c

Pistlar:

18. október 2022 kl. 17:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

RÚV og félagsleg vandamál í Svíþjóð

Fréttamaður Ríkissjónvarpsins var með frétt frá borginni Malmö í kvöldfréttum í gær þar sem hann sagði frá tilraunum félagsmálayfirvalda þar til þess að fá unga menn til að yfirgefa glæpagengi borgarinnar. Fyrir svörum var þreytulegur félagsráðgjafi sem sagði frá markmiðum þeirra sem eru lofsverð. En ekkert var rætt um árangurinn. Því miður er ástæða til að óttast að hann verði lítill sem enginn. Slíkar tilraunir hefðu átt að fara af stað áratugum fyrr og þá í samhengi við breytingu á innflytjendastefnu landsins.pressconfr

Nú hefur tekið til starfa ný ríkisstjórn í Svíþjóð sem bíður erfitt hlutskipti, bæði á sviði efnahagsmála og einnig við að takast á við neikvæð áhrif innflytjendastefnu sem stór hluti kjósenda í Svíþjóð telur ástæðu til að breyta. Reyndar er það svo að Svíþjóðardemókratarnir hafa ekki aðild að ríkisstjórninni þrátt fyrir að fimmti hver kjósandi í Svíþjóð styðji þá. Á síðasta ári kipptu þeir í raun fótunum undan forystu Stefans Löfvens. Menn geta velt því fyrir sér hversu lýðræðislegt er að útiloka svo stóran hóp kjósenda frá þátttöku en forysta Svíþjóðardemókrata ákvað að styðja ríkisstjórnina til að afstýra stjórnarkreppu. Um leið blasir við að þeir hafa áhrif á málefnasamning ríkisstjórnarinnar sem ætlar meðal annars að reyna að ráðast í breytingar á innflytjendastefnu landsins og „vinda ofan af áratugalangt stjórnleysi í útlendingamálum sem hafi breytt Svíþjóð í grýlu í Evrópu,“ eins og skrifað var í leiðara Jyllands-Postsins í gær. Til ýmissa aðgerða verður gripið, meðal annars á að fækka verulega kvótaflóttamönnum, eða úr 6.400 í 900.

Lýðfræðilegar breytingar

En víkjum aftur að tilraunum félagsráðgjafa í Malmö við að fá unga karlmenn til að víkja af villu síns vegar. Í Svíþjóð hafa orðið demógrafískar eða lýðfræðilegar breytingar sem geta gert starf félagsráðgjafans nánast ómögulegt. Þannig er staðan núna að af öllum körlum á aldrinum 15 til 44 ára í Stokkhólmi voru 33 prósent með erlendan bakgrunn árið 2002. Átján árum síðar er hlutfallið komið upp í 45 prósent. Stærstur hluti þessarar aukningar er sá hópur sem er fæddur erlendis. Í Malmö er talan heil 57,7 prósent. Því hafa menn framreiknað sig til ársins 2030, að á aðeins átta árum verði meira en 30 sveitarfélög í Svíþjóð með meirihluta karla með erlendan bakgrunn á aldrinum 15 til 44 ára.

Miðað við aðgerðir félagsmálayfirvalda í Malmö núna blasir við að erfitt verði að draga drengi úr glæpaklíkum, einfaldlega vegna þessara lýðfræðilegu breytinga. Gangsterabærinn, sem er þjakaður af ættum og gengjum, Södertälje, er nú með heil 82,3 prósent af erlendum uppruna í þessum aldurshópum, samlögunin er lítil sem engin. Vitaskuld óttast margir þá þróun sem fylgir gettómyndun. Ungt fólk af innflytjendaættum upplifir sig fyrir vikið útundan í samfélaginu og það verða til tvö samfélög og árekstrarnir geta orðið ofbeldisfullir. 30% innflytjenda klára ekki grunnskóla.

Dagblaðið Dagens Nyheter var með ítarlegar greinar fyrir kosningarnar í september um atvinnuþátttöku innflytjenda eftir 10 ár í Svíþjóð. Hún reyndist aðeins vera um 50% samkvæmt þeim tölum sem blaðið gat aflað sér. Það þýðir einfaldlega að hinir eru á bótum sem Svíþjóðardemókratar hafa hamrað á, oft með heldur óbilgjarnri umfjöllun í miðlum á þeirra vegum. En þarna hefur mikill fjöldi færst yfir á bótakerfið en Svíar vita að til að halda uppi velferðarkerfinu, sem þeir hafa barist fyrir, þurfa allir að vinna sem geta það.

Pólarisering

Nýafstaðnar kosningar endurspegla skiptingu eða pólariseringu í sænsku þjóðfélagi. Nágranar þeirra fylgjast margir með og lýsa yfir áhyggjum sínum. Þetta sést bæði á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og í spjalli við fólk sem búið hefur í Svíþjóð. „Þá er sú Svíþjóð sem við þekkjum týnd að eilífu. Það er ekki hægt að snúa því til baka, hér er um glatað tímabil í sögunni að ræða. Næsta kynslóð þekkir ekki aðra Svíþjóð, þá sem var öruggt og friðsælt og gott að vera. Þeir yfirgáfu guð sinn og kristna menningu og létu aðra menningu taka við. Noregur fylgist í blindni með, þar gerast hlutirnir hægar en mun ekki stöðva þessa sömu þróun.“ Þannig skrifar Birger Netland frá Haugesund í Noregi inn á Facebook-vegg rithöfundarins og blaðamannsins Hege Storhaug en bók hennar Þjóðarplágan íslam kom hér út árið 2016.

Höfuðgagnrýni Hege snýr að íslam og óæskilegum samfélagsbreytingum samfara innflytjendum frá múslimskum ríkjum. Að sumu leyti hefur Hege skipað sér á bekk með rithöfundinum Ayaan Hirsi Ali sem hefur harðlega gagnrýnt íslam. „Íslam er ekki friðartrú,“ skrifaði Ali í bók sinni Heretic en eftir morðið á kvikmyndaleikstjóranum Theo van Gogh af íslamistum var því hótaði að hún yrði næst. Theo hafði einmitt gert mynd eftir handriti hennar. Ali hefur gengið af trúnni en hún varð þingmaður í Hollandi en var svipt ríkisborgararétti og leitaði þá skjóls í Bandaríkjunum undan ofsóknum múslima og síðan hefur hún þurft vernd allan sólarhringinn. Ævisaga Ali, Frjáls, hefur komið út á íslensku.bruni

Samfélagið óþekkjanlegt

Íslensk kona sem bjó í Rynkeby árið 1991 og upplifði á þeim tíma gífurlegar samfélagsbreytingar. Hún lýsti yfir áhyggjum af breytingunum í stuttu samtali. Hún sagðist hafa upplifað það þegar svínakjöt var bannað í skólum og leikskólum. Það gerðist eftir samráð múslimskra kvenna í hverfunum. Þær einfaldlega sendu börnin með nesti í skólann þrátt fyrir að boðið var uppá sér halal fæði líka en þá var meirihluti barna í skólum í hverfinu múslimar. Eftir nokkra mánuði gáfust skólayfirvöld upp og hættu að bjóða uppá svínakjöt. Sundkennslu var hætt því feður bönnuðu dætrum sínum að fara í skólasund þrátt fyrir aðskilda tíma stelpna og stráka því kennarar voru sumir karlkyns og eftir því sem múslimum fjölgaði í hverfinu þá mættu sífellt færri börn í sundkennslu þannig að henni var líka hætt.

Hún sagði einnig að konur hefðu verið beðnar um að liggja ekki léttklæddar í sólbaði í almenningsgörðum í Rynkeby, Kista, Tenby og í öllu Järfalla sýslunni.

„Árið 2007 hafði ég ekki komið í hverfið í fimm ár og fékk menningarsjokk þegar ég kom aftur. Flestar konurnar voru í dökkum kuflum og með slæður og litlar stelpur niður í leikskólaaldur voru eins klæddar og með slæður. Á leikvöllunum léku sér bara strákar og fullorðna fólkið sat á grasinu, karlar sér og konur sér með dætur sínar. Ég fékk illt augnaráð frá konunum og karlarnir glottu hálfvitaglotti til mín þar sem ég gekk framhjá í stuttbuxum og hlýrabol í 35 stiga hita. Mér létti þegar ég fór úr hverfinu og ég hef ekki farið þangað síðan enda allir sem ég þekki löngu flúnir og fluttir úr hverfinu.“

Í Svíþjóð eins og hér á Íslandi var lengi þráttað um hvort innflytjendamál væru farin að skapa neyðarástand. Nýafstaðnar kosningar og ný ríkisstjórn sýna að kjósendur telja svo vera.