c

Pistlar:

9. janúar 2024 kl. 12:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hútar elta Hamas í stríð

Stríðið milli Ísraels og palestínsku samtakanna Hamas hefur vakið upp baráttuvilja margra íslamskra vígasveita sem sjá tækifæri til að blanda sér í átökin og efla um leið stuðning við sig á heimavelli. Þar eru Hezbollah, eða flokkur Guðs, sem eru samtök sjíta í Líbanon, fremst í flokki en talið er að þau hafi allt að 30 þúsund manns undir vopnum. Hezbollah er talið hafa um 150 þúsund eldflaugar í vopnabúri sínu en til samanburðar hefur Hamas skotið um 15 þúsund flugskeytum inn í Ísrael síðan átökin hófust 7. október.hutar

Nú síðast hafa uppreisnarmenn Húta (Houthi) hafið beina þátttöku í átökunum við Ísrael en þeir hafa stjórnað norðvesturhluta Jemen í næstum áratug. Líkt og Hamas og Hezbollah trúa Hútar því að Ísrael sé höfuðandstæðingur þeirra en öll samtökin eru studd af Íran. Uppreisnarmenn Húta hafa undanfarið truflað umferð um Rauðahafið með því að ráðast ítrekað á skip þar og trufla umferð verulega en um 15% af heimsversluninni fer um Súez-skurðinn. Truflunin nú hefur þegar hækkað flutningskostnað verulega en ýmis skipafélög, svo sem Maersk, hafa lýst því yfir að þau treysti sér ekki til að nota þessa siglingaleið við núverandi aðstæður. Að sögn Húta er árásum þeirra beint að skipum tengdum Ísraelum, þó að ekkert þeirra skipa sem hefur orðið fyrir árásum til þessa hafi slíka tengingu að því er fréttaveita Bloomberg segir. Hútar hafa einnig reynt að ráðast á Ísrael með flugskeytum og drónum.

Hófu borgarastyrjöld heima fyrir

Hútar náðu yfirráðum í höfuðborg Jemen, Sana'a, árið 2014 og hófu í framhaldi þess borgarastyrjöld sem hefur haldið áfram til þessa dags en ekki er langt síðan fjallað var um ástandið í Jemen hér í pistli. Hútar eru hluti af ætt sem kemur frá Saada-héraði í norðvesturhluta Jemen og eru fylgjendur Zaidi grein sjíta íslams sem áætlað er að um 25% íbúa landsins tilheyri.hutarstr

Eftir að Norður-Jemen og Suður-Jemen voru sameinuð árið 1990, efndu Hútar til nokkurra uppreisna með góðum árangri áður en þeir tóku höfuðborgina árið 2014. Hútar eru and-vestrænir og hatast við Ísrael. Sérfræðingar segja að Hútar fái þjálfun, tæknilega sérfræðiþekkingu og sífellt flóknari vopn - þar á meðal dróna og skotflaugar og stýriflaugar - frá Íran og Hezbollah. Bandaríkin afturkölluðu árið 2021 skilgreiningu sína á Hútíum sem hryðjuverkahópi til að styðja við friðarviðræður í landinu en einhverskonar vopnahlé á að ríkja þar núna eftir langvinnt borgarastríð sem hefur leitt mikla þjáningu yfir þjóðina. Bandaríkjamenn skoða nú endurskoðun þessarar afturköllunar og vesturveldin búa sig undir að þurfa að leggja talsvert á sig til að halda Súes-skurðinum opnum. Fyrir Egypta er mikið í húfi en um 10% landsframleiðslu þeirra kemur frá skurðinum og þeir hafa unnið að stækkun hans undanfarin áratug. Egyptar hafa ráðist í metnaðarfull uppbyggingaráform samhliða en fjárhagurinn er svo slæmur að landið hefur orðið að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og fjallað var um hér í pistli. Ef starfsemi Súes-skurðarins truflast mikið hefur það veruleg áhrif á efnahag Egyptalands sem aftur eykur á óstöðugleika í þessu fjölmennasta ríki Arabaheimsins. Það er því mikið í húfi að Hútum takist ekki ætlunarverk sitt.jemen2

Hútar styrkjast heima fyrir og vopnahlé í hættu

Hútar hafa nú þegar sannreynt að það er til vinsælda fallið, bæði heima fyrir og erlendis, að snúast gegn Ísrael. Vinsældir Húta heima fyrir voru þverrandi þar til þeir gerðu Ísrael að óvini sínum. Síðan hafa tugþúsundir ungra manna gengið til liðs við Húta um leið og stuðningur við þá erlendis hefur aftur aukist. Augljóslega er andúðin á Ísrael að nýtast Hútum vel. Er nú svo komið að margir óttast að hið viðkvæma vopnahlé í Jemen, sem komið var á í október 2022, sé í hættu.

Þrátt fyrir miklar aðvaranir virðast Hútar eflast í áformum sínum. „Hútítar virðast ónæmir fyrir þrýstingi frá Vesturlöndum og Bandaríkjunum,“ sagði Sanam Vakil, yfirmaður Miðausturlanda Norður-Afríkuáætlunarinnar í Chatham House, við Al Jazeera fréttastofuna í vikunni. „Árásirnar á Ísrael og skotmörk í Rauðahafinu eru að stuðla að innri stuðningi og nýliðun Húta og beina þannig athyglinni frá félagslegum og efnahagslegum mistökum heima fyrir,“ sagði Eleonora Ardemagni rannsóknarfélagi við ítalska stofnun fyrir alþjóðleg stjórnmál (ISPI). „Bein átök við Bandaríkin munu líklega hafa sömu áhrif,“ bætti hún við.

Borgarastyrjöldin í Jemen milli 2015 og 2022 var einhver sú versta á þessu svæði og á tímabili þurftu um 23 milljónir íbúa mannúðaraðstoð eftir því sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út. Nánast allir þurftu á einhverskonar matargjöfum að halda og börn sultu heilu hungri. Hútar voru að því er virtist skeytingalausir um örlög almennings en sýndu talsverða getu á vígvellinum þrátt fyrir frumstæð vopn. Þeim tókst meira að segja að skjóta eldflaugum á flugvöllinn í Riyadh í Sádi-Arabíu sem vakti mikla ánægju í Teheran. Nú reyna þeir að skjóta eldflaugum á Ísrael.stríðsbörn

Hútar eru ófærir um að stjórna

Hútar hafa reynst ófærir um að stýra þeim landsvæðum sem þeir ráða yfir og haga sér fremur sem stríðsherrar en ábyrgir stjórnendur. Ofbeldi gagnvart heimafólki er mikið, börn eru nýtt til hernaðar og sjálfsmorðsárása og ofbeldi gagnvart konum er mikið og hefur versnað mjög síðan átökin hófust. Það er fátt sem bendir til þess að Hútar geti lagt nokkuð af mörkum til friðar og stöðugleika í þessum heimshluta.

Það er átakanlegt að lesa frásagnir og skýrslur um ástandið í Jemen en Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að 380 þúsund manns hafi látist í borgarastyrjöldinni. Nýlegar frásagnir sýna að líf fólks er við hungurmörk og öll heilsugæsla og læknisaðstoð í molum. Þeir sem í örvæntingu leita á sjúkrahús deyja oftar en ekki af sýkingum sem þeir fá þar. Landið morar í jarðsprengjum og barnaþrælkun er viðvarandi auk þess sem fjöldi barna særist eða deyr af völdum jarðsprengja.