Gasalega fágaður

ES 300h er með rúmgott skott miðað við tvinnbíl og ...
ES 300h er með rúmgott skott miðað við tvinnbíl og eins og margar drossíur kallar hann á yfirvegaðan akstur. mbl.is/Kristinn Magnússon

ES 300h er að mínu mati íðilfagur. Skarpar línurnar minna helst á kattardýr eða skorna vöðva ballerínu og vígalegt framgrillið gefur honum töffaralegan svip. Það skrifast væntanlega á reynsluleysi undirritaðrar af tegundinni að miðað við útlitið bjóst ég við meira óargadýri og hugsaði í fyrstu að fleiri hestar undir húddinu hefðu ekki skemmt fyrir.

Óargadýr eru hinsvegar ekki í genamengi Lexus. Og þau eru heldur ekki jafn eyðslugrönn og ES, sem er með uppgefna eyðslu upp á 4,6 lítra í blönduðum akstri. Eins mikil klisja og það kann að vera er „fágun“ það fyrsta sem kemur upp í hugann, bæði í öllu útliti og lungamjúkri akstursupplifuninni og eftir nokkrar mínútur bak við stýrið hvarf þörfin fyrir að spítta á milli ljósa, að mestu. Raunar virkaði ES á mig eins og bíll sem mann langar í rólega og yfirvegaða langferð á.

Sá öruggasti

Innandyra væsir hvorki um ökumann né farþega, ES 300h er merkilega rúmgóður, innréttingin er falleg og sætin þægileg. Skottið er allstórt, sérstaklega af tvinnbíl að vera. Þá er hann ótrúlega vel hljóðeinangraður, sem er ekki síst kostur þegar hann keyrir á rafmagninu þegar eyrað virðist fara á yfirsnúning að greina veghljóð. Ef ég hef eitthvað út á þennan bíl að setja er það helst upplýsinga og afþreyingarkerfið. Því er stýrt með einskonar músaborði, sem undirritaðri gekk brösuglega að nota, þó það myndi líklega venjast fljótt með meiri akstri.

Lexus ES er ríkulega búinn öllum nýmóðins öryggisbúnaði, meðal annars árekstrarviðvörunarbúnaði, akreinavara, árekstrarvara, sjálfvirkum hraðastilli og umferðarskiltagreiningu enda fékk hann nýlega 5 stjörnur fyrir öryggi hjá Euro NCAP-rannsóknarfyrirtækinu og var útnefndur öruggasti bíllinn í flokki stærri fólksbíla og í flokki tvinn- og rafmagnsbíla.

Kallar á hjálp

Þá er ES, eins og nýr RAV4 sem einnig var kynntur í byrjun ársins, búinn neyðarsímkerfinu eCall. Er eCall sjálfstætt og sjálfvirkt neyðarsímkerfi sem innbyggt er í bílinn og kemur honum í samband við Neyðarlínuna ef loftpúðar í honum springa út við árekstur. Einnig getur ökumaður eða farþegar virkjað eCall með því að ýta á neyðarhnapp sem staðsettur er ofan við baksýnisspegil bílsins. Búnaðurinn sendir þá nauðsynlegar upplýsingar, svo sem um staðsetningu bílsins, til Neyðarlínunnar, sem hægt er að tala við gegnum kerfi bílsins.

Lexus ES 300h

» 2,5 lítra full hybrid

» 218 hestöfl, 220 Nm

» Sjálfskipting CVT

» 4,2-4,6 l / 100 km í blönduðum akstri

» Úr 0-100 km/klst á 8,4 sekúndum

» Hámarkshraði 180

» Framhjóladrifinn

» 235/40R19 dekk

» 2.150 kg

» Farangursrými: 454 lítrar

» Koltvísýringslosun 100-106 g/km

» Verð frá 8.100.000

Hann hefur útlitið með sér, eins og aðrir meðlimir Lexus-fjölskyldunnar.
Hann hefur útlitið með sér, eins og aðrir meðlimir Lexus-fjölskyldunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun ...
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun mánaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun ...
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun mánaðar.
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun ...
Sjöunda kynslóð Lexus ES 300h var frumsýnd hérlendis í byrjun mánaðar.
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »