c

Pistlar:

5. júlí 2017 kl. 9:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hverju mun Elon Musk breyta?

Er Elon Musk Tony Stark okkar tíma eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna? Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Tony Stark ofurgáfaður vísindamaður/fjárfestir sem smíðar utan um sig búning og breytist í Járnmanninn í ævintýraheimi Marvel kvikmyndanna. Musk er mikil aðdáandi Marvel og þeirrar veraldar ofurmenna sem þar er lýst. Sjálfur er hann hins vegar af jarðneskum uppruna en áform hans eru með ólíkindum enda hefur frumkvöðulsstarfsemi hans beinist að mörgum og oft ólíkum sviðum, meira í ætt við það sem maður sér í heimi ofurmanna Marvels. Stundum er erfitt að átta sig á nákvæmlega hvað Musk ætlar sér en framtíðin virðist vera hans. Iron-Man-Elon-Musk-jurvetson-2

Elon Musk er fæddur í Suður-Afríku árið 1971 en líklega er hann þekktastur fyrir að vera stofnandi og framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla Motors. Auk þess kom hann að stofnun vefgreiðslufyrirtækisins PayPal og er líklega hægt að rekja upphaf auðs hans þangað. Musk er verkfræðingur og þúsundþjalasmiður og margir vilja lýsa honum sem hugsjónamanni. Faðir Musk var líka verkfræðingur en móðir hans starfaði sem módel og gerir reyndar ennþá en hún er líka með starfsemi í tískuiðnaðinum. Þegar Musk var 12 ára seldi hann tölvuleikinn Blastar sem hann hafði þróað en ekki treystir sé er þetta ritar sér til að lýsa því út á hvað hann gengur. Æskan var honum erfið um margt og um tíma mátti hann þola einelti. Hann er nú í 64. sæti á auðmannalista heimsins, skráður fyrir 16,7 milljörðum Bandaríkjadala hjá Forbes.

Leysa vísindi málið?

Musk er að mörgu leiti táknmynd þeirrar endurnýjuðu vísindahyggju sem hefur ráðið ríkjum í vestrænum heimi undanfarna áratugi. Trúin á að vísindi færi okkur lausnir á öllum mögulegum vandamálum er samofin hugsanagangi vestrænna manna og stjórnkerfa og mótar framtíðarsýn margra. Vísindi - og vísindalega þenkjandi menn - gegna þannig mikilvægu hlutverki sem verkfæri í opinberri stefnumótun stjórnmálanna og eru óaðskiljanlegur hluti af félagslegum veruleika mannsins. En vísindahyggja í sinni römmustu mynd hefur líka leitt af sér ákveðna nauðhyggju og lagði þannig ákveðinn grunn að sósíalískum úrræðum sem byggðust á því að lausnirnar væru stórar og afgerandi og kæmu að ofan, frá flokknum og þeim sem stýrðu honum. Það eimir af slíkum hugsanagangi í þeim átökum sem við sjáum nú um framtíðarfyrirkomulag samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Gagnrýnendur stórra lausna telja rangt að láta slíka útreikninga stjórnvalda (sem eru alltaf valkvæðir með tilliti til forsendna) ráða úrslitum og hafa þannig forræði yfir manninum og borgarsamfélaginu í heild. Það má gagnrýna slíkar lausnir fyrir óskýrar forsendur og ónákvæma útreikninga en samt sem áður má þó sjá heldur meiri skynsemi í að reyna að skipuleggja einstaka borgir en samfélagið í heild. Sagan segir okkur að slíkar sósíalískar samfélagstilraunir fara alltaf illa.

Stórar lausnir í samgöngumálum

Þetta er kannski ekki eins mikill útúrdúr og gæti virst frá sögu Musk þar sem hans lausnir lúta flestar að samgöngumálum þó lausnir hans eigi lítið skylt við sósíalisma. Hvort sem það er ofan eða neðanjarðar, á jörðinni eða úti í geimi. Musk virðist reyndar vera trúaður á stórar lausnir í öllu og hefur meðal annars tekið undir hugmyndir um borgaralaun sem lausn á framfærslu fólks í sjálfvirkum heimi.

Það er í raun með ólíkindum hvað Musk nær að afkasta og líklega er viðeigandi heiti á ævisögu hans: Elon Musk: Tesla, SpaceX, and the Quest for a Fantastic Future! Framundan er stór stund í bílaframleiðslunni en nú í lok mánaðarins hyggst hann afhenda fyrstu kaupendunum Tesla Model 3 - bíllinn sem á að breyta öllu fyrir Tesla en áhugasamir fóru að leggja inn pantanir fyrir honum fyrir ári síðan og breytti engu þó þeir yrðu að leggja fram sem svaraði 1.000 dölum til þess.  Musk kynnti áætlun sína um bílaframleiðslu fyrir 11 árum síðan og þá þegar sagðist hann ætla að framleiða bíl eins og Model 3. Hér á að vera bíll sniðin að kaupgetu almennings en gefið hefur verið út að hann muni kosta um 35 þúsund Bandaríkjadali eða um 3,5 milljón króna. Áætlanir ganga út á mikla framleiðsluaukningu, þannig verði 100 bílar afhentir í ágúst en 1500 bílar í september og 20.000 í desember þegar framleiðsla verður komin á fullt. Markmiðið er að afhenda 500.000 bíla á ári. Ef það gengur eftir er Tesla sannarlega orðið alvöru bílaframleiðandi.

Verðmætasti bílaframleiðandinn

Í dag er markaðsvirði Tesla hærra en virði General Motors og Ford en Tesla selur ekki nema brot af því sem þessir gömlu risar bílaheimsins gera. 2015 framleiddi Tesla 84.000 bíla en GM 10 milljónir bíla. Af þessu má sjá að það eru miklar framtíðarvæntingar í verðlagningu bréfa Tesla Motors en bréf félagsins hafa hækkað um 65% það sem af er ári sem vakti athygli skortsölumanna um tíma.  Tesla er núna verðmætasta bílafyrirtæki Bandaríkjanna, metið á 58 milljarða dala. En auðvitað munu aðrir bílaframleiðendur ekki sitja hjá á meðan Tesla rænir markaðinum. Allir eru að undirbúa nýjar gerðir rafmagnsbíla. BMW hefur nú tilkynnt að það muni kynna rafmagnsútgáfu af Þristinum í september sem hefur drægni upp á 400 km. Augljóslega er það mótsvar við Model 3. Sömuleiðis náði GM að setja Chevrolet Bolt á markaðinn, sem er verðlagður með svipuðum hætti og Model 3. GM hefur þó aðeins tekist að selja 1000 bíla á mánuði á meðan pantanir eftir Model 3 streyma inn. En ekki er þó með öllu tryggt að áætlanir gangi eftir þó Musk hafi sagt í vikunni að afhending Model 3 verði á undan áætlun. Orðrómur er um vandamál í framleiðslu á rafhlöðum og þá eru markaðsaðilar minnugir þess að fullyrt var að Model S myndi kosta 45.000 dali en þegar hann kom í sölu var hann seldur á 68.000 dali.

Og svo er það geimurinn!

Fyrirtækið SpaceX er eitt þeirra sem eru í eigu Elon Musk en það hefur rutt veginn í þróun endurnýtanlegra geimflauga allt síðan það var sett á stofn árið 2002. Markmiðið með SpaceX er að lækka kostnað verulega við geimskot. Fyrir skömmu var talið kosta 61 milljón dala að skjóta litlu gervitungli á braut. Musk segist geta boðið þessa þjónustu á brot af því verði eða um og í kringum 5 milljónir dala og fyrir tveimur árum  var hann kominn með samninga upp á marga milljarða dala. SpaceX er ekki skráð á markað en fjárfestar hafa verið áhugasamir. Margar tilraunir hafa verið gerðar með geimflaugar fyrirtækisins - sumar þeirra hafa gengið betur en aðrar - með það að markmiði að koma endurnýtanlegri geimflaug í gagnið til að skjóta til Mars í fyrsta lagi árið 2018.  Einnig er talið að nýir möguleikar skapist til starfsemi á tunglinu með ódýrari og betri flaugum þó þetta sé allt miklar getgátur.

Dragon-flaugin frá SpaceX mun notast við nýstárlega tækni til þess að lenda á yfirborði rauðu plánetunnar. Tæknin byggir á því að nota drifvélar til þess að hægja á geimflauginni er hún nálgast yfirborð Mars, þannig að hún lendi rétt og geti tekist á loft aftur þegar á því er þörf.

Þetta er frábrugðið fyrri tilraunum geimkönnuða til að lenda á Mars - NASA skaut til að mynda Curiosity-flakkaranum sínum þangað árið 2012 og þurfti að notast við tæknilega flóknar lausnir, svo sem hitaskildi og fallhlífar. Flestir muna sjálfsagt eftir því þegar flaugin skoppaði á yfirborði Mars.

SpaceX býst við að geta skotið Dragon-flauginni strax á næsta ári en það krefst mikils undirbúnings eins og gefur að skilja. Margir hafa efasemdir um að það gangi eftir en dagsetningin er mikilvæg vegna þess að hún er næsti „gluggi” til Mars - í þeirri meiningu að ferlar plánetnanna um sólkerfið verða þannig staðsettir þá að hentugast er að skjóta flaug til Mars. Það er nokkuð sem ekki einu sinni Elon Musk hefur stjórn á.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.