OMG - þetta er AMG!

Merkilegt er það hvað þrír bókstafir geta haft mikil áhrif, og jafnvel mun meiri en orðin sem téðir bókstafir skammstafa. Ef einhver segði við þig „nei, heyrðu nú mig, sérðu þennan glæsivagn? Mér sýnist þetta vera Aufrecht Melcher Grossaspach!“ þá er nú ekki víst að þú sýnir mikil viðbrögð, nema þú sért innvígður og innmúraður í innsta hring Mercedes-Benz. En – ef maður heyrir hins vegar talað um A-M-G í þessu sambandi þá sperrir maður eyrun og hvessir augun því þess háttar dýrindi vill maður ekki missa af. Benz býr ekki til neina slorbíla alla jafna en AMG-týpurnar gleðja alveg sérstaklega. Þær eru talsvert öflugri, útlitslega betrumbættar og eftir því allnokkuð dýrari og sjaldséðari. Það var því með gleði í hjarta sem mér bauðst að reynsluaka GLE-jeppa frá Mercedes-Benz í AMG 43 útfærslu. Hann sveik heldur ekki nema síður væri.

Öskrandi kraftur og það líka bókstaflega!

Standið alveg klár á einu: þetta er kannski millistór jeppi að sjá en engu að síður er þetta ekkert annað er dúndrandi öflugur sportbíll með afl sem hæfir slíku tryllitæki.

Bíllinn er búinn 4Matic fjórhjóladrifinu með 9 þrepa sjálfskiptingu sem hugsar eins og AMG-bíll, ekki jeppi. Það er heldur ekki að undra því vélin er þriggja lítra V6, Bi-Turbo, heil 367 hestöfl og togið nemur 520 Nm. Fyrir bragðið er hann ekki nema 5,7 sekúndur í 100 km/h. Það var að sönnu hrein unun að sannreyna það.

Eitt það skemmtilegasta við GLE 43 AMG-jeppann er Dynamic Select-rofinn sem skiptir hreinlega um skapgerð bílsins. Comfort Mode er núllstillingin, mjúk fjöðrun og fallegt vélarhljóð. Sport er skiljanlega með stífari fjöðrun og kraftalegri prófíl. En svo kemur Sport+ og þá fyrst er hátíð í bæ. Ekki nóg með að bíllinn urri bókstaflega heldur hefur hljóðstúdíóið gert sérlega skemmtilega hluti með þessa stillingu – að því marki að bíllinn hreinlega sprengir milli þess sem hann skiptir upp um gír. Þegar maður nálgast svo umferðarljós og dregur úr hraðanum þá skiptir bíllinn niður með hljóði eins og í beinskiptur Mustang árgerð 1971 með hálfopið púst sé að skipta niður gírum. Af þessu hafði ég hreint út sagt barnalega skemmtun.

Dugar líka vel eins og jeppi

Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ekki takmarkaður tilgangur að gera bílinn úr garði þannig að hann sé með ríkulegri sportbílaeiginleika heldur en jeppakarakter. Engan veginn. Jeppaeiginleikarnir eru þarna enn til staðar. GLE 43 AMG hefur dráttargetu upp á 3.500 kíló og fjórhjóladrifið snarvirkar, meira að segja í snjófærð reyndist hann algerlega við völd. Bíllinn var nefnilega prófaður bæði við bestu aðstæður og auðar götur, og svo heilmikinn snjó í kjölfar metfannfergisins um síðustu helgi. Innan Dynamic Select er nefnilega stilling að nafni Slippery, auðkennd með táknmynd af snjókorni. Þar með var færðin afgreidd enda bíllinn þá vel í stakk búinn fyrir undirlag með lágan viðnámsstuðul.

Ökumaður situr líka sæmilega hátt uppi án þess að þurfa að príla um borð. Innanstokks er allt eins og best verður á kosið og óþarfi að fjölyrða um það. Þetta er jú Mercedes-Benz.

Á glettilega góðu verði

Svo fremi sem menn aka ekki um á viðvarandi Sport+ stillingu þá má halda GLE 43 AMG í stórmerkilega lágri eyðslu, nefnilega tæplega 9 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. Það telst vel af sér vikið og er hrósvert. Ekki er minna hrósvert hjá Mercedes-Benz að bjóða upp á 43 AMG í stað eingöngu 63 AMG því með þessu móti hafa fleiri ráð á þessum unaði og munaði.

Loks verður að hrósa umboðinu, Öskju fyrir að leyfa viðskiptavinum að njóta sterkara gengis krónunnar því þar á bæ hafa menn lækkað verð og þessi framúrskarandi skemmtilegi bíll fæst nú frá 11.540.000 kr. sem telst á lélegri íslensku vera „ruglverð“.

Væntanlegum kaupendum er rétt að óska góðrar skemmtunar því þetta er eftirminnilega skemmtilegur bíll.

jonagnar@mbl.is