c

Pistlar:

2. mars 2022 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þýsk stefnubreyting í orku- og varnarmálum

Fyrsti framkvæmdastjóri Nató, Hastings Ismay lávarður, er sagður hafa orðað tilgang sambandsins með þessum hætti: Nató var stofnað til að halda Rússum úti, Ameríkönum inni og Þjóðverjum niðri. Þessi orð ramma ágætlega inn helstu leikendur og gerendur við upphaf Atlantshafsbandalagsins. Kaldastríðið var hafið en um leið var verið að gera upp heimstyrjöldina. Vesturlönd vildu einhverja öryggistryggingu af hálfu Bandaríkjamanna gangvart hinum mjög svo ólýðræðislegu Sovétríkjum. Á þessum tíma virtist lýðræðið afskaplega brothætt og engin vissi hvernig Þjóðverjum myndi reiða af í klofnu landi með hræðilega fortíð.

Næstu áratugi reyndu Þjóðverjar að gleyma sér við vinnu og Vestur-Þýskaland var efnahagsstórveldi á ótrúlega skömmum tíma. Á sama tíma varð Austur-Þýskaland að tilraunalandi fyrir allt hið versta í fari kommúnisma, með sinni miðstýringu og ótrúlegum persónunjósnum. Mismunandi afstaða til neytenda og vöruvöndunar birtist í muninum á Mercedes Benz og Trabant. Til að ná fram sameiningu fórnuðu Vestur-þjóðverjar sínu stöðuga þýska marki og tóku hið gjaldþrota bræðraríki í austrinu yfir. Hvoru tveggja kostaði þýska ríkið gríðarlegar fjárhæðir og hefur breytt stjórnmálum landsins varanlega. Utanríkisstefna hefur ávallt byggst upp á mikilli varfærni og margir legið Þjóðverjum á hálsi að taka ekki eðlilega ábyrgð í hinu alþjóðlega umhverfi. Að sumu leyti hafa þeir nýtt sér þetta ástand og sparað sér fjármuni.flugukr

Veruleikinn knýr dyra

En nú hefur veruleikinn knúið dyra. Stefnubreyting Þjóðverja núna er einstök og það á ekki síst við um þá flokka sem nú eru við völd, jafnaðarmenn og Græningja. Stefna þessara flokka hefur grafið undan öryggi landsins og gert þá háða rússnesku jarðefnaeldsneyti. Græningjar hafa barist gegn notkun kjarnorku og Angela Merkel, fyrrverandi kanslari, stökk á þann vagn án þess að gæta að öryggishagsmunum landsins en allar þjóðir skilgrein aðgang að orku sem grunnþátt öryggisstefnu sinnar.

Það var eftirminnilegt að sjá Donald Trump lesa Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Nató, pistilinn á Nató-fundi 11. júlí 2018. Trump var ekki að fara mikið í kringum hlutina og eftir að Stoltenberg hafði muldrað út úr sér merkingaleysu embættismannsins missti Trump þolinmæðina og spurði hvort það væri virkilega ætlunin að Bandaríkjamenn tækju að sér varnir Þjóðverja gagnvart Rússum svo Þjóðverjar gætu óáreittir keypt alla sína orku frá Rússum og þar með afhent þeim sjálfstæði sitt í orkumálum og gríðarlega fjármuni. Sem Rússar myndu síðan nota í vopnaframleiðslu ef til átaka kæmi við Bandaríkjamenn! Hin beinskeytti forseti Bandaríkjanna skóf ekki af hlutunum.Olaf Scholz

Þjóðverjar snúa við blaðinu

En nú vilja Þjóðverjar snúa við blaðinu. Nýr kanslari Þýskaland, jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, boðaði stóraukin útgjöld til varnarmála um síðustu helgi og er ætlunin að verja meira en 2% af vergri landsframleiðslu í málaflokkinn. Þá loksins uppfylla Þjóðverjar skuldbindingar sínar gagnvart Nató. Til þessa hafa Þjóðverjar varið um það bil 1,4% af VLF til varnarmála en þegar í ár ætlar ríkisstjórnin að auka útgjöldin um 100 milljarða evra. Kanslarinn sagði þetta ekki aðeins snúast um að geta aðstoðað Úkraínumenn heldur einnig um eigið öryggi.

Hætta undirgefni og meðvirkni

Um leið hafa Þjóðverjar fallið frá ýmsum grunnþáttum stefnu sinnar, svo sem að að flytja ekki vopn til átakasvæða. Nú á laugardaginn leyfði þýska ríkisstjórnin ekki aðeins að bandamenn Þjóðverja létu Úkraínumönnum í té þýsk vopn heldur ætla Þjóðverjar sjálfir að senda 500 Stinger-flaugar og 1.000 varnarvopn gegn skriðdrekum úr þýskum vopnabúrum til Úkraínu.

Þýskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn eru að vakna til meðvitundar um að Þýskaland hefur sýnt Rússlandi allt of mikla undirgefni og meðvirkni, meðal annars vegna stríðssakarinnar. Innrásin núna hefur breytt þessu og kallað á endurmat Þjóðverja á þessum samskiptum. Það hefur meðal annars leitt til þess að þeir hafa afturkallað leyfi fyrir starfrækslu Nord Stream 2 gasleiðslunnar sem er nánast tilbúinn til notkunar á botni Eystrasalts, alla leið frá Rússlandi til Þýskalands.

„Við munum breyta um stefnu til að draga úr því að við eigum of mikið undir innflutningi frá einum orkusala,“ sagði Olaf Scholz og sagði um leið frá því að gerð yrði hafnaraðstaða fyrir tvær móttökustöðvar fyrir fljótandi jarðgas til að þurfa ekki að treysta á rússneskt gas gegnum núverandi leiðslur. Nú þegar hafa Bandaríkjamenn sent þeim gas en Þýskaland verður að læra að standa á eigin fótum.