Lágstemmdur lúxus

Það blasir ekki endilega við vegfarendum að Maybach S-600 er ...
Það blasir ekki endilega við vegfarendum að Maybach S-600 er mjög sérstakur bíll.

Sennilega á Mercedes-Benz Maybach S-600 að höfða til fólks sem á sand af seðlum, en er ekki svo þjakað af minnimáttarkennd að það vilji að allur heimurinn sjái hvað það hefur það gott.

Þar með er ekki sagt að Maybachinn sé ekki stórglæsilegur bíll sem myndi vekja mikla athygli á götunum í Reykjavík, en í stórborg eins og London hverfur hann í fjöldann eins og hálfgerð laumu-limósína. Hann er lítur í megindráttum út eins og venjulegur S-Class, ekki nema um 20 cm lengri, og vegfarendur þurfa að hafa augun hjá sér ef þeir eiga ekki að missa af Maybach-merkinu aftan við farþegahurðirnar.

Þeir sem vilja meira pomp og prakt fá sér Bentley eða Rolls, en sterkefnaða smekkfólkið sem þarf ekki of mikla athygli hreiðrar hins vegar um sig í dúnmjúkum aftursætunum á Maybach S-600.

Þrátt fyrir að ytra byrðið sé lágstemmt er Maybach S 600 ekkert nema íburðurinn að innan. Virðist eins og hvert fersentimetri hafi verið klæddur með útsaumuðu leðri og hnausþykku teppi. Innréttingin er í senn fáguð og sportleg, og bíllinn hlaðinn nýjustu tækni. Vitaskuld er líka kælir á milli farþegasætanna með pláss fyrir tvær vínflöskur og afskaplega falleg og þung glös úr silfri.

Einfaldur í akstri

Hvernig er svo að aka Maybach S-600? Í stuttu máli sagt þá virkar bíllinn á ökumann eins og hver annar glerfínn Benz. Stýrið er einstaklega mjúkt og upplýsingagjöf úr mælaborði eins og best verður á kosið. Þrátt fyrir að vera jafn breiður og Bentley Mulsanne virkar Maybach S-600 minni um sig, og ekki neitt sérstaklega erfitt að aka honum um þröngar götur Lundúnaborgar án þess að fá vöðvahnúta í axlirnar af stressi. Virkilega skýr 360° myndavél þýðir líka að auðvelt er að koma drossíunni fyrir í þröngu stæði án þess að rispa lakk eða felgur.

Það vantar ekki kraftinn í tólf strokka vélina, þó hann mætti koma ögn fyrr. En það er í sjálfu sér skiljanlegt að vélarnar í svona bílum séu ekki stilltar til að spana af stað – manneskjan í aftursætinu vill frekar að hröðunin sé jöfn og þægileg, svo að ekki sullist upp úr kampavínsglasinu í hvert skipti sem stigið er á bensíngjöfina.

Ef leitað er nógu vandlega má finna galla á bestu og fínustu bílum. Í tilviki Maybach S-600 kom á óvart að hér og þar glitti í plast, t.d. í gírskiptiblöðkunum. Hávaxinn íslenskur bílablaðamaður átti líka í örlitlu basli með að stilla sætið þannig að fætur gætu hvílt þægilega á pedölum, og honum hætti til að reka fótinn utan í bensíngjöfina þegar stigið var inn í bílinn. Virðist líka að Benz hafi gleymt að setja hnapp á stýrið til að skipta um lag eða útvarpsstöð, án þess að þurfa að fara krókaleiðir í gegnum tölvukerfi bílsins. GPS-kerfið skildi talað mál ekki nægilega vel, og hægt að finna mun ódýrari bíla sem eiga auðveldara með að taka við fyrirmælum á ensku.

Ódýrasti ofurlúxusbíllinn

Á móti göllunum koma ýmis skemmtileg smáatriði, eins og þykk og mjúk bílbeltin sem eru ekkert í líkingu við hvössu og stífu nælon-renningana sem eru látnir duga í öðrum bílum. Sætin „faðma“ líka ökumann og farþega í beygjum, til að gefa aukinn stuðning. Að vísu er þannig viðbótarstuðningur ekki við allra hæfi og gæti þetta þukl í sætunum virkað ögn „perralegt“ þangað til maður venst því.

Að öllu þessu sögðu þá eru vankantarnir á Maybach S-600 óttaleg smáatriði. Það getur verið að hann setji ekki alveg punktinn yfir i-ið eins og Bentley eða Rolls, enda töluvert ódýrari og hægt að fylla skottið af seðlum fyrir mismuninn. Og það er ágætis tilhugsun að geta hallað sér aftur í farþegasætunum á Maybach, umvafinn lúxus, og talið þar alla peningana sem maður sparaði.

Konunglegur borgarabíltúr

Maybach S 600 er annar bíllinn í röðinni í greinaflokki Bílablaðs Morgunblaðsins um skemmtilegar glæsibifreiðir sem gætu komið í stað tíu ára gamallar aðalbifreiðar forseta Íslands. Var riðið á vaðið í júlí með Bentley Mulsanne EWB og farinn ísbíltúr með Þórði Ægi Óskarssyni sendiherra í London.

Askja hjálpaði til við að koma því í kring að Daimler í Bretlandi fann handa Morgunblaðinu bíl sem alla jafna er notaður til að aka fyrirmennum og hefur aldrei áður verið prufuekið fyrir bílablað. Guðjón Reynisson hjá Hamleys fékkst til að prufa bílinn frá sjónarhorni farþegans, og skjótast eftir hamborgara.

Guðjón mun í október taka sæti í stjórn Hamleys en hann hefur verið forstjóri leikfangaverslanakeðjunnar í níu ár. Blaðamaður sótti Guðjón í verslun Hamleys á Regent Street og lá leiðin í útibú Hamborgarabúllunnar vestarlega í London, á King‘s Road.

Aðspurður hvað stæði upp úr eftir bíltúrinn sagði Guðjón að Maybachinn hefði verið afskaplega þægilegur og kjörinn fyrir fólk sem þykir gott að láta aka sér á milli staða. „Sjálfur myndi ég sennilega aldrei geta vanist því að vera með bílstjóra, og finnst skemmtilegra að keyra sjálfur.“

Guðjón eignaðist sjálfur sinn fyrsta Benz þegar hann flutti til London fyrir hartnær áratug og á heimili hans eru í dag tveir bílar frá þýska framleiðandanum. Hann segir ekki erfitt að halda tryggð við merkið. „Maður borgar svolítið meira fyrir þessa bíla, en fær líka miklu meira.“

Að utan er hann ósköp Benz-legur og hverfur auðveldlega í ...
Að utan er hann ósköp Benz-legur og hverfur auðveldlega í fjöldann. Sumum gæti þótt það mikilvægur kostur.
Upplýsingagjöf og myndavélar eru fyrsta flokks, og létta aksturinn.
Upplýsingagjöf og myndavélar eru fyrsta flokks, og létta aksturinn.
Þráðlaus heyrnartól fyrir farþega.
Þráðlaus heyrnartól fyrir farþega.
Prófuð var útgáfa með n.k. flugvélarsætum sem hallast langt aftur.
Prófuð var útgáfa með n.k. flugvélarsætum sem hallast langt aftur.
Kælirinn minnkar skottið, en samt er nóg af plássi fyrir ...
Kælirinn minnkar skottið, en samt er nóg af plássi fyrir farangur.
Aftursætisfarþegar geta valið að láta bílinn kæla (blátt) eða hita ...
Aftursætisfarþegar geta valið að láta bílinn kæla (blátt) eða hita (rautt) drykkina sína.
Aftursætisfarþegar geta valið að láta bílinn kæla (blátt) eða hita ...
Aftursætisfarþegar geta valið að láta bílinn kæla (blátt) eða hita (rautt) drykkina sína.
Silfurglösin eru sérdeilis falleg og kælirinn kemur að gagni.
Silfurglösin eru sérdeilis falleg og kælirinn kemur að gagni.
Burmeister hátalararnir eru eins og lítil listaverk um allan bílinn.
Burmeister hátalararnir eru eins og lítil listaverk um allan bílinn.
Að utan sést Maybach merkið aðeins við afturhurðirnar.
Að utan sést Maybach merkið aðeins við afturhurðirnar.
Guðjón lukkulegur í aftursætinu. Hann telur sig seint geta vanist ...
Guðjón lukkulegur í aftursætinu. Hann telur sig seint geta vanist því að vera með bílstjóra, og vill helst aka sjálfur.