Afturhallandi eðalsportjeppi

Bíllinn er búinn þægilegum rafdrifnum leðursætum. Væsir hvorki um ökumann …
Bíllinn er búinn þægilegum rafdrifnum leðursætum. Væsir hvorki um ökumann néfarþega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég hef um árabil dáðst að þessum stóru hefðbundnu Range Rover-jeppum úr fjarska, fundist þeir í senn glæsilegir og praktískir á velli og eitthvað svo valdsmannslegir. Líklega er ég veikari fyrir borgarjeppum en fjallajeppum.

En svo eru til minni Range Roverar eins og Range Rover Evoque sem ég fékk að prófa á dögunum, snaggaralegri í laginu og sportlegri útlits.

Evoque er núna í fyrsta skipti í boði í tengiltvinnútgáfu sem ætti að höfða til stoltra Range Rover-eigenda. Þeir gætu, með því að skipta yfir í þennan nýja bíl, náð eldsneytiseyðslunni niður í allt að 1,7 lítra á hundraðið, samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Það verður enginn svikinn af því að spana á Range Rover Evoque um borg og bæ. Ég gerði reyndar gott betur þann skamma tíma sem ég fékk að hafa bílinn til umráða og brunaði í átt að Helgafellinu í leit að malarvegi við hæfi. Mig langaði til að setja bílinn í lausamalarstillinguna og leyfa dempurunum að spreyta sig á vel holóttum vegi. Ég lét það þó vera að klífa Helgafellið sjálft á bílnum. Það hefði líklega verið of mikið af því góða.

Ávöl en köntuð

Skottið er ekki mjög stórt en hægt er að stækka …
Skottið er ekki mjög stórt en hægt er að stækka það með því að leggja niður sætin. Kristinn Magnússon


Bíllinn er sannkallað augnayndi að utan sem innan. Ytra byrðið er sportlegt eins og fyrr sagði, eilítið afturhallandi en bifreiðin er ávöl allan hringinn á sama hátt og hún er með kantað yfirbragð. 20 tommu dekk fara henni bráðvel.

Þegar maður opnar bílinn með fjarstýringunni spretta hurðarhúnarnir út úr bílnum og er það vel, þó mér finnist það reyndar aðeins úr takti við útlit bílsins að hafa þá standandi svona bísperrta út úr hurðunum, og brjóta þannig upp fallega lögun bifreiðarinnar. Aðgengið er lyklalaust að sjálfsögðu eins og sæmir nýjum bíl í þessum verðflokki og inni dugar að ýta á takka til að ræsa og slökkva á vélinni.

Með fulla Bónuspoka í fanginu er léttir að geta ýtt á takka á fjarstýringunni til að opna skotthlerann og loka honum svo aftur með þartilgerðum takka. Skottið er ekki stórt, mun minna en á mörgum jepplingum í sama stærðarflokki. En ef í harðbakkann slær og golfsett, stórar ferðatöskur eða barnavagn er með í för er alltaf hægt að fella niður aftursætin til að auka geymsluplássið.

Í skottinu eru tvær litlar hirslur fyrir lausamuni. Önnur á bak við net og svo er teygja á vinstri hliðinni sem hægt er að smeygja dóti á bak við. Einnig eru litlir innfellanlegir hankar á báðum hliðum. Það er merki um lúxus að geta fellt inn hanka í skotti.

Pláss fyrir þrjá netta

Ávalar línur einkenna ytra byrðið.
Ávalar línur einkenna ytra byrðið. mbl.is/Kristinn Magnússon


Vel fer um fullorðna farþega í aftursætinu, jafnvel þrjá netta. Fótarými er gott og höfuðpláss sömuleiðis. Ekki sá ég nein USB-tengi fyrir aftursætisfarþegana en hægt er að seilast ofan í hólfið á milli framsæta í þeim tilgangi og stelast til að stinga þar í samband. Hólfið er vel að merkja skemmtilega hannað. Í fyrstu velti ég fyrir mér af hverju það væri tvískipt, þ.e. með tveimur lokum en ekki einu. Ég áttaði mig svo á því að það getur truflað bílstjórann í akstri ef farþeginn reynir að lyfta lokinu. Með því að hafa það tvískipt getur ökumaður áfram hvílt olnbogann á hólflokinu sín megin, en farþeginn gramsað í geymslunni í gegnum opið sem að honum snýr.

Niðurfellanleg brík með plássi fyrir tvo drykki er í miðjunni aftur í.

Hiti í stýri er að sjálfsögðu staðalbúnaður í lúxuskerru eins og Evoque og enn meiri munaður er að hafa takkann sem kveikir á ylnum staðsettan í stýrinu sjálfu.

Bíllinn svínliggur á veginum, það er nánast sama hvað maður reynir; alltaf skilar hann sér út úr beygjunum á öllum hjólunum fjórum. Á malbiki sem og á holóttum vegi var veghljóð ekki mikið og fjöðrun í fínu lagi.

Stórir og góðir upplýsingaskjáir

Stjórnklefinn er einfaldur og smekklegur með þremur upplýsingaskjám sem eru …
Stjórnklefinn er einfaldur og smekklegur með þremur upplýsingaskjám sem eru bæði aðgengilegir og auðveldir í meðförum. mbl.is/Kristinn Magnússon


Það er eðalskerpa og góð stærð á upplýsingaskjám bílsins og ýmsar skemmtilegar útfærslur þar á ferðinni. Til dæmis er hægt að nota sömu takkana til að stjórna miðstöðinni og sætunum, aðeins með því að þrýsta þeim niður. Einnig er hægt að stjórna nákvæmlega því sama í upplýsingaskjánum rétt fyrir framan. Margs konar ökustillingar eru í boði, allt eftir því hvaða aðstæðum ekið er í. Ertu í hálku, lausamöl, viltu vera umhverfisvænn með eco-stillingunni eða láta bílinn bara ákveða þetta sjálfan í sjálfvirku stillingunni?

Pláss er fyrir bæði stóran bolla og lítinn milli sæta frammi í og einnig er hægt að lauma gosflösku í hólf í hurðum. Myndavélar eru að sjálfsögðu allan hringinn og nokkuð bjartar og fínar. Þær gefa bæði mynd af umhverfi framan og aftan við bílinn og einnig sýna þær bílinn í heild sinni í þrívídd og afstöðu hans á planinu.

Þéttur bassahljómur

Rafdrægi bílsins er 54 km og meðaleyðsla 1,7 lítrar á …
Rafdrægi bílsins er 54 km og meðaleyðsla 1,7 lítrar á hundraðið. Hann er 6,1 sek. að ná hundrað kílómetra hraða á klukkustund. mbl.is/Kristinn Magnússon


Hljóðkerfið gaf góðan og þéttan bassahljóm og sætin eru rafdrifin. Miðrýmið frammi í er mjög laglegt og smekklegt, sætin eru úr leðri og innréttingin með fínlega mynsturáferð.

Útsýni aftur úr bílnum er aðeins takmarkað af því hvað afturglugginn er lítill, en það pirraði mig ekki neitt sérstaklega. Þessi bíll er meira en þrjú hundruð hestöfl og er það vel ásættanlegt. Verðið er frá 8.890 þúsund krónum. Ég læt það nú vera.

Ökutækið er sagt draga allt að 54 kílómetra á rafmagninu einu saman. Þeir sem vilja ná enn lengra með þessum aflgjafa þurfa líklega að bíða eftir hreinum rafmagnsbíl frá framleiðandanum, eða leita annað.

Range Rover Evoque S PHEV

» 1,5l bensín/rafmagn tengiltvinn

» 8 gíra sjálfskiptur

» Drif á öllum hjólum

» 200 hestöfl á bensínvél, 100 hestöfl á rafmagni. Samtals 300 hestöfl skráð.

» 0-100 km/klst. á 6,1 sek.

» CO2 losun 44 g/km

» Rafdrægni 54 km

» Eigin þyngd 2.117 kg

» Stærð farangursrýmis 472 til 1.383 l

» Umboð: BL ehf.

» Grunnverð 8.890.000 kr.

» Verð eins og prófaður 9.890.000 kr.

Range Rover Evoque er frábær í borgarumferðinni,en hann má einnig …
Range Rover Evoque er frábær í borgarumferðinni,en hann má einnig nota við erfiðari aðstæður. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »