Sportbíll fyrir fólk með plássfrek áhugamál

„Hann er alveg sexí, sko,“ sagði vinur minn þegar ég renndi í hlaðið. „Flottar línur og hljóðið er ekki að skemma fyrir.“ Nokkurt hrós frá síðasta manninum sem ég þekki sem hefur ekki orðið spandexinu að bráð og fjárfest í jepplingi til að rúma hjólið.

Kynþokki er yfirleitt ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar um KIA, en hönnuðum Proceed hefur tekist vel til hér. Hann svínlúkkar. Það glittir í rautt bak við vígalegt grillið, og rauðar miðjur á átján tomma álfelgunum og línur neðst á hliðunum gefa honum sportlegt yfirbragð. Afturendinn er sérlega rennilegur, og svei mér þá ef hann minnir ekki frá þeim vinkli á Porsche Panamera. Allavega H&M útgáfu hins skynsama manns af þeim eðalvagni. Hallandi afturlínan gerir það þó að verkum að afturrúðan er í minni kantinum, og lofthæð í aftursætum býður líklega ekki upp á neinar langferðir fyrir mjög hávaxið fólk. Sem er smávægileg fórn að mínu mati fyrir þessar línur.

Flennistórt farangursrými

Innandyra er Proceedinn öllu lágstemmdari, en sportlegur þó. Rauðir saumar eru í leðurklæddum sætunum, sem skarta meiri og stífari bólstrun í hliðum og við læri til að styðja betur við ökumann í akstri. Það er engin flugeldasýning í gangi, en ekkert út á að setja svo sem. Proceed fær bónusstig fyrir þráðlausa farsímahleðslu og heiðarlega takka fyrir helstu aðgerðir. Hér þarf ekki að óttast kámugan snertiskjá detti manni í hug að hækka í miðstöðinni. Og eins og yfirleitt úr smiðju KIA er Proceed mjög vel búinn tæknilega. Lyklalaust aðgengi, blindhornsviðvörun, árekstrarvari, kerfi sem aðstoðar við að leggja í stæði og athyglisvari, sem fylgist meðal annars með hreyfingum stýrisins og inngjöf og varar við með mynd- og hljóðmerki ef kerfinu finnst ökumaðurinn ekki vera með hugann við efnið. Farangursrýmið er til mikillar fyrirmyndar fyrir bíl í þessum flokki, 594 lítrar, og allt að 1.465 með aftursætin niðri.

Spretthlaupari með flensu

Í akstri er Proceed sportlegur að mestu. Viðbætt vélarhljóð gerir það að verkum að hann urrar eins og það sé ótemja undir húddinu. Fjöðrunin þétt, án þess þó að hann sé hastur úr hófi fram, og hann liggur vel freistist maður til að skella sér í beygju á metnaðarfullum hraða. Þar koma framsætin líka vel út og styðja vel við í ákveðnari akstri. Þar flækist málið þó. 204 hestafla vélin skilar sínu alveg, en fer umbúðunum einhvern veginn ekki nógu vel. Tilfinningin svolítið eins og spretthlaupari með flensu, sem kemst ekki alveg jafn hratt og skrokkurinn er byggður fyrir. Hefði viljað sjá fleiri hesta undir húddi, en það er ekki þar með sagt að það sé leiðinlegt að keyra hann. Ég stóð mig þó að því að keyra svo til eingöngu í sportstillingu til að bæta upp fyrir þetta misræmi í afli og akstursgetu, en einnig má lífga upp á aksturinn með því að skipta handvirkt um gír með þar til gerðum flipum á stýrinu.

Það hefur mögulega spilað inn í að reynsluakstursbíllinn var á einhverjum óræðum stað milli þess að vera appelsínugulur og rauður, en sjaldan hef ég farið á rúnt á bifreið sem fólk glápir jafn mikið á. Meira að segja opinn Unimog 411 sem ég keyrði upp tröppur á leiðinni út í bakarí fékk ekki svona marga hausa til að snúast. Vini mínum varð að minnsta kosti svo starsýnt á afturendann að ég var við það að verða abbó. „Veistu...það er örugglega geðveikt pláss í skottinu! Ég var nefnilega að fá mér hjól.“ „Another one bites the dust“ hugsaði ég. Það má allavega hugga sig við að hann geti verið vel keyrandi í spandexinu.

Proceed ætti að vera fínasti kostur fyrir fólk sem langar í sportlegan akstursbíl, þar sem það getur falið miðaldurs áhugamálin í skottinu, sem ætti hæglega að rúma racer og hálft tonn af spandexi með afgangsplássi fyrir golfsettið.

Kia Proceed

» 1,6 l bensínvél

» 204 hö / 262 Nm

» Sjálfskiptur DCT-7

» 6l/100 km

» 0-100 km/klst á 7,5 sek

» Hámarkshraði 225 km/klst

» Framhjóladrifinn

» Dekk 225/40 R18

» Þyngd 1.355-1.465 kg

» Farangursrými 594 lítrar

» Koltvísýringslosun » 142 g/km

» Umboð: Askja

» Verð frá 5.740.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »