c

Pistlar:

26. febrúar 2022 kl. 17:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pútin - hættulegasti maður heims

Innrás Rússa í Úkraínu mun breyta hinu alþjóðlega landslagi varanlega. Allt í einu hefur það gerst sem menn töldu óhugsandi þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta í gegnum tíðina. Um tíma leyfðu menn sér að halda að hann stýrðist af einhverri skynsemishugsun, hann væri sannarlega ofbeldismaður en einhver rökhugsun með skilgreindum markmiðum stýrðu orðum hans og aðgerðum. Nú má efast um slíkt og það sem verra er, hann verður bara hættulegri eftir því sem hann einangrast meira. Að lokum verðum við að treysta á að innan rússneska hersins geti myndast andstaða sem steypi brjálæðingnum af stóli, vonandi með stuðningi rússnesku þjóðarinnar. En á meðan ástandið er svona er erfitt að lesa í hvernig atburðarásin þróast þó að augljóslega ætli Pútin sér að skipta um stjórn í Úkraínu og innlima landið í leppríkjabandalag sitt. Það er hins vegar til marks um breytingarnar sem hafa átt sér stað í umræðunni að vinstri menn vilja nú styrkja Nató og sumir kalla eftir beinum afskiptum af hernaði í Úkraínu. Lönd eins og Svíþjóð og Finnland íhuga í alvöru að ganga inn í Nató og stuðningur við slíkt hefur aukist gríðarlega meðal almennings í löndunum. Svíar hafa ákveðið að auka fjárveitingar sínar til hermála um 80% en það tekur tíma að byggja upp traustar varnir. Herstöðvaandstæðingar halda sig til hlés hér á landi. Alvaran blasir við.Ukrainian-Flag

En hvaða tilgangi þjónar innrásarstríð eins og það sem Pútin hefur hafið? Eftir fall Sovétríkjanna er ekki lengur hægt að kalla Rússland heimsveldi þó margir haukar þar í landi kalli eftir auknum áhrifum á alþjóðavísu og hvetji til aðgerða eins og nú eru að birtast. Á hápunkti kalda stríðsins voru Sovétríkin og Bandaríkin lík í mannfjölda. Í dag eru Rússar innan við 40% af mannfjölda Bandaríkjanna. Efnahagur landanna er gjörólíkur, Rússar eru til þess að gera frumstæðir hráefnisframleiðendur og nýta fyrst og fremst hinar gríðarlegu náttúruauðlindir sem þeirra mikla land býr yfir. Viðskiptasiðferði er bágborið en menntunarstig er eigi að síður hátt í Rússlandi en tæknistig reyndar furðu lágt, þó þeir séu sannarlega færir um að stunda netárásir og glæpi af því tagi. Í Úkraínu eru miklar auðlindir og sjálfsagt getur Pútin hugsað sér að nýta þær en er það næg ástæða til að þurfa jafnvel að vera með stóran her í Úkraínu, bara til að tryggja völdin? Tæpast gengur það reikningsdæmi upp.

Staðbundið herveldi en ekki heimsveldi

Rússland er í dag staðbundið herveldi sem drottnar yfir minni nágrönum sínum. Aðgerðir Pútins í Georgíu fyrir áratug, innlimun Krím og innrásin núna sýna að hann er tilbúinn að ganga mjög langt til að styðja við yfirgangsstefnu sína. Þeir sem eru honum næstir skulu starfa sem leppar eins og við höfum fengið að sjá í Hvíta-Rússlandi sem Rússar nota nú eins og þeir eigi það. Segja má að Pútin hafi fyrir löngu dregið þessa línu í sandinn en höfum í huga að öryggishagsmunir Rússa eru metnir út frá hagsmunum Pútins og klíkunnar í kringum hann. Lýðræðislegt Rússland myndi meta stöðuna öðru vísi en lýðræði á sér litla sögu í þessu mikla landi. Líklegt er að staða Pútins verði ótraustari eftir því sem stríðið dregst á langinn og það er heldur ekki til vinsælda fallið að reyna að ljúka því hratt með blóðbaði. Þrátt fyrir hernaðarlega yfirburði þarf Pútin að feta ákveðið einstigi til að tryggja eigin stöðu.putin

Hvar stoppar Pútin?

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af framvindunni þar sem betur og betur er að koma í ljós að Pútin er óstöðugur og engin vafi er á því að álagið mun segja til sín og hann því hugsanlega freistast til að réttlæta aðgerðir sínar með enn harðari aðgerðum. Hugsanlega tekur hann yfir Moldavíu líka, einfaldlega til að sýna að hann geti það. Eins og staðan er núna hafa Úkraínumenn sýnt hetjulega baráttu en auðvitað verða ráðamenn þar að meta hve lengi þeir verjast í vonlítilli aðstöðu. Hvað nákvæmlega þeir geta fengið fram eins og staðan er nú er erfitt að segja því Rússar hafa lokað á allar viðræður og engin virðist þess umkominn að miðla málum. Þar gæti reyndar athyglin beinst að Kínverjum sem eru örugglega að meta stöðuna og velta því fyrir fyrir sér hvernig þeir geta nýtt sér hana. Það er vonandi að þeir telji sér ekki í hag að styðja Pútin með of áberandi hætti og kjósi frekar að reyna að miðla málum. Það gæti aukið þrýsting á Pútin.

Yfirlýsingar Pútins undanfarna vikur hafa orðið stöðugt undarlegri og ástæða er til að óttast hvað hann gerir ef hann telur sig í þröngri stöðu. Frakkar stöðvuðu rússneskt flutningaskip í morgun og efnahagslegar refsiaðgerðir hljóta að fara að bíta í ef Vesturveldin halda samstöðu sinni. Pútin hefur sent undarleg skilaboð um vilja sinn til að nota kjarnorkuvopn og talað með ógnandi hætti til Finna og Eystrasaltsþjóðanna. Allt styður þetta þá skoðun að Vladimír Pútin sé hættulegasti maður heims í dag.