c

Pistlar:

1. október 2023 kl. 20:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Dósasöfnun í landi tækifæranna

Hverfið mitt hér í Reykjavík er að sumu leyti venjulegasta hverfi Reykjavíkur, íbúðabyggð á eyju á milli stofnbrauta, Sæbrautarinnar og Suðurlandsbrautar, þar sem skipulagið hefur gert ráð fyrir góðu aðgengi að skóla og þjónustu. Breytingar eru alla jafnan litlar í hverfinu en í jöðrum þess er nú að rísa upp mikil byggð og hverfið sogast inn í skipulag framtíðarinnar, hvert sem það færir okkur. Við íbúarnir sjáum hins vegar ýmsar breytingar, hér má meðal annars finna hús sem hýsa flóttamenn og hælisleitendur og við sjáum mun meira af slíku fólki þegar gengið er um hverfið. Þegar leiðir okkar liggja saman horfir fullorðna fólkið undan en börnin eru sem betur fer kjarkaðri.

Ein birtingamynd þessa breytinga er að reglulega eru hér á ferð ungir piltar að ýta á undan sér kerrum með dósum á leiðinni niður í móttökustöðina í Skútuvogi þar sem þeir koma dósunum í verð. Af útliti að dæma eru þessir piltar frá miðausturlöndum. Á spjallsíðu hverfisins lýsir fólk yfir áhyggjum sínum enda heldur undarleg atvinnustarfsemi, í sumum tilvikum eru piltarnir að leita að dósum í ruslatunnum eða inni á lóðum fólks og eðlilega er fólki ekkert um það.Úkraína flóttamenn

Hvert er planið?

Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé planið? Er staða þessara ungu pilta hluti af einhverju skipulagi þeirra yfirvalda sem hafa með þá að gera eða situr hverfið bara uppi með vandræðagang stjórnvalda? Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé það sem þessir ungu piltar hafi ætlað sér en auðvitað er lítið vitað um þeirra eigin plön, þeir bara komu hingað, ómenntaðir og upp á íslenskt samfélag komnir. Þeir fá ekki einu sinni tækifæri til að bjóða fram starfskrafta sína því fólk á flótta fær ekki atvinnuleyfi.

Fjármálaráðherra lét hafa eftir sér fyrir stuttu að kostnaður vegna hælisleitenda yrði um 14 milljarðar króna á árinu. Efast má að sú tala segi alla söguna en við blasir að kostnaður sumra sveitarfélaga er orðin verulegur með auknu álagi á velferðar- og skólasvið viðkomandi sveitarfélaga. Einnig eykst álag á heilsugæslu því margt flóttafólk ber með sér smitsjúkdóma og sjúkdóma sem verður að meðhöndla sem fyrst svo sem smitandi berkla. Álagið á heilbrigðiskerfið er verulegt. Það sjá allir að það er ömurlegt hlutskipti að vera landlaus og á flótta, mikið af flóttafólkinu hefur lent í hræðilegri lífsreynslu og þarf á meðferð við vegna þeirra miklu áfalla sem það hefur lent í. Sumir eru mjög illa staddir og reyna sjálfsmorð, um fortíð flestra er lítið vitað, sumir hafa fargað vegabréfi sínu í flugvélinni hingað og erfitt að fá staðfest hverjir eru þar á ferð. Fáir eða engir trúa því að íslenskt heilbrigðiskerfi eða geðhjúkrunarkerfið sé aflögufært að taka við 4 til 5 þúsund manns á ári til viðbótar. Fólk sem er í flestum tilvikum ófært um að tjá sig án aðstoðar. Margir eru ólæsir og óskrifandi. Þeir sem tala fyrir óheftri innflytjendastefnu svara aldrei fyrir hvernig slíkt verði leyst.

Ófullkomin stefna og land tækifæranna

Fæstir átta sig á hvert þróunin leiðir okkur en á sama tíma erum við að horfa upp á afleiðingar ófullkominnar innflytjendastefnu í nágrannalöndum okkar, í löndum sem flest eru þó mun betur fær til að taka við miklum fjölda fólks á flótta. Eigi að síður hefur samlögun nýs fólks inn í samfélagið gengið treglega og stundum illa og rífur upp sár í samfélagsgerðinni. Þeir sem fyrir eru velta fyrir sér hvort það samfélag sem hafi verið byggt upp hörðum höndum sé til deilingar þegar koma flóðbylgjur fólks úr fjarlægum heimshlutum? Löndin við norðanvert Miðjarðarhafi eru magnþrota yfir flóðbylgjunum, einn daginn heyrum við af því að ítalska eyjan Lampedúsa sé að drukkna í flóttamönnum en allt síðan um síðustu aldamót hefur fólk flætt norður og yfir lönd og eyjar Ítalíu en um leið hafa margir fengið vota gröf fyrir ströndum eyjarinnar. En nokkrum dögum eftir að fréttirnar ná hámarki er áhugi á málinu horfinn en flóttamennirnir eru þarna ennþá og enn á ábyrgð ítalskra yfirvalda. Ef ríki Norður-Evrópu taka við þeim mun fjöldinn margfaldast. Á tímum farsíma fréttist strax ef opnast rifa í landamæratjaldið.vernd

Lönd tækifæra eða velferðar

Flest viljum við lifandi og fjölbreytt samfélag sem getur eflt og styrkt sem flesta til betra og innihaldsríkara lífs. Fjölmenning sem stefna er brothætt aðferðafræði, annað ef hún gerist af sjálfu sér. Eitt er að reka samfélag sem gefur fólki tækifæri, annað að reka flókið og umfangsmikið velferðarsamfélag. Stundum er vísað til Bandaríkjanna sem lands tækifæranna. Landið er byggt upp á innflytjendum og lengi vel var hvatt til komu þeirra. En þegar flæðið var sem mest, meðal annars frá Íslandi, beið ekkert velferðarkerfi. Hver varð að bjarga sjálfum sér og gleymum ekki að fyrir voru innfæddar þjóðir sem urðu að gefa eftir landið sitt.

Í lok þáttarins Sprengisands á Bylgjunni í dag mætti Fida Abu Libdeh í viðtal. Hún er formaður FKA á Suðurnesjum og stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækis sem heitir GeoSilica. Fida er palestínskur innflytjandi, ein fimm systkina sem hér búa. Ekki kom fram hvernig hinum farnast. Það er ástæða til að leggja við hlustir þegar Fida talar og sannarlega er hægt að segja að hún hafi nýtt tækifærin hér á landi. Hún benti réttilega á að það er mikil einföldun að setja alla hælisleitendur, flóttamenn og innflytjendur undir sama hatt. Það á við um þá sem aðra, að hver er sinn eigin gæfu smiður. Að endingu verður við að leggja eitthvað mat á hvernig til tekst. Sjálf varaði hún við einföldunum í umræðunni en ljóst er að stefnan í innflytjendamálum í dag mun hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag næstu áratugi.