c

Pistlar:

19. maí 2022 kl. 12:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegur: Fremstir meðal þjóða

Það er stundum nauðsynlegt fyrir umræðuna hér heima á Íslandi að rifja upp að við ásamt Færeyingum og Norðmönnum eru þær vestrænu þjóðir sem byggja afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi. Segja má að Ísland standi þar fremst vegna stöðu sinnar í veiðum á villtum fiski, nýtingu og tækniþróun. Noregur standi Íslandi nokkuð að baki í veiðum á villtum fiski og vinnslu en séu fremstir í eldi á heimsvísu. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Klem­ens Hjart­ar, meðeig­anda McKins­ey & Co., á ársfundi SFS fyrir stuttu en lítillega var vitnað til orða Klemensar í síðasta pistli. Hann tekur sér stöðu meðal sérfræðinga og fræðimanna sem reyna að halda uppi upplýstri og skynsamri umræðu um sjávarútveginn.jul

Það er kannski tilefni til að rifja upp þann hóp sem oft er vitnað til hér í pistlum og fjallar öðru vísi um sjávarútveg okkar Íslendinga en Austurvöllur, inni sem úti. Þar má nefna: dr. Þráinn Eggertsson, dr. Rögnvald Hannesson, dr. Birgir Þór Runólfsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ástu Dís Óladóttur, dr. Daði Má Kristófersson, dr. Arnar Bjarnason, dr. Ragnar Árnason, dr. Þór Sigfússon, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, Svan Guðmundsson sjávarútvegsfræðing, Hreiðar Valtýsson aðstoðarprófessor, Hörð Sævaldsson lektor (sérsvið hans er stjórnkerfi fiskveiða og markaðir sjávarafurða), dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Helga Áss Grétarsson lögfræðingur, dr. Svein Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Hörð G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóra hjá Matís og dr. Gunnar Haraldsson hagfræðing. Allt eru þetta virtir fræðimenn og ýmist sérfræðingar um sjávarútveg eða fræði honum tengd en sjaldséðir gestir í Ríkissjónvarpinu þegar um þessi mál er fjallað.

Eina landið með sjálfbæran sjávarútveg

Klemens Hjartar á heima í þessum hópi en í erindi sínu á aðalfundi SFS sagði hann að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem sjávarútvegur er sjálfbær; alls staðar annars staðar rennur fjármagn úr sjóðum almennings til stuðnings greininni. Framleiðni hér er auk þess meiri en í löndunum sem við berum okkur saman við.

Þetta og fleira telur Klemens gera sjávarútveginn að „ofuriðngrein“ á Íslandi, þrátt fyrir að vöxtur hagkerfisins hafi verið utan sjávarútvegs síðustu tíu ár. Að mati Klemensar ætti keppikeflið fyrir komandi ár að vera að halda þeirri forystu sem Ísland hefur í veiðum og vinnslu. Vöxturinn á að koma úr ýmsum áttum en stöðugleiki þarf að liggja vexti til grundvallar.

Það er athyglisvert að hann telur að tvöfalda megi útflutningsverðmæti sjávarútvegs á næsta áratug en margir hafa bent á að Íslendingar eigi mikil tækifæri í fullvinnslu sjávarafurða og efldri markaðssetningu. Klemens sagði að ef þetta sé markmiðið sé nauðsynlegt að ná fram verðhækkunum á lykilafurðum í gegnum skipulagt markaðsstarf og vörumerkjauppbyggingu, sem hafi setið á hakanum. Nefndi hann að á sama tíma og verð á þorski hefur hækkað um 20%, síðustu tvo áratugi, hefur verð á laxi hækkað um 115%. Verðmætaaukningin er háð því að skapa vörunni sérstöðu, eins og gert hefur verið með margvíslegar vörur sem eru heimsþekktar. Í síbreytilegum heimi sé nauðsynlegt að hugsa markaðssetningu upp á nýtt. Undanfarið höfum við reyndar séð einstaka hækkun á verði sjávarafurða okkar á erlendum mörkuðum.

Stærðarhagkvæmni skiptir máli

Klemens sagði að til að auka enn frekar hagkvæmni greinarinnar þurfi að færa sem flesta aðila innan hennar nær því sem best gerist í gegnum hagræðingu, samstarf og samþættingu, og vísaði sérstaklega til stærðarhagkvæmni fyrirtækja. Taldi hann að uppsjávarveiðar gætu verið fyrirmynd annarrar útgerðar. Sama eigi við um fiskvinnslur þar sem þær stærri skili betri afkomu en þær minni. Hátæknivinnslur eru framtíðin, að hans mati. Varðandi það að auka magn sjávarafurða er tvennt í stöðunni; ábyrgð í veiðum og uppbygging fiskistofna og uppbygging fiskeldis.fiskaust

Auka þarf hafrannsóknir

„En það þarf að auka hafrannsóknir langt umfram það sem nú er gert. Það þarf að styrkja vísindin. Það þarf að styrkja eftirlitið. Ef þetta væri gert er ekkert ólíklegt að það væri hægt að auka veiðar á villtum fiski úr sjó,“ sagði Klemens og nefndi að slík viðbót gæti aukið útflutningsverðmæti um 50 milljarða króna á ári. Allir taka undir að það þarf að efla hafrannsóknir verulega og helst að gera öðrum en Hafró kleift að rannsaka og skoða gögn, á þann hátt geta ólík sjónarmið eflt sameiginlega þekkingu.

Klemens segir að allt standi þó og falli með sterkum grunni og þar sé fiskveiðistjórnunarkerfi sem sé í fremsta flokki á heimsvísu. Það séu enn tækifæri að bæta það frá því sem nú er en mikilvægast af öllu sé að varðveita styrkleika þess.

„Eins er hinn samfélagslegi þáttur í stöðugleikanum mikilvægur. Það hefur ríkt neikvæðni í kringum sjávarútveginn og það hefur verið ósætti í þjóðfélaginu, sérstaklega um eignarhaldið. Ég held að það þurfi að taka þetta mjög alvarlega því það gæti tekið stuttan tíma að breyta kerfinu í þá átt sem væri ekki íslensku þjóðinni fyrir bestu,“ sagði Klemens.