hennar innan aðildarlandanna eru löngu lagðir á flótta og búnir að lýsa áætluninni sem allsherjar klúðri og hneyksli. Og við erum ekki einu sinni í Evrópusambandinu!“

Þannig sitjum við uppi með bjargarleysi þeirra úrræðalausu á meðan við höfum til dæmis fylgst með forsætisráðherra Danmerkur og kanslara Austurríkis fara í heimsókn til Ísraels, þar sem búið er að bólusetja um 90% þjóðarinnar með bóluefni frá Pfizer. Björn Ingi vitnar til orða Mette Fredriksen, forsætisráðherra Dana, sem sagði bóluefnaáætlun ESB alveg hafa brugðist og því hafi Danir ákveðið að grípa til eigin ráða til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar, ekki síst ef þróa þyrfti fleiri kynslóðir bóluefna í framtíðinni gegn stökkbreyttum afbrigðum veirunnar.

Allar sjálfstæðar þjóðir reyna að gæta hagsmuna borgara sinna með því að verða sér út úr bóluefni, ýmist með samstarfssamningum eða eigin samningaviðræðum. Engin sjálfstæð þjóð getur leyft sér að sitja með hendur í skauti.