Ódrepandi vinnuþjarkur

Toyota hefur haldið áfram að þróa þennan vinnuþjark, svo hann …
Toyota hefur haldið áfram að þróa þennan vinnuþjark, svo hann er talsvert sportlegri að utan og sama kraftatröll að innan. mbl.is/Kristinn Magnússon


Toyota Hilux má kalla hákarl bílaheimsins, hefur verið nánast óbreyttur í þróunarsögunni í milljónir ára. Það er kannski eilítið ofmælt, því Hilux er aðeins 53 ára gamall, kom fyrst á markað 1968, og auðvitað hefur hann þróast töluvert á þeim tíma.

En það sem gerir hann sérstakan, nánast einstakan, helst að mestu óbreytt 18 milljónum bíla síðar. Það á líka við um Toyota Hilux 2021, þótt hann haldi áfram að þróast í takt við tímann er kjarninn í honum hinn sami og fyrr: sterkbyggður og þolgóður pallbíll, einfaldur og áreiðanlegur.

Þegar sagt er að Hilux sé einfaldur, þá er átt við að hann sé ekki flóknari en hann þarf að vera. Það er ekki margt sem getur bilað í honum og flest það geta laghentir menn átt við sjálfir. Það segir kannski sína sögu, að á ófriðarsvæðum í fjarlægum heimshlutum er hann stundum kallaður „skriðdreki fátæka mannsins“, því þar hafa stríðsherrar breytt honum með því að setja 50 cal. vélbyssu á pallinn og eiga þá allt í einu vélaherdeildir.

Enginn þarf heldur að efast um hvað Hilux er sterkbyggður og áreiðanlegur. Það er nóg að fylgjast með ítrekuðum tilraunum þríeykisins í Top Gear til þess að drepa Hilux-bíla án mikils árangurs, til þess að átta sig því. Jeremy Clarkson böðlaðist á Hilux, ók á tré, út í sjó, varpaði honum úr mikilli hæð og lét svo hjólhýsi gossa ofan á hann, barði að utan með brotkúlu og kveikti loks í honum. Vélvirki þurfti aðeins að eiga við hann (án varahluta og einungis með einföldustu verkfærum) eftir að bíllinn hafði legið í sjó, en þótt bíllinn væri orðinn ósjálegur mátti ræsa vélina og aka á brott frá öllum þessum þolraunum. Seinna var Toyota Hilux komið fyrir á þaki 23 hæða byggingar, sem svo var sprengd niður. Bíllinn var nánast óþekkjanlegur eftir, en aftur þurfti vélvirkinn aðeins að eiga við hann í stutta stund áður en ræsa mátti vélina og aka burt.

Aukin samkeppni

Við fyrstu sýn er Hilux talsvert nútímalegri að innan, en …
Við fyrstu sýn er Hilux talsvert nútímalegri að innan, en eftir sem áður er notagildið í fyrirrúmi. mbl.is/Kristinn Magnússon


Það er ekki aðeins á Íslandi sem jeppar og pallbílar hafa orðið æ vinsælli hin síðari ár. Sala á pallbílum í Evrópu hefur tvöfaldast síðan 2012, þar sem fjöldi fólks hefur orðið sér úti um slíka bíla til þess að geta ekið í torfærum, sinnt áhugamálum og þar fram eftir götum. Sumir þeirra eru raunar svo fínir og dýrir að það er varla að menn hætti sér á þeim út í rigningu. Það á ekki við Hilux, sem eftir sem áður er fjölhæfur vinnubíll í grunninn, en Toyota hefur samt fundið fyrir því að markaðshlutdeildin hefur minnkað eftir því sem framboð á pallbílum hefur aukist.

Hönnuðir og verkfræðingar Toyota hafa því ekki látið sér nægja að halda sig við gömlu formúluna, þótt þeir hafi lítið breytt henni, heldur má fremur segja að þeir hafi aukið við hana. Það er auðvelt að sjá það á útlitinu, að það er verið að mæta samkeppninni: nýi Hiluxinn er vöðvastæltari að sjá en nokkru sinni, töluvert í takt við þróunina í Bandaríkjunum og það glittir meira í króm. Hann á líka betur heima á þjóðveginum en áður og það hefur talsvert verið bætt í þægindin líka. Á móti kemur að fjöðrunin í honum miðast ekki lengur við að vera með eins tonns hlass á pallinum, þannig að hann er aðeins stöðugri í daglegum akstri. Eftir sem áður ruggar hann eilítið, enda hár og blaðfjöðrun að aftan, en hann steinliggur þegar búið er að hlaða pallinn.

Hljómar eins og vinnutæki

Hiluxinn er ekki lítill bíll, en samt ekki óþarflega langur. …
Hiluxinn er ekki lítill bíll, en samt ekki óþarflega langur. Hann kemst í flest bílastæði án þess að skaga of mikið út. mbl.is/Kristinn Magnússon


Bíllinn sem Morgunblaðið fékk til reynsluaksturs var með 2,8 lítra vél, en einnig má fá hann með 2,4 lítra vél. Það er nóg afl í 2,8 l vélinni og viðbragðið ágætt en ekki yfirdrifið, svo sennilega væri 2,4 l mjög á mörkunum, svona upp á stemminguna. Hann var með sex gíra sjálfskiptingu, sem er ágæt, eins og sést á því að hún er ekki nema 12,8 sekúndur upp í hundraðið, sem er fínt á svona trukki. Skiptingin tekur alveg sinn tíma, en það er ekki vandamál á svona bíl. Það lætur svolítið í vélinni, sem fólk kann misvel við eftir smekk, og það heyrist vel að þetta er vinnutæki, ekki fjórhjóladrifinn sportbíll.

Sem fyrr segir tekur pallurinn meira en tonn áður en það fer að reyna á bílinn. Í reynsluakstrinum var raunar ekki reynt á nema um helminginn af þeirri vigt, og það hafði engin áhrif önnur en að bæta aksturseiginleikana eilítið. Sömuleiðis var tveggja tonna bíll tekinn í tog og það var varla að maður fyndi fyrir því.

Fjöðrun af gamla skólanum

Efnisval í farþegarými er þannig að ætti ekki að láta …
Efnisval í farþegarými er þannig að ætti ekki að láta fljótt á sjá þrátt fyrir mikla notkun. mbl.is/Kristinn Magnússon


Það segir sig sjálft að fjöðrunin á svona pallbíl er svolítð stíf, sér í lagi á fjaðrablöðunum að aftan. Maður finnur alveg fyrir því, sérstaklega á öllum hraðahindrunum í innanbæjarakstri og hann hossast duglega utan vega eða á mjög holóttum vegum. Sem er bara eins og pallbílar eru. Það finnst miklu síður ef pallurinn er hlaðinn.

Hins vegar er Hiluxinn ekki gerður til þess að taka krappar beygjur í innanbæjarakstri og hringtorg eru ekki vinir hans. Það veldur svo sem engum vandræðum, en rétt að hafa í huga að draga vel úr hraðanum fyrst.

Styrkur Hilux er þó ekki síst sá, að hann þarf eiginlega ekki vegi frekar en vill. Hann er á heimavelli á moldartroðningum, fer létt með brattar brekkur og skörp börð, möl og grjót eru engin fyrirstaða og það er hátt undir hann, sem kemur í góðar þarfir, bæði utan vega eða yfir ár. Þar kemur svo í góðar þarfir að geta breytt drifinu eftir þörfum, í háa eða lága, mismunadrifslæsingu og svo framvegis. Annars er mesta furða hvað maður kemst á tveggja hjóla drifinu, það er ekki margt sem stöðvar þennan bíl.

Það væsir ekki um fólk fram í, en það er …
Það væsir ekki um fólk fram í, en það er ögn þrengra um lappir í aftursætunum. mbl.is/Kristinn Magnússon


Notagildið í fyrirrúmi

Þegar stigið er upp í bílinn (hann er nógu hár til þess að bæði stigbrettið og handfangið innan á póstinum koma í góðar þarfir) blasir við nútímalegri innrétting en menn hafa átt að venjast í Hilux. Eða svona við fyrstu sýn. Þar munar mestu um skjáinn og eilítið meiri ljósadýrð í hnöppum og mælaborði, auk þess sem það skín í málm á stýri og gírskiptingu. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að innréttingin er ekki óþarflega sparileg, þetta er allt níðsterkt plast, enn sem fyrr gert til þess að bíllinn standist harkalega umgengni, að ekki sé sagt áníðslu.

Skjárinn sjálfur er bara svona og svona og hugbúnaðurinn nánast gamaldags. Til allrar hamingju er bæði hægt að nota Apple CarPlay og Android Auto með honum, sem er mjög til bóta. Það verður seint nægilega hamrað á því að Hiluxinn er vinnubíll og það má sjá á rafmagnsúttökunum í honum, tvö 12v tengi og ein 220v innstunga. En hefði það drepið Toyota að bæta við USB-tengjum? Aðeins eitt slíkt er mjög nískulegt.

Rúmgóður og þröngur

Toyota kreistir meira afl úr Hilux-vélinni en áður, en það …
Toyota kreistir meira afl úr Hilux-vélinni en áður, en það er líka ný vélarblokk, pakkningar, útblástursgreinar og fleira sem hjálpa til.


Það fer vel um ökumann og farþega í hásætunum fram í, þetta er hár bíll og útsýnið gott fram á við og til hliðanna, en síður aftan við bílinn, svo þar kemur bakkmyndavél í góðar þarfir. Það er nóg pláss fram í, líka geymslupláss, hólf fyrir símann og bollahaldarar fyrir fjögurra bolla koffeinsjúklinga. Mjög þægilegt bara, jafnvel fyrir fólk í stærri kantinum

Það er ekki alveg sama sagan aftur í. Það er ekkert mál fyrir krakka að sitja þar, en fullorðnir myndu síður vilja vera þar í lengri ferðum. Þar er það fótarýmið, sem er í þrengsta lagi, en hins vegar er ekkert að lofthæðinni. Það er ekki þannig að menn kúldrist beinlínis aftur í, en fyrir fullorðna er það ekki nema til skemmri ferða.

Vel þess virði


Líkt og áður var nefnt er talsvert meira úrval af pallbílum en áður og við þeirri samkeppni er Toyota að bregðast, án þess þó að Hiluxinn hætti að vera Hilux. Það hefur tekist um allt það sem máli skiptir. Hann er ekki fínlegur en hann er verklegur, það má finna rennilegri pallbíla en tæplega raunbetri.

Hilux er ekki heldur ódýrasti pallbíllinn á markaði og það má finna aðra ríkulegar búna af staðalbúnaði. En þegar horft er til þess hvað Toyota Hilux endist og endist, ódrepandi alveg, þá er verðið alls ekki dónalegt. Fyrir þá sem vilja alvörupallbíl til þess að hafa til taks er Hiluxinn fyrirtak, en vanti menn vinnubíl, sem bjóða má hvað sem er, árum og jafnvel áratugum saman, þá standast fáir Toyota Hilux snúning.

Toyota Hilux 2021

» Vél: 2,8 lítrar

» Afl: 204 hestöfl

» Hröðun: 12,8 sek 100/km

» Hámarkshraði:

170 km/klst.

» CO2 losun: 186 g/km

(blandaður akstur)

» Eyðsla í blönduðum akstri

(l/100 km) 9,3 l

» Eigin þyngd: 2.335 kg

» Pallrými: 1.127 lítrar

» Umboð: Toyota á Íslandi

» Verð (2,4 l vél): frá 7.090.000 kr.

» Verð (2,8 l vél): frá 8.860.000 kr.

» Verð á reynsluakstursbíl: 11.445.909 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »