Stinnur og stimamjúkur

Það er gott að keyra Mazda 3 og bíllinn lætur …
Það er gott að keyra Mazda 3 og bíllinn lætur vel að stjórn. 18" álfelgur eru undir bílnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar ég settist í fyrsta sinn undir stýri á ljósgráum Mazda 3 Sedan uppi í Brimborg á dögunum minntist ég þess að ekki alls fyrir löngu prófaði ég stóra bróður (eða systur?) þessa bíls, Mazda 6, og var prýðilega sáttur við þá akstursreynslu.

Nú, eftir nokkra hringi á litla bróður/systur, er ég ekki síður sáttur, ef ég fæ að draga prufukeyrsluna saman í örfá orð í byrjun þessarar greinar.

2019-útgáfan af Mazda 3 er fjórða kynslóðin af þessum snaggaralega og sportlega bíl, sem samsvarar sér vel í allri holningu sinni, svarar vel öllum aðgerðum í ökumannssætinu og býður upp á mikinn stinnleika í hreyfingum. Í rauninni má segja að hann hafi vinninginn yfir Mazda 6 í hlutfallslegri samsvörun í ytra útliti og stinnleika í viðbrögðum, þó að Mazda 6 sé óneitanlega meiri bíll, mýkri í akstri og betur „bólstraður“.

Uppfærð Skyactiv-vél

Í þessari fjórðu útgáfu hefur Skyactiv-vélin verið uppfærð og heitir núna Skyactiv-X sem Mazda kynnir sem tækniundur og segir hana byltingarkennda. Vélin styðjist við brunaferlis-þjöppukveikingu (e. compression ignition) sem bílaiðnaðurinn er búinn að reyna að ná tökum á undanfarna tvo áratugi. Sex þrepa sjálfskipting sér um að koma bílnum á hreyfingu, en skiptingin er sérlega mjúk og bíllinn er almennt nokkuð snarpur, þótt ekki sé vélin endilega sú kraftmesta í heimi. Er samt alltaf hægt að setja í sportstillingu til að ná honum fljótt upp og á góðan hraða. Hver kannast ekki við að þurfa að skjótast sem snöggvast fram úr einhverjum túristanum á 60 km hraða úti á þjóðvegi þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Eitt það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég prófaði Mazda 3, sem kostar frá aðeins 3,6 milljónum króna, var hvort hann hentaði manni á mínum aldri – manni sem stappar nærri fimmtugu. Hvað þá eldra fólki, öðru en því sem mætir í ræktina fjórum sinnum í viku og er með líkama þrítugrar manneskju. Niðurstaðan er í raun sú að bíllinn henti almennt vel yngra fólki sem á gott með að fara inn og út úr lágum bílum og þarf ekki að breiða mikið úr sér í aftursætum, þótt það sé svo sem ekki yfir miklu að kvarta í aftursætinu á Mazda 3. Fótaplássið þar er sæmilegt miðað við stærð bílsins, svo lengi sem sá sem situr frammi í er ekki að renna sætinu sínu alltof langt aftur. Sömuleiðis er höfuðplássið ágætt. Talandi um pláss þá er hanskahólfið sæmilega rúmgott og það sama má segja um skottið. Rétt eins og hægt er að gera í Mazda 6 getur maður kippt í takka við skottið til að fella niður aftursætin, sem er afar þægilegt þegar flytja þarf IKEA-hillurnar heim eða gíraffann úr Costco.

Skottlokið er annars lauflétt og þýtur upp þegar opnað er, sem fellur örugglega mörgum í geð.

Bætt upplýsingakerfi

Mazda er, þrátt fyrir hagstætt verð, með allan helsta aukabúnað sem finna má í nýjum bílum í dag; hliðarlínuskynjara, myndavélar allt í kring, bakk- og frammyndavélar sem vara mann við þegar hætta steðjar að og svo mætti lengi telja. Þá er búið að uppfæra upplýsingakerfi bílsins frá því sem var þegar ég prófaði Mazda 6 í fyrra og olli mér þá vonbrigðum. Upplýsingakerfið hér, sem enn er komið fyrir í spjaldi sem stendur upp úr mælaborðinu í stað þess að vera fellt inn í innréttinguna, og myndavélarnar eru mun betri en ég upplifði í Mazda 6-reynsluakstrinum. Þó verð ég að segja að ég átti í smá erfiðleikum með að rata um kerfið og átta mig á því hvaða takka ég átti að nota hvenær. Þá er viðmótið ekkert sérstaklega myndrænt, sem er ákveðinn mínus.

Stjórntækin, sem meðal annars stýra upplýsingakerfinu og útvarpinu, eru meðfærileg og fín. Þau eru staðsett í miðjunni, með stóran snúningshnapp þar fremstan í flokki sem fer vel í hendi og er álíka og finna má í aðeins íburðarmeiri bílum eins og Benz, BMW og Audi.

Innra útlit bílsins er líka alveg til fyrirmyndar, leðurklætt mælaborðið er fallega hannað og býr yfir ákveðnu „landslagi“.

Stjórntæki loftræstingarinnar er fremur hefðbundið, því Mazda á enn eftir að fella það inn í upplýsingakerfið eins og margir aðrir bílaframleiðendur hafa þegar gert.

Af smáatriðum sem glöddu má benda á sólgleraugnageymslu uppi við þakið og „head-up display“ eða hraðamæli í framrúðunni. Það tekur smá tíma að venjast honum, en þegar maður er búinn að því horfir maður nær eingöngu þangað, fremur en á þann hefðbundna í mælaborðinu.

Mazda-motturnar eru smart og huggulegar með einhvers konar beltisdýrasímynstri og pláss er fyrir tvær vatnsflöskur í miðrýminu framan við gírstöngina.

Það er dálítið sérstakt að þurfa að renna loki á geymsluhólfi á milli framsætanna aftur á bak áður en það er opnað, en í staðinn fær maður gott pláss, sem gleypir í sig alls konar dót sem maður vill síður láta flækjast fyrir sér annars staðar í bílnum.

Þótt ekki skuli gína við öllu sem sagt er í texta bílaumboðanna um nýja bíla má taka undir það sem kemur fram í kynningartexta um bílinn á vef Brimborgar, að Mazda 3 búi yfir aksturseiginleikum sem gera mann og bíl að einu, eða eins og það útleggst á frummálinu; Jinba Ittai.

Mazda 3 Sedan 2.0 Skyactiv G

» Bensínvél 122 hestöfl / 213 Nm

» 6 þrepa sjálfskipting

» 0-100 km/ klst á 10,4 sek

» Hámarkshraði: 202 km /klst.

» Framhjóladrifinn

» 18" álfelgur

» Eigin þyngd 1.274

» Farangursými: 351 lítri

» Mengunargildi: 119 g/km

» 5,2 l í blönduðum akstri

» Umboð: Brimborg

» Verð frá 3.590.000 kr.

Skottlokið er lauflétt. Myndavélar allan hringinn auka öryggi í akstri.
Skottlokið er lauflétt. Myndavélar allan hringinn auka öryggi í akstri. mbl.is/Kristinn Magnússon
Grillið á þessari fjórðu kynslóð af Mazda 3 er af …
Grillið á þessari fjórðu kynslóð af Mazda 3 er af fallegra taginu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Mazda 3 samsvarar sér vel, og línurnar eru sportlegar.
Mazda 3 samsvarar sér vel, og línurnar eru sportlegar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Vélin er umhverfisvæn og styðst við brunaferlis-þjöppukveikingu
Vélin er umhverfisvæn og styðst við brunaferlis-þjöppukveikingu mbl.is/Kristinn Magnússon
Stýrið er sportlegt og innréttingin í heild sinni er lagleg …
Stýrið er sportlegt og innréttingin í heild sinni er lagleg japönsk hönnun mbl.is/Kristinn Magnússon
Pláss í skotti er viðunandi og þaðan er hægt að …
Pláss í skotti er viðunandi og þaðan er hægt að leggja niður aftursætin . mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: