c

Pistlar:

28. febrúar 2022 kl. 13:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Misreiknaði Pútin sig?

Nú á fimmta degi innrásar Rússa inn í Úkraínu er ljóst að Vladimir Pútin, forseti Rússlands, hefur misreiknað margt í undirbúning sínum og stöðumati. Augljóslega er andspyrna úkraínska hersins og borgara landsins mun harðvítugari og árangursríkari en Rússar hafa gert ráð fyrir. Ekki er ljóst hve langan tíma Rússar töldu sig þurfa til að ná markmiðum sínum í Úkraínu og ekki er ennþá með fullu ljóst hver þau eru. Flest bendir þó til þess að ætlunin hafi verið að taka helstu borgir landsins og þar á meðal höfuðborgina Kænugarð. Um leið hafa Rússar vænst þess að geta handtekið eða stökkt á flótta helstu ráðamönnum Úkraínu sem gæfi þeim þá færi á að koma leppum sínum fyrir. Nú virðist að það geti orðið mjög torvelt og ráðamönnum Úkraínu, með forsetann Volodymyr Zelensky í broddi fylkingar, hefur tekist að þjappa þjóðinni á bak við sig og halda baráttuanda hermanna lifandi. Úkraínumenn eru um 44 milljónir talsins og hafa vakið upp allsherjar herútboð sem felst í því að öllum karlmönnum á aldrinum 18 til 60 er gert að grípa til vopna. Þó að hér sé ekki um að ræða þjálfaða hermenn þá getur slíkur her truflað stríðsvél Rússa þó líklega verði hann fyrst og fremst til að auka mannfallið enn frekar í báðum herjum.vopnuk

Allir til aðstoðar

Samhliða berast fréttir af því að Úkraínumenn erlendis flykkist til heimalandsins til að berjast. Verið er að skipuleggja erlendar frelsissveitir sem hyggjast blanda sér í átökin. Þannig er ljóst að Rússar munu mæta erlendum hermönnum inni í Úkraínu samhliða því að Vesturveldin auka stöðugt stuðning sinn við landið. Við erum að sjá fordæmalausar aðgerðir landa eins og Svíþjóðar og Sviss sem hingað til hafa talið hlutleysi forsendu öryggisstefnu sinnar. Nú eru Svíar farnir að senda vopn og vistir beint til Úkraínu og Sviss segist ætla að taka þátt í frystingu rússneskra eigna erlendis. Eystrasaltslöndin, með sína fjölmennu rússnesku minnihluta, hafa aukið stuðning við Úkraínu um leið og þau efla hervarnir sínar. Fortíðardrungi Þjóðverja hefur verið þeim fjötur um fót í hinni sameiginlegu öryggisstefnu Vestur-Evrópu en nú hafa þeir tekið fordæmalausar ákvarðanir um aukningu hernaðarútgjalda og ætla að senda vopn til Úkraínu. Evrópusambandið sjálft fjármagnar nú í fyrsta sinn vopnakaup erlends ríkis í stríði. Ráðamenn sambandsins sitja undir þrýsting um að veita Úkraínu einhverskonar hraðmeðferð í umsóknarferli.hermukr

Lífskjör Rússa í hættu

Allt þetta sýnir að þróunin er andstæð Rússum og það er kannski ótímabært að tala um að stríð, sem einungis hefur staðið í fimm daga, sé að dragast á langinn en ef það gerist mun þrýstingur á Pútin heimafyrir og um allt alþjóðasamfélagið aukast. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir alþjóðasamfélagsins eru fordæmalausar, rússneska rúblan í frjálsu falli og kauphöllin í Moskvu lokuð. Rússneskir borgarar flykkjast í hraðbanka og Rússneski seðlabankinn hefur hækkað vexti í 20% til að berjast gegn verðbólgu. Rússneskur almenningur sér að lífskjör sín eru að versna umtalsvert og aðgangur að vörum að hverfa. Rússnesku auðmennirnir, sem hafa getað ferðast að vild um heiminn, sjá einnig að ástandið versnar og versnar og eru farnir að þrýsta á Pútin. Auðmaðurinn Roman Abramovich hefur boðist til að aðstoða við friðarviðræður sem án efa voru bara sýndarmennska í huga Pútins.

Staða Pútins og ástand er það sem allir hafa áhyggjur af, hann rekur umsvifalaust þá sem mótmæla honum og er farin að beina orðum sínum beint til Vesturlanda um leið og hann sveiflar fingri yfir kjarnorkuhnappinum. Hvað gerir brjálæðingurinn ef staðan þrengist enn frekar?