c

Pistlar:

19. apríl 2021 kl. 15:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofurdeild - versta hugmynd í heimi?

Síðustu misserin hafa stærstu knattspyrnulið Evrópu lagt á ráðin, hugleitt, hist og velt endalaust fyrir sér möguleikum á að stofna nokkurskonar ofurdeild sem tryggir þeim öruggt tekjuflæði án afskipta Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) sem tekur í dag drjúgan hluta þess penings sem kemur inn í meistaradeild Evrópu og dreifir því til smærri liða og einsakra landa.uefa

Þrátt fyrir þessar vangaveltur voru fæstir trúaðir á að þetta yrði að veruleika enda hafði klúbbunum verið rækilega bent á að þetta myndi ekki ganga, aldrei yrði sátt um slíkt. En tíðindi helgarinnar eru þau að sex ensk lið (þar af þrjú frá London), þrjú spænsk og þrjú ítölsk hafa tilkynnt að þau ætli að taka slaginn og stofna slíka ofurdeild. Óhætt er að segja að fáir taki undir eða styðji þessi áform og hér á mbl.is var haft eftir Guðna Bergssyni, formanni KSÍ að honum litist afleitlega á hugmyndina. Hann er ekki einn um það og óhætt að segja að viðbrögðin um alla Evrópu séu neikvæð og menn hafa bent á að samfélagsmiðlar logi af minna tilefni. Getur verið að forráðamenn liðanna hafi algerlega vanmetið þau viðbrögð sem tilkynning þeirra myndi hafa? Eða á að setja þetta í samhengi við það að UEFA samþykkti á fundi sínum í dag að fjölga liðum í Meistaradeildinni og breyta fyrirkomulaginu?

Eru ekki einu sinni í Meistaradeildinni!

Það eru AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Mílanó, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham sem standa á bak við stofnun deildarinnar og samkvæmt fréttum eru þrjú félög til viðbótar í viðræðum um að koma að stofnun hennar. Stærstu lið Þýskalands og Frakklands eru ekki með og haft hefur verið eftir forráðamönnum Porto í Portúgal að þeir hafi neitað að vera með. Þá vekur það óneitanlega kátínu margra að sum þessara liða sem ætla að skipa sér í ofurdeild Evrópu hafa aldrei unnið Meistaradeildina sjálfa!

Óhætt er að segja að það hafi bókstaflega allt tryllst í knattspyrnuheiminum og eins og staðan blasir við núna gæti þetta verið versta hugmynd í heimi. Sumir eru farnir að spá því að liðin muni falla frá áformum sínum fljótlega ella geti þau þurft að þola útskúfun og útilokun.

Horft til nýrra stuðningsmanna

Hér hefur áður verið bent á í pistli að fyrir stærstu félögin getur þetta litið vel út en aðalatriðið er að vera alltaf með og ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að komast ekki í Meistaradeildin með tilheyrandi tekjutapi. Með því að búa til mikið af leikjum þannig að allir geti verið að spila saman einu sinni í viku þá geta sannarlega orðið til miklar tekjur. En viðbrögðin sýna mikla andstöðu og hugsanlega hafa eigendur liðanna, sem sumir búa ekki einu sinni í viðkomandi landi hafi vanmetið stöðuna. Helsta eign félaganna hefur hingað til verið talin stuðningshópurinn heimafyrir, að liðin séu tengd sínu umhverfi, hluti af menningu og lífi heimabæjanna. Ein rök fyrir því að ráðist er í að reka deild af þessu tagi byggjast á því að nýir markaðir, meðal annars í Asíu séu vænlegir fyrir slíka ofurdeild. Það sjá allir að ef það eru rökin er knattspyrnan komin ansi langt frá því sem hún einu sinni stóð fyrir. Á það hafa margir verið að minna á í dag.

Knattspyrnan hefur stundum verið fórnarlamb eigin velgengni og þá hafa menn stundum blindast af peningaglýju. Það hefur gerst aftur og aftur í heimi íþróttanna en oftast hafa menn séð að sér áður en í óefni stefni.