c

Pistlar:

16. nóvember 2021 kl. 12:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rafbílinn að taka yfir?

Bílaumboðin eru stór auglýsandi hér á landi og þessa daganna eru flestar auglýsingar þeirra um rafmagnsbíla eða ættum við að tala um rafbíla? Þetta sést einnig í umfjöllun bílablaðamanna, þar eru rafbílar áberandi. Þetta, ásamt sölutölum, er skýr vitnisburður um að rafbílar eru að taka yfir íslenska bílamarkaðinn, hugsanlega fyrr en nokkurn grunaði. Margt getur stuðlað að þessu. Bílaframleiðendur hafa lagt miklu meiri áherslu á rafmagnsbílinn eftir að hafa verið tvístígandi lengst af og veitt þannig Tesla framleiðandanum áberandi forskot sem gerir það að verkum að félagið er nú metið jafn hátt og nýju næstu framleiðendur þegar kemur að markaðsvirði. Fjárfestar hafa um langt skeið veðjað á að Tesla muni stýra breytingum á þessum markaði.

Nú hamast aðrir framleiðendur við að hanna rafbíla frá grunni í von um að ná samkeppnisforskoti Telsa. Árið 2018 kúventi þannig stærsti framleiðandi heims, Volkswagen, áherslum sínum og setti þróun rafbíla í forgang. Hér hefur oft áður í pistlum verið fjallað um hina einstöku nálgun og sýn Elon Musk, stofnanda Tesla, í viðskiptum. Honum verður helst líkt við Steve Jobs sem sýnir að það er ekki heiglum hent að keppa við hann. Bílaframleiðendur vita að gerðum fjölgar stöðugt hjá Tesla og sjálfsagt hafa bandarískir framleiðendur sérstaka áhyggjur af innkomu Tesla inn á pallbílamarkaðinn sem hefur löngum verið sá gjöfulasti í Bandaríkjunum.electric-cars

Veruleg aukning í október

Hlutdeild rafbíla jókst verulega í októbermánuði og en nú 30,9% og virðist vaxa með hverjum mánuði sem sést best af því að heildarsala rafbíla á markaðnum jókst um 89,7% í október. Eitt stærsta umboðið, Brimborg, jók þannig rafbílasölu sína um 750% í október og var stærst í rafbílum í mánuðinum og var komið með 37,1% hlutdeild þrátt fyrir tafir í framleiðslu upplýsti forstjórinn hér í Facebook-færslu. Af honum má skilja að hann hafi væntingar um umtalsverða aukningu í sölu rafbíla enda framboð í tegundum og magni stöðugt að aukast. Þess má geta að Volvo Cars, sem Brimborg er með umboð fyrir hér á landi, verður eingöngu með rafbíla í sölu árið 2030. Dótturfélag Volvo Cars, Polestar, býður í dag aðeins upp á hreina rafbíla.

Henta vetnisbílar?

Ef þessu má ætla að orkuskipti bílaflotans gangi hraðar fyrir sig en menn hafa ætlað til þessa. Það er ekki langt síðan margir umboðsaðilar hér á landi töluðu nánast gegn rafbílum, allt eftir því hvaða áherslur framleiðendur lögðu á í orkuskiptum. Þannig virtust sumir framleiðendur telja að vetni yrði kostur en það er í raun aðeins geymsluaðferð á orkunni og hefur í för með sér talsvert meira orkutap en rafbíl. Það er að koma í ljós að ýmsar aðrar útfærslur, sem meðal annars byggðu á rafeldsneyti, eru ekki að ganga sem skildi. Þannig berast sögur af því að hægt sé að fá nýlega notaða vetnisbíla fyrir nánast ekki neitt í Bandaríkjunum. Þó menn séu ekki að hafna hugmyndinni að baki vetni þá hefur útfærslan bruggðist, sérstaklega það sem lýtur að dreifingu orkunnar. Þetta vitum við sem höfum fylgst með uppbyggingu rafhleðslustöðva hér á landi sem hefur náð sér verulega á skrið. Hvað varðar vetnið virðist þessi uppbygging orkustöðva ekki ganga þannig að notkun vetnisbíla verði notendavæn og fái athygli fjöldans. Vetni getur hins vegar sem hægst nýst sem orkugjafi fyrir vöruflutningabílaflotann og skipaflotann líka.fast-charging-cars

Hraðar en spár gerðu ráð fyrir

Í byrjun árs 2017 var spurt að því hér í pistli hvort árið 2017 yrði ár rafbílsins? Orkuveita Reykjavíkur spáði því fyrir tveimur árum að rafmagnsbílar yrðu um 100.000 talsins árið 2030 eða um um 40% af bílaflotanum eins og bent var á hér í pistli. Nú virðist vera hægt að slá því föstu að þessi þróun mun ganga miklu hraðar fyrir sig og sýnir að spádómsgáfa opinberra aðila er kannski ekki mikil. Rifjum upp að BL bílaumboðið seldi sinn fyrsta rafbíl árið 2013 og lengst af var Laufið (Leaf) frá Nissan mest seldi rafbílinn enda sannur brautryðjandi þar á ferð. Eins og áður var sagt eru allir framleiðendur nú að hamast við að smíða rafbíla frá grunni og framboðið eykst nánast í hverri viku.

Ísland hefur allar forsendur til að færa sig yfir í rafbíla og nú virðast framleiðendur keppast við að bjóða upp á áhugaverða kosti. Það eru spennandi tímar framundan fyrir bílaáhugamenn.