Í þægilegum jeppa á glæponaslóðum

2019-árgerðin af Jeep Cherokee hefur fengið andlitslyftingu að innan og utan. Sýnilegustu breytingarnar eru á ytra byrðinu sem er töluvert breytt milli árgerða. Til að mynda hafa umdeild framhljós, sem þóttu minna á pírð augu og margir hreintrúarmenn fengu hroll yfir, fengið að víkja fyrir nýjum og stærri LED-ljósum sem sverja sig útlitslega meira í ætt við aðra meðlimi Jeep-fjölskyldunnar.

Innandyra hefur hann fengið yfirhalningu, með meira geymsluplássi og veglegri efnum sem fáanleg eru í nýjum litapallettum. Þar leituðu hönnuðir Jeep á framandi slóðir eftir innblæstri, nánar tiltekið til Marrakesh og Íslands.

„When in Rome...“

Cherokee verður fáanlegur í tveimur útfærslum hér heima; Longitude og Limited, og það var síðarnefnda útgáfan sem mér voru afhentir lyklarnir að þegar ég fékk að reynsluaka bílnum á Sikiley. Mín fyrsta spurning þegar fulltrúar Jeep sóttu mig út á flugvöll í Catania var hver hámarkshraðinn væri á almennum vegum. Ítalski drengurinn í framsætinu sneri sér við með þónokkrum furðusvip, melti spurninguna í sekúndubrot og svaraði: ,,Það skiptir engu máli. Þetta er Sikiley, það fer enginn eftir reglum.

Bensínfóturinn þyngdist töluvert við þessar upplýsingar, og átti eftir að reyna á sannleiksgildi þeirra, enda bíllinn, með sína 195 hestafla 2,2 lítra díselvél, prýðilega sprækur. Eftir nokkra klukkutíma í akstri var ég farin að farin að temja mér ökusiði innfæddra, sem einkenndust við fyrstu sýn af því að keyra eins hratt og hægt var, og þar sem var pláss alveg óháð akreinum og öðru slíku prjáli. Heimamenn eru líka alveg ófeimnir við að pirra sig á ,,hægfara“ ökumönnum, jafnvel þótt þeir aki langt yfir hámarkshraða.

Í meðvirkni með aðstæðunum var hraðinn aukinn út fyrir öll velsæmismörk og því ekki laust við að hjartað tæki nokkur aukaslög þegar ég rak augun í sjaldséð umferðarskilti sem sýndi að ég var nærri því að vera á tvöföldum hámarkshraða. Ekki batnaði ástandið þegar ég sá lögreglubíl nálgast, enda tæplega annað í stöðunni en að ökuníðingurinn yrði sviptur ökuleyfi á staðnum. Þær áhyggjur reyndust þó óþarfar, því löggan gaf í og tók framúr. Engar sírenur eða blikkljós, líklega bara að flýta sér í kaffi.

Líður best að keyra beint, og á löglegum hraða

Þar kom hinsvegar að akkilesarhælnum. Cherokee er enginn sportbíll, og líður langbest þegar hann keyrir beint, á löglegum hraða. Meira að segja í sportstillingu dúaði hann óþægilega ef farið var yfir ójöfnur á veginum á miklum hraða og beygjur tekur maður ekki í neinum ofsaakstri. Mjúk fjöðrunin verður þó kostur þegar malbikinu sleppir og er hægt að aka nokkuð greitt yfir þvottabretti án þess að verða þess óþægilega var. Bíllinn stendur sig vel í torfærum og á holóttum vegum og ætti því að vera á heimavelli hvort sem er á hálendinu eða í miðborg Reykjavíkur.

Mest langaði mig þó að stinga af og fara á honum út á þjóðvegina með vinum, enda fyrirmyndar ferðabíll. Það fer einstaklega vel um alla innandyra, lungamjúk sætin sverja sig meira í ætt við La-Z-boy hægindastól en bílsæti og ekki vottaði fyrir rasssæri eftir langan dag í akstri. Limited-útgáfan skartar leðurklæðningu og kælingu í framsætum, sem er líklega ekki sterkur sölupunktur á klakanum en kom sér einstaklega vel fyrir berleggjaðan ökumann í suðurevrópskum hita og raka.

Upplýsingaskjárinn hefur stækkað frá fyrri árgerð og er í Limited-útgáfunni 8,4 tommur. Kerfið styður bæði Apple Car og Android play og er með því betra sem ég hef komist í tæri við, einfalt og hraðvirkt. Það þurfti ekki, eins og oft vill verða, korters fálm í flóknu stýrikerfi til að tengja símann, sem var kominn í samband á núll einni. Hljóðkerfið í Limited er líka til mikillar fyrirmyndar og var það sem eftir lifði ferðar nýtt til að blasta gangsta rappi, viðeigandi tónlist í höfuðvígi mafíunnar.

Geta teygt úr sér í aftursætinu

Nóg er af geymsluplássi inni í bílnum, þar sem er að finna hin ýmsu hólf í hurðum og farþegarými til að hlaða síma, geyma drykki og snarl eða allt þetta dót sem tínist til í langferðum. Að minnsta kosti náði ég að koma mér upp kirkjugarði af kókflöskum og súkkulaðibréfum án þess að sæi högg á vatni.

Farangursrýmið hefur líka verið stækkað um 70 lítra frá fyrri árgerð og breikkað, sem þýðir að nú er loksins hægt að geyma golfsettið þversum í skottinu. Hljómar eins og töluvert fyrsta heims vandamál en ku hafa verið raunverulegt umkvörtunarefni eigenda fyrri árgerða. Þá er handfrjáls opnun í boði fyrir farangursrýmið og er staðalbúnaður í Limited, en þá dugar að ota fætinum aðeins undir bílinn til að opna skottið.

Plássleysi er heldur ekki vandamál í farþegarýminu, en þar sem líkamsbygging mín hentar illa til að meta hvort bílar séu rúmgóðir eða ekki var limalangur vinur tekinn í bíltúr og skikkaður í aftursætið. Fyrir utan óþægindatilfinningu sem skrifast á aksturslag undirritaðrar fór ljómandi vel um drenginn, sem mælist þó 185 sentimetrar á hæð. Raunar getur farið mjög vel um tvo fullorðna aftur í, með nægu rými til að teygja úr sér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »