Dreginn á tálar í París

Aston Martin Vantage Roadster er einmitt rétti bíllinn fyrir borg …
Aston Martin Vantage Roadster er einmitt rétti bíllinn fyrir borg eins og París. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Fyrir franska skrifstofumenn er það töluverð kúnst að klæða sig rétt fyrir vinnudaginn. Þeir þurfa að finna hárfínt jafnvægi á milli þess að vera vel til fara en láta samt ekki of mikið á sér bera. Lágstemmdur glæsileiki er lausnarorðið.

Til samanburðar þá finnst Bretum sjálfsagt að lífga upp á jakkafötin með litríkum sokkum og teinóttum efnum á meðan Ítalir eru veikir fyrir klútum og bindum með mikinn persónuleika og klæðast jakkafötum í öllum regnbogans litum. Í Frakklandi þurfa vinnujakkafötin helst að vera dökkblá, skyrtan skjannahvít, skórnir svartir, og allt stílhreint, íhaldssamt og laust við skraut.

Það er ákveðin heimspeki á bak við franska vinnuklæðnaðinn og hún er þessi: fólk á að skera sig úr hópnum með því að hafa eitthvað fram að færa, en ekki með því að klæðast áberandi flíkum. Innihaldið á að vega þyngra en umbúðirnar.

Er þar kannski komin skýringin á því að þó svo að París sé höfuðborg tískunnar þá er borgin líka morandi í bókabúðum: Frakkinn vill bæði vera vel til fara og vera með á nótunum.

Sama viðhorf má greina á öðrum sviðum mannlífsins í Frakklandi og hef ég það t.d. fyrir satt að það þyki ekkert sérstaklega fínt að aka um París á ítölskum sportbíl. Kynþokkafullur og eldrauður Ferrari sem fær hárin til að rísa, eða fnæsandi og vígalegur Lamborghini með vænghurðir, er eitthvað sem Frökkunum finnst nær groddalegt. Þeir vilja meiri fágun, þokka og jafnvel vott af íhaldssemi.

Þar sem ég ók um París á Aston Martin Vantage Roadster fór ekki á milli mála að ég hafði valið sportbíl sem var eins og sniðinn fyrir franskan smekk. Ég hef fengið að aka alls konar draumabílum víða um heim og aldrei fengið önnur eins viðbrögð. Þessi ómótstæðilegi blæjubíll nær einhvern veginn að færa lágstemmdan glæsileika upp á efsta stig, og alls staðar fóru snjallsímarnir á loft. 

Um alla borg vakti bíllinn óskipta hrifningu vegfarenda.
Um alla borg vakti bíllinn óskipta hrifningu vegfarenda. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Allt sem prýða má einn bíl

Þar sem bílarnir frá Aston Martin eru ekki á síðum Bílablaðs Morgunblaðsins alla daga er ágætt að rifja upp breiddina í bílaúrvali þessa breska lúxusmerkis. Vantage er litli bróðirinn í fjölskyldunni: tveggja sæta, snarpur, nettur og lipur með átta strokka vél og ódýrari en miðjubróðirinn, DB11, sem er ögn stærri um sig og með tvö aftursæti sem geta rúmað smávaxna farþega.

Þá kemur DBS sem er líkur DB11 í útliti og umfangi en er þó örlítið töffaralegri og með tólf strokka vél í stíl. Loks er átta strokka sportjeppinn DBX sem kom á markað árið 2020. Fást þessir bílar, að DBX undanskildum, bæði með hart þak og blæju („Roadster“ og „Volante“), og í ýmsum sérútgáfum, en þeir kosta á bilinu 20 til 50 milljónir króna áður en búið er að bæta íslenskum sköttum ofan á verðið. Er þá eftir að nefna ofurpsortbílana Speedster, Valkyrie og Valhalla sem kosta frá einni upp í þrjár og hálfa milljón dala.

Átta strokka vélin er fengin frá Mercedes-Benz og tólf strokka vélin var þróuð í samvinnu við Ford, þegar Aston Martin var dótturfyrirtæki bandaríska bílarisans, en ný tólf strokka vél var smíðuð frá grunni innanhúss fyrir Valkyrie.

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Aston Martin lánaði Morgunblaðinu síðast bíl í ágúst 2018, þegar undirritaður tók DB11 til kostanna á götum Singapúr. Var það niðurstaðan í umsögninni um þann bíl að hann sameinaði alla bestu kosti ítalsks sportbíls og breskrar langferðadrossíu: hreinræktaður kaggi með alvöruvélarhljóð og kraftalegt útlit, en á sama tíma þægilegur í umgengni og heppilegur fyrir bæði hversdagsakstur og langa bíltúra.

Maður situr ekki svo glatt undir stýri á tólf strokka Lambó í margar klukkustundir, og fer heldur ekki út á kappakstursbrautina í 2,5 tonna Bentley. Á Aston Martin DB11 má gera hvort tveggja.

Það sama er hægt að segja um Vantage og er raunar alls ekki svo mikill munur á Vantage og DB11 hvað varðar hönnun, útlit og áferð. Vantage er um 25 cm styttri og virkar þess vegna ögn þreknari, auk þess sem framljósin á Vantage eru nettari og grillið hlutfallslega stærra svo að minnir sumpart á hvæsandi kattardýr. Allt hitt sem skilur bílana að er bara tæknilegs eðlis og ekki neitt sem hægt er að greina nema ef til vill í brautarakstri.

Á myndum hefur mér lengi þótt DB11 fallegri, en sú skoðun fór rakleiðis út um gluggann þegar ég fékk að sjá Vantage með eigin augum í fagurbláum lit. Þvílíkar útlínur!

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Blátt segulstál

Það tekur tíma að venjast því að aka í erlendum stórborgum og getur verið alveg sérstaklega taugatrekkjandi að aka um þröngar götur í þungri umferð á bíl sem kostar margföld árslaun blaðamanns. Ekki róar það taugarnar að skoða bíla heimamanna sem virðast allir meira og minna dældaðir og rispaðir.

Er þar komin skýringin á því hvers vegna mér þótti fyrstu dagarnir með bláa breska draumabílnum næstum yfirþyrmandi. Það hjálpaði að geta haft blæjuna niðri og sjá vel allt um kring, og fullkominn myndavélabúnaður og fjarlægðarskynjarar komu að góðu gagni þegar leggja þurfti í þröng stæði, en oft var ég með hjartað í buxunum og hafði ekkert sérstaklega gaman af akstrinum.

En það lagaðist. Til að nota bílinn vel bauð ég eiginmanninum í tveggja nátta ferð til Champagne, og smám saman losnaði spennan úr öxlunum: ég vandist bílnum og hann vandist mér – og ég lærði líka að venjast því hvað Frakkarnir voru rosalega hrifnir af bifreiðinni.

Þótti mér á köflum að bíllinn drægi að sér (og mér) of mikla athygli, en þeir sem þekkja mig best vita að ég er með eindæmum ófélagslyndur og hef náð miklu valdi á þeirri list að vera fráhrindandi og fitja upp á nefið ef fólk gefur sig á tal við mig þegar ég er ekki í neinu stuði.

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Þannig var það með tiltölulega virðulega konu á miðjum aldri sem gaf sig á tal við mig í bílastæðakjallara í Reims, þar sem ég hafði lagt bílnum örstutt til að skoða dómkirkjuna frægu. Hvarflar að mér að konan hafi hreinlega setið fyrir mér, því henni var svo mjög í mun að gefa sig á tal við þann sem hún hélt að væri eigandi bílsins. Sama hvað ég reyndi að vera hranalegur hélt hún áfram að bera lof á farartækið og spyrja spurninga (ég hafði gleymt því að Frakkar eru ónæmir fyrir hranalegheitum, enda hluti af þeirra daglega samskiptastíl), og þegar ég sagðist bara hafa fengið bílinn að láni ályktaði hún sem svo að ég hlyti að vinna hjá bílaframleiðandanum:

„Og hvernig fer ég að því að fá starf hjá Aston Martin?“ sagði þessi ágæta kona sem á sennilega börn og jafnvel barnabörn. „Ég væri til í að vinna við hvað sem er. Ég myndi jafnvel vinna undir skrifborðinu eins og við segjum hér í Frakklandi.“

Þeim lesendum blaðsins sem hafa hreina og óspillta sál býð ég að spyrja fólk með sóðalegri hugsunarhátt hvað Frakkar gætu mögulega átt við þegar þeir tala um að „vinna undir skrifborðinu“.

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Hrífandi þrátt fyrir minniháttar veikleika

Í bestu ástarsögunum fallast söguhetjurnar ekki í faðma strax á fyrstu síðu heldur byrjar ævintýrið með litlum neista og augngotum. Þannig var það með mig og Vantage Roadster: það tók mig nokkra daga að kolfalla fyrir þessum bíl.

Fyrst var það streitan í Parísarumferðinni – þó svo að Vantage sé sá nettasti í Aston Martin-fjölskyldunni er hann enginn smábíll og passar ekki svo glatt í frönsk bílastæði. Þá fannst mér eins og það kæmi aðeins of mikið veghljóð inn í bílinn og að hljómkerfið mætti vera betra (það má uppfæra í græjur frá Bang & Olufsen). Mér þótti skottið aðeins of smátt og leiðsögukerfið óþjált (það má fá Android Auto sem aukabúnað, en til að nota Apple Carplay þarf uppfærslu frá þriðja aðila), og á hraðbrautunum hefði mér þótt afskaplega gott að hafa sjálfvirka gangstýringu (e. ACC) sem Aston Martin býður hreinlega ekki upp á.

En svo helltust töfrarnir skyndilega yfir mig, og ég veit ekki alveg hvað það var sem gerðist. Ég hafði skotist út að Versalahöll til að verja aðeins meiri tíma með bílnum og kannski ná nokkrum góðum myndum. Sólin skein í heiði og bakaði á mér útstæð eyrun þar sem ég ók með blæjuna niðri – rólegur, glaður, og frjáls á rúntinum í úthverfi Parísar.

Allt í einu var eins og litlu gallarnir gerðu bílinn bara meira sjarmerandi – líkt og gerist þegar maður verður bálskotinn. Fyrir tilviljun byrjaði smellur spænska diskó-tvíeykisins Baccara að óma úr hátölurunum á hárréttu augnabliki og minnti mig á að ég þurfti bara að sleppa aðeins fram af mér beislinu: 

Mister

Your eyes are full of hesitation

Sure makes me wonder

If you know what you're looking for

Ég veit ekki hvað fólkið í hinum bílunum á hraðbrautinni á leiðinni heim til Parísar hefur haldið um þennan fertuga mann á harðaferð á bláum blæjubíl og fagurbleik eyru, brosandi allan hringinn.

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Aston Martin Vantage Roadster

» 4.0 l V8 Mercedes-AMG M177 vél með forþjöppu

» 510 hö – 685 Nm

» Afturhjóladrifinn

» 0-100 km/klst á 3,8 sek

» Hámarkshraði: 306 km/klst

» 11,6 l/100 km í blönduðum akstri

» Koltvísýringslosun: 263 g/km

» Eigin þyngd: 1.628 kg

» Farangursrými: 300 l

» Áætlað grunnverð 43.500.000 kr.

mbl.is/Ásgeir Ingvarsson
mbl.is/Ásgeir Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: