Rauðu ljósin verða einfaldlega skemmtilegri

Að aftan er vindskeið sem stillist sjálf í samræmi við …
Að aftan er vindskeið sem stillist sjálf í samræmi við það hvernig bílnum er ekið. Hestöflin láta finna fyrir sér. Árni Sæberg

Um eitt og hálft ár er nú liðið frá því þýski bílaframleiðandinn Audi sendi frá sér rafbíl undir heitinu e-tron GT, en um er að ræða nokkurs konar systurbíl Taycan-bílsins frá Porsche. Bifreiðin nýtur einnig þess heiðurs að vera sú fyrsta rafknúna frá Audi til að vera framleidd í heimalandinu, nánar tiltekið í Heilbronn í Baden-Württemberg. Enda varð það ljóst um leið og blaðamaður gaf honum inn í fyrsta sinn að þýsku hraðbrautirnar eru heimavöllur þessa ökutækis. En hvernig stendur hann sig á útivelli?

Fyrst ber að nefna það sem fyrst kemur í hugann, þegar maður nálgast bílinn og býr sig undir aksturinn. E-tron GT er gullfallegur að sjá, en lögulegar línurnar gefa á sama tíma til kynna að hér sé á ferðinni kraftmikill gæðingur. Á hliðum bílsins eru loftop til að minnka loftmótstöðu og að aftan er vindskeið sem stillist sjálf í samræmi við það hvernig bílnum er ekið.

Að innanverðu er hönnunin engu síðri. Framsætin eru þægileg og veita góðan stuðning, auk þess að vera rafstýrð, og því mjög auðvelt að láta vel fyrir sér fara. Sú ákvörðun virðist einnig hafa verið tekin að fela ekki allar mögulegar stillingar inni í risavöxnum flatskjá, heldur eru alvöru takkar til að stýra flestu því sem maður vill breyta í flýti. Í stýrinu má finna góða stjórntakka fyrir útvarpið en einnig á sleðanum á milli framsætanna, í litlu hjóli sem hefur að geyma nokkra takka auk skruns til að stilla hljóðið.

Skjáirnir eru að sjálfsögðu einnig til staðar, annars vegar fyrir miðju og hins vegar á bak við stýrið, þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar eru auðsjáanlegar og aðgengilegar.

Að aka bílnum um gatnakerfi Reykjavíkur er eins og að …
Að aka bílnum um gatnakerfi Reykjavíkur er eins og að mæta með hundinn sinn ólarlausan í troðfullan garð, þar sem hundar mega aðeins vera í bandi. Hraðbrautirnar eru heimavöllurinn. Árni Sæberg

Engin innilokunarkennd

Stýrikerfið sjálft er þægilegt en býður einnig upp á tengingu í gegnum Android Auto og Apple Carplay, og í það minnsta er Apple-tengingin þráðlaus að fenginni reynslu blaðamanns, eins og í mörgum nýjum bílum um þessar mundir. Fjórar USB-C-tengingar eru auk þess sjáanlegar, þar af tvær ofan í hólfi í sleðanum og tvær undir aftursætum.

Glerþak sem þekur nánast allt þak bílsins er staðalbúnaður. Fyrir þá sem frammi í sitja breytir það ekki miklu en aftur í er munurinn mikill. Því þó plássið sé ágætt í aftursætunum, og þá sérstaklega fyrir fætur, þá er bíllinn engu að síður sportlega byggður og innilokunarkennd gæti vel gert vart við sig ef ekki væri fyrir glerþakið. Litlar afturrúður eiga þar einnig hlut að máli.

Val er um leður eða leðurlíkisáklæði á sætum – möguleiki sem virðist njóta sífellt aukinna vinsælda. Leðurlíki prýðir enn fremur efri og neðri hluta mælaborðsins og kemur útfærslan smekklega út.

Fjórar sekúndur í lögbrot

Jæja, tökum af stað.

Hestöflin, 469 talsins, láta svo sannarlega finna fyrir sér. Fjórhjóladrifnar fjórar sekúndur líða og maður er kominn upp í hundraðið. Hvers konar bíl hefði maður þurft að kaupa fyrir tveimur áratugum, til að ná sömu hröðun, er spurning sem vaknar um leið. Framtíðin er núna, það er ljóst, og hún er ekki alslæm.

En hestöflin eru í raun fleiri. Noti maður svokallaða boost-stillingu fjölgar þeim tímabundið, eða alla leið upp í 522. Sem útskýrir meðal annars af hverju það tekur aðeins fjórar sekúndur að brjóta umferðarlögin íslensku. Rafmótorar eru á hvorum öxli um sig og hafa tvo gíra, annars vegar til að gefa bílnum mestu mögulegu hröðun þegar tekið er af stað og svo aftur þegar maður er kominn á meiri hraða en vill samt gefa honum vel inn.

Að aka þessum bíl um gatnakerfi Reykjavíkur er eins og að mæta með hundinn sinn ólarlausan í troðfullan garð, þar sem hundar mega þó aðeins vera í bandi. Meira að segja þegar maður passar sig að gefa honum bara venjulega inn, eftir að rautt ljós víkur fyrir grænu, þá lítur maður aftur fyrir sig að þremur sekúndum liðnum og öll hersingin er óravegu í burtu að því er virðist. Það er því eins með e-tron GT og aðra kröftuga rafbíla, að rauðu ljósin verða einfaldlega skemmtilegri en áður og jafnvel eftirsóknarverð, ef þannig liggur á manni.

Að innan er hönnunin engu síðri. Framsætin rafstýrð og þægileg …
Að innan er hönnunin engu síðri. Framsætin rafstýrð og þægileg og veita ökumanni og farþega góðan stuðning. Árni Sæberg

Á trylltan tvíbura

Og eins og maður finnur mikið fyrir hröðuninni þá finnur maður ósköp lítið fyrir hraðanum sjálfum, þegar góðri tölu hefur verið náð. Bíllinn er enda byggður á sama grunni og Porsche Taycan, eins og fyrr sagði, en sá grunnur nefnist J1. Raunar eru bílarnir að nærri hálfu leyti sami bíllinn, en 40% hluta þeirra eru þeir sömu að því er fram hefur komið í umfjöllun þýska bílablaðsins Autobild.

Þó e-tron GT hafi ekki farið á almennan markað fyrr en á síðasta ári þá hafði hann komið fyrir sjónir almennings töluvert fyrr, eða í myndinni Avengers: Endgame sem kom út árið 2019, þegar uppfinningamaðurinn Tony Stark ók honum í hlað höfuðstöðva sjálfskipaða löggæsluliðsins. Að viðbættum vélarhljóðum að vísu, sem ekki fer fyrir í raunheimum okkar hinna.

Nei, þvert á það sem læra má af myndinni þá er bíllinn 100% rafknúinn. Rafhlaðan er 93 kWst og er drægnin 488 kílómetrar samkvæmt hinum þekkta WLTP-staðli. Þá er fullyrt að hún nái að fara úr 5% í 80% hleðslu á einungis 22,5 mínútum. Ekki gafst tími til að láta á það reyna, en til þess þyrfti einnig hleðslustöð sem styður hámarkshleðslumöguleika bílsins, eða sem nemur 270 kW.

Hljóðkerfi frá Bang & Olufsen má fá sem aukabúnað fyrir 240 þúsund krónur, en kerfið var að finna í bílnum sem blaðamaður fékk að reyna. Er ekki hægt að bera því annað en gott vitni. Händel, Sibelius, Avicii, Deadmau5 og Run The Jewels; allt fær þetta að flæða þýðlega um dönsku hátalarana á meðan greitt er ekið áleiðis til Þingvalla, þangað sem tíu öldum fyrr bauðst mönnum aðeins eitt hestafl til leiðarinnar.

Fótaplássið er gott aftur í og glerþakið gerir mikið fyrir …
Fótaplássið er gott aftur í og glerþakið gerir mikið fyrir þá sem þar sitja. Árni Sæberg

Rafmagnað faðmlag

Bíllinn tekst vel á við krappar beygjur sem annars myndu reyna vel á aðra farkosti á sama hraða. Hann faðmar veginn á sama tíma og sætið faðmar ökumanninn, sem sjálfur fær hamingjuna í faðm sinn. Hún er þá hér, á Lyngdalsheiðinni. Hver vissi það? Kannski Kjalnesingagoðar, forðum daga.

Allar þessar hugsanir leita á mann og fá til þess nóg pláss, því ekki þarf að hafa mikið fyrir akstrinum. Framúrakstur er nokkurra sekúndna athöfn, svo eru það rólegheitin ein. Rennislétt malbik. Haustlitir trjánna verða að gulrauðri móðu. Maður yrði ekki seinn til vorþings á honum þessum.

Numið er staðar í þjóðgarðinum og bíllinn tekinn til nánari skoðunar. Afturmyndavélin er í góðri háskerpu, sem reynist vel í ljósi þess að útsýni um bakspegilinn er af skornum skammti, að minnsta kosti í gegnum afturrúðuna. Myndavélin er þó aukabúnaður og ekki gefst færi á að reyna hana í íslensku roki og rigningu, þessa heiðskíru septemberhelgi.

Undir vélarhlífinni svokölluðu er að finna 81 lítra farangursrými. Ef maður vill nota það til að hýsa hleðslukapla þá er samt sem áður ekki mikið eftir fyrir annars konar varning.

Að aftan kemur svo á óvart hvað rýmið er stórt, að minnsta kosti miðað við sportlega byggingu bílsins. Þó rúmar það ekki nema 405 lítra, sem er töluvert minna en til dæmis í Teslu Model S, en þar komast einir 744 lítrar fyrir. Að vísu má fella niður sætin, eða einungis miðjusætið, vilji maður koma meiru fyrir. En þessi bíll er ekki smíðaður fyrir fraktflutninga. Hann er gerður til að flytja fólk. Hratt. Og gerir það frábærlega.

Audi e-tron GT

» 93 kWst rafhlaða

» 350 kW aflrás

» 469/522 hestöfl

» Sjálfskiptur

» Fjórhjóladrifinn

» Drægni allt að 488 km (WLTP)

» 0-100 km á 4,1 sek

» Farangursrými: 486 lítrar

» Verð: 13.990.000 kr.

» Verð eins og prófaður: 16.700.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina