Praktískur og mikið fyrir augað

Citroen C5 Aircross er lipur í hreyfingum, meðfærilegur og léttur …
Citroen C5 Aircross er lipur í hreyfingum, meðfærilegur og léttur í stýri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan André Citroën kynnti sinn fyrsta bíl til sögunnar í júlí árið 1919, hinn svokallaða A Type Citroën. Útlit þess bíls er fremur kunnuglegt fyrir ökutæki þess tíma, en er leið á öldina fóru Citroën-bílar að marka sér skýra sérstöðu útlitslega séð, eins og með tilkomu hinna goðsagnakenndu Citroën-bragga, sem smíðaðir voru á tímabilinu 1948 til 1990.

Auk þess er óhætt að segja, miðað við þá frönsku bíla sem ég hef sjálfur persónulega reynslu af, að einkenni Citroën-bifreiðar er að aksturinn er lipur og mjúkur og stýrið létt. Sú tilfinning virðist loða við franska bíla almennt.

Það mætti lýsa útliti sumra Citroën-bíla sem sérviskulegu, og það á einnig við um Citroën C5 Aircross. Í honum eru t.d. litlar holur eða hólf sem ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi, nema þá því að vekja athygli og eftirtekt á vegum úti, eða í borgarumferðinni, og spila með heildarútlitinu.

Í hönnuninni er gætt að samræmi í útliti inni og úti, auk þess sem í C5 er vitnað skemmtilega til annarra Citroën-tegunda eins og Citroën Cactus. Innra byrði afturhurða minnir þannig á hið einkennandi og upphleypta „Cactus hliðarmynstur“. C5 Aircross er sem sagt þónokkuð fyrir augað. Sá bíll sem ég fékk í hendur var dökkgrár, og liturinn sómdi sér vel með rauða skreytilitnum á hlið, á framhlið og í burðarbogum á toppi. Afturgluggar eru skyggðir, sem gerir einnig mikið fyrir útlitið og stílinn, að ónefndum framljósabúnaðinum, sem er einkar nútímalegur og fallegur á að líta. Útsýni um afturglugga í skotti var hins vegar ekkert frábært.

Fleiri hlutir sem heilluðu voru aðgengilegt og laglegt viðmót upplýsingakerfisins, lipur og meðfærileg gírstöng, og pláss var sérstaklega gott í hólfi milli framsæta. Hólfið er reyndar svo djúpt að það er auðvelt að týna hlutum þar ofan í ef maður gætir ekki að sér! Þá er hanskahólfið sömuleiðis rúmgott, en hurðin er svo stór og opnast svo vel að gæta verður að því að hlutir velti ekki út úr hólfinu og niður á gólf þegar opnað er upp á gátt. Fremst fyrir framan gírstöngina er gott pláss fyrir farsíma sem hægt er að hlaða þar þráðlaust. Er það mikill kostur fyrir nútímamanninn.

Innbyggð aksursmyndavél

Bíllinn sem ég prófaði var með innbyggðri akstursmyndavél sem tekur upp og geymir upptökur af akstri, en þetta er hugsað til öryggis ef maður lendir í óhappi, að eiga þá myndband af atvikinu. Hægt er að vinna með þetta á fleiri en einn veg í gegnum smáforrit sem hægt er að hlaða niður í símann.

Pláss í aftursætum er viðunandi fyrir fætur og gott fyrir höfuð. Það er auk þess afar góður kostur í þessum bíl, eins og reyndar í fleiri Citroën-bílum, að hægt er að færa til hvert og eitt aftursætanna, fram og til baka, og halla þeim aftur hverju fyrir sig. Enn fremur leggjast þau mjög flöt niður sem hjálpar töluvert til við flutninga, en ég hreifst af góðu plássi í skotti á þessum bíl. Inn í það er hægt að stafla mörgum töskum, pökkum og pinklum, eða skutla þar inn reiðhjóli með sæmilega góðu móti. Þá er ónefndur sá bráðskemmtilegi fídus að geta sveiflað fæti undir afturstuðaranum og opnað þannig afturhlerann, sem er einkar hentugt þegar fangið er fullt, eða þegar maður nennir einfaldlega ekki að taka hendurnar upp úr vösunum á köldum degi.

Sprækur í sportstillingu

Eins og sagði hér að framan er C5 Aircross kvikur í hreyfingum, og þá sérstaklega var hann sprækur í sportstillingunni.

Ég er enn að læra að nota og treysta bakkmyndavélum svo vel sé. Í Citroën er boðið þar upp á mismunandi sjónarhorn sem eiga að hjálpa, 180 gráðu sýn, aðdráttarsýn, sjálfvirka sýn og staðlaða sýn.

Hvað öryggiskerfið varðar þá gefur bíllinn manni vinalega áminningu þegar farið er yfir löglegan hámarkshraða með því að láta umferðarmerkin í mælaborðinu verða bleikrauð.

Sem jepplingur er Aircross ekki dýr í samanburði við aðra sambærilega bíla á markaðnum, og hægt að fá hann undir fjórum milljónum, þó að sá sem hér sé skrifað um hafi verið ögn betur búinn og dýrari eftir því.

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem hentar hvort sem er til flutninga á fólki eða farmi, nema hvort tveggja sé.

Citroën C5 Aircross

» 2,0 dísilvél

» 180 hestöfl / 300Nm

» 8 þrepa sjálfskipting

» 4,1 l í blönduðum akstri

» 0-100 km / klst. 8,2 sek.

» Hámarkshr.: 215 km / klst.

» Framhjóladrifinn

» Á 18 álfelgum

» Eigin þyngd: 1.612 kg

» Farangursr.: allt að 720 l

» Mengunargildi: 108 g/km

» Umboð: Brimborg

» Verð frá 4.530.000 kr.

Bíllinn sker sig úr fjöldanum og sómir sér vel í …
Bíllinn sker sig úr fjöldanum og sómir sér vel í íslenskum aðstæðum. Frakkarnir þora að vera frumlegir. mbl.is/Kristinn Magnússon
Citroën C5 Aircross
Citroën C5 Aircross mbl.is/Kristinn Magnússon
Citroën C5 Aircross
Citroën C5 Aircross mbl.is/Kristinn Magnússon
2,0 lítra dísilvél er í bílnum og skaffar hún ökumanni …
2,0 lítra dísilvél er í bílnum og skaffar hún ökumanni 180 hestöfl mbl.is/Kristinn Magnússon
Citroën C5 Aircross
Citroën C5 Aircross mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »