c

Pistlar:

3. ágúst 2021 kl. 16:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sumarlandið Ísland


Annað sumarið í röð þurfa Íslendingar eins og aðrir að þola það að kórónaveiran hefur hertekið samfélagið. Daglegar fréttir af veirunni yfirtaka allt og hún stýrir samskiptum fólks í stóru sem smáu. Engu að síður reyna flestir að gera sem best úr þessu og aftur eru Íslendingar að ferðast innanlands. Það ætti ekki að vera neinum vorkunn og nú getum við notið þeirrar miklu uppbyggingar sem hér hefur orðið á undanförnum áratug í ferðaþjónustunni. Það er í raun með ólíkindum hve öflug og sterk ferðaþjónustan er um allt land. Gestir geta nú gengið að góðri gistingu vísri, víðast er boðið upp á góðan mat og nánast allstaðar má finna góða matsölustaði. Víða er boðið upp á afþreyingu í formi dagsferða eða lengri útivistar sem gerir sífellt stærri hóp landsmanna kleyft að njóta náttúru landsins og skoða staði sem fæsta hefði dreymt um að skoða áður. Nánast má tala um byltingu að þessu leyti og ólíklegustu staðir iða nú af lífi yfir sumarmánuðina. Fyrsta heimsókn pistlaskrifara á Borgarfjörð eystri var skemmtileg upplifun, bæði þegar kemur að náttúru en einnig þjónustu. Þar er öflugt samfélag sem hefur mikil tækifæri til að eflast og styrkjast. Þar er ekki bilbug að finna á nokkrum manni enda hafa samgöngur þangað stóreflst.seyðis

Mikilvægi samgöngubóta

Sem áður eru það samgöngur sem skipta miklu um hvernig fólk gengur að ferðast um landið þó að það sé á vetrarmánuðum sé fyrst reynir á vegakerfið. Þar sem hafa verið gerð göng batna samgöngur gríðarlega og enginn gæti hugsað sér tilveruna án þeirra þó þau skipti auðvitað mestu yfir vetrarmánuð. Pistlaskrifari fór Fjarðarheiðina í fyrsta sinn síðan 1978 og þakkar fyrir að þurfa ekki að fara yfir hana á vetrartíma. Hún er einn hæsti heiðarvegur landsins og það skiptir samfélagið á Seyðisfirði miklu hvernig framhaldið verður, nóg eiga Seyðfirðingar við að glíma núna eftir aurskriður vetrarins og viðvarandi hættuástand í kjölfar þess. Göng undir heiðina kosta sjálfsagt á milli 30 og 35 milljarða króna og huga þarf að því hvernig þeim fjármunum verður best varið. Hugsanlega ætti að skoða vel þann möguleika að grafa tvenn stutt göng yfir til Neskaupsstaðar, um Mjóafjörð, og tengja Seyðisfjörð í þá átt. Hugsanlega nýtast fjármunirnir best þannig en þetta þarf allt að metast heildstætt. Seyðisfjörður er einstakur en atvinnulíf hefur átt undir högg að sækja þó fáir bæir séu fallegri yfir sumarið. Bæjarstæðið er einstakt með þrjú fjöll yfir þúsund metra umhverfis bæinn. Nú er búið að ákveða að setja tvo milljarða í snjóflóðavarnir undir Bjólfinum. Varnir gegn aurflóðum hinum megin gætu kostað mikið rask á byggðinni.

Stytting og fækkun einbreiðra brúa

En miklu skiptir að stytta þjóðveg eitt sem mest og fækka einbreiðum brúm. Unnið er að því á Suðurlandi en þar kláraðist hringvegurinn síðast og þar eru enn mestu áskoranirnar þegar kemur að því að tryggja samgöngur. En stytting hringvegarins er mikilvæg og einstaka sveitarfélög ættu ekki að horfa til þess að gegnum akstur skipti öllu. Selfyssingar hafa áttað sig á því núna að það er eigið aðdráttarafl sem ræður mestu og þar geta bæjarbúar ekki beðið eftir því að losna við hringveginn úr bænum. Þar verður nokkur stytting sem tímasett er árið 2024, heldur seint finnst sumum. Við Hornafjörð er einnig verið að stytta hringleiðina um á annan tug kílómetra og það verður til mikilla bóta. Íbúar á Blönduósi ættu að horfa til þess og hætta andspyrnu við eðlilegar samgöngubætur. Bærinn er að eflast og eðlilegt að styrkja hann í framhaldinu til að standa á eigin fótum. Nú þegar má finna þar athyglisvert verndarsvæði í byggð sem má vinna betur með.sey2

En landið sjálft gefur ferðalöngum stærstu umbunina. Verndun þess og gott og öflugt mannlíf gefur innlendum og erlendum ferðalöngum mestu endurgjöfina. Allstaðar hittir maður fólk sem lagt hefur á sig ómælt erfiði til að byggja upp ferðaþjónustu og gera þannig okkur sem viljum njóta landsins tækifæri til þess. Áfram þarf að styðja við og efla þetta fólk til framfara.