c

Pistlar:

6. janúar 2023 kl. 18:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvernig FBI ritstýrði Twitter

Á milli janúar 2020 og nóvember 2022 fóru ríflega 150 tölvupóstar á milli Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) og Yoel Roth fyrrverandi yfirmanns Trausts og öryggis (Twitter Trust and Safety) hjá Twitter samskiptamiðlinum. Sum þessi samskipti voru sakleysisleg, svo sem árnaðaróskir um áramót og staðfestingar á fundum. Í öðrum tilvikum var farið fram á upplýsingar um notendur Twitter í tilefni rannsókna á vegum FBI. Þetta er meðal þess sem komið hefur upp á yfirborðið í rannsóknum fjölmiðlateymis sem Elon Musk, nýr eigandi Twitter, setti af stað og hefur verið fjallað um þrisvar áður hér í pistlum.censoredt

Það eru ekki aðeins blaðamennirnir kunnu, Bari Weiss og Matt Taibbi, sem hafa verið að skoða gögnin. Þar eru einnig í hópi blaðamennirnir Abigail Shrier, Michael Shellenberger og David Zweig sem einnig eru kunnir rithöfundar. Auk þess hafa blaðamennirnir Leighton Woodhouse, Suzy Weiss, Peter Savodnik, Olivia Reingold, Isaac Grafstein og Lee Fang komið að rannsókninni. Hún felst að stærstum hluta í að fara yfir innanhússsamskipti hjá félaginu og draga upp skýra mynd af því hvernig fyrrverandi starfsmenn samfélagsmiðilsins fóru með ritstjórnarvald sitt og á hvaða grunni ákvarðanir voru teknar, meðal annars um lokun á reikningum. Að hluta til má því segja að rannsóknin beinist að því hvernig Twitter var ritstýrt og af hverjum.

Blaðamaðurinn Jon Hersey skrifar í The Objective Standard að heimurinn hafi ekki fengið jafn skýra sýn inn í afskipti stjórnvalda af borgurunum síðan gögn tengd Snowden voru opinberuð. Í grein Hersey er farið nokkuð vandlega yfir málið með áherslu á hina víðtæku ritskoðun sem Twitter-skjölin afhjúpa.

Verkefnahópur FBI um samfélagsmiðla

Nú kann að vera að sumum finnist samskipti við FBI ekki stórmál, FBI sé hvort sem er ofaní hversmanns koppi í Bandaríkjunum. En komið hefur í ljós að furðu hátt hlutfall beiðna frá FBI er um að Twitter gripi til aðgerða vegna rangra upplýsinga um kosningar, jafnvel að taka á bröndurum frá reikningum sem fengu til þess að gera litla athygli.

Hafa verður í huga að sérstakur verkefnahópur FBI, sem miðar að samfélagsmiðlum, þekktur sem FTIF, var stofnaður í kjölfar kosninganna 2016, og stækkaði skjótt upp í 80 manna hóp. Þessi hópur stóð í miklum samskiptum við Twitter í þeim tilgangi að bera kennsli á meint erlend áhrif og fylgjast með tilraunum til að hafa áhrif á kosningarnar.tvitt

Alríkislögreglan og önnur löggæsla, meðal annars heimavarnarráðuneytið (Department of Homeland Security, DHS), þrýstu á Twitter til að fá að stjórna birtingu efnis. Fleiri lögðu hönd á plóginn við þessa ritstýringu, svo sem öryggisverktakar og hugveitur. Það er ekkert leyndarmál að stjórnvöld skoðuðu mikið gagnamagn hjá Twitter með allskonar markmið að leiðarljósi, meðal annars til að upplýsa um hryðjuverk en einnig til að geta séð fyrir efnahagslegar breytingar. Í nýlegu Tvíti segir Mark Taibbi að fulltrúar FBI og DHS hafi iðulega sent efni inn á Twitter í gegnum hina aðskiljanlegustu reikninga sem höfðu fengið staðfestingu starfsmanna Twitter. Þannig hefðu þessar stofnanir tekið að sér að koma tilteknum upplýsingum og sjónarmiðum áleiðis.

Var FBI í hlutverki hliðvarðar?

Mark Taibbi birti úttekt sína á afskiptum FBI og CIA á aðfangadag (merkt Twitter-skjölin 9,0) og benti um leið á: „Skrárnar sýna FBI sem dyravörð að víðtæku eftirlits- og ritskoðunarkerfi á samfélagsmiðlum, sem nær yfir stofnanir víðs vegar um alríkisstjórnina, frá utanríkisráðuneytinu til Pentagon og CIA.“ Það er kunn kenning innan fjölmiðlafræða að blaðamenn séu í hliðvarðahlutverki, ákveði hvaða upplýsingar og efni fari til almennings. Samfélagsmiðlar hafa ruglað þessari mynd og ef fyrirbæri eins og FBI og CIA hafa stigið inn í hlutverkið verða það að teljast nokkur tíðindi.

Matt Taibbi bætti við: „Twitter hafði svo mikið og stöðugt samband við svo margar stofnanir að stjórnendur misstu tökin. Er það DOD í dag og á morgun FBI? Er það vikulegt símtal eða mánaðarlegur fundur? Það var hvimleitt að vinna við þessar aðstæður.“ Hann bætti einnig við að: „Aðal niðurstaðan var sú að þúsundir opinberra „skýrslna“ streymdu til Twitter hvaðanæva að, í gegnum FITF og FBI frá San Francisco vettvangsskrifstofunni.“musktw

Niðurstaða Matt Taibbi er sláandi: „Stjórnvöld voru í stöðugu sambandi, ekki bara við Twitter heldur við nánast öll helstu tæknifyrirtæki. Þar á meðal Facebook, Microsoft, Verizon, Reddit, jafnvel Pinterest og marga aðra. Stjórnendur samfélagmiðlanna héldu einnig reglulega fundi án aðkomu stjórnvalda.

Twitter-skjölin sýnda einnig hvernig beiðnir um „endurskoðun“ (lesið ritskoðun) á tístum héldu áfram að hrannast upp þegar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2020 nálguðust. „Tölvupóstur á eftir tölvupósti kom frá skrifstofunni í San Francisco er leið að kosningum, oft skreyttur með Excel-viðhengi,“ sagði Matt Taibbi.

Það er hægt að taka undir með Ásgeir Ingvarssyni, blaðamanni Morgunblaðsins, sem skrifaði í vikunni: „Það sætir furðu hvað helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna og Evrópu hafa fjallað lítið um uppljóstranir undanfarinna vikna um vafasöm vinnubrögð stjórnenda Twitter og tilraunir þeirra til að stýra umræðunni eftir eigin höfði, í nánu samráði við vel tengda einstaklinga í bandaríska stjórnkerfinu.“ Þetta áhugaleysi virðist hafa smitast til Íslands einhverra hluta vegna.