Ég berst á fáki fráum

Bílinn er vel skóaður á 19 tommu álfelgum og tekur …
Bílinn er vel skóaður á 19 tommu álfelgum og tekur sig vel út í vetrarbirtunni. Hákon Pálsson

Fyrsta ljóðlínan í Spretti eftir Hannes Hafstein, „Ég berst á fáki fráum fram um veg“, spratt fram í huga mér þegar ég settist á bak við stýrið á rafmagnsbílnum Ford Mustang Mach-E uppi í Brimborg á dögunum. Það var ekki úr lausu lofti gripið því Mustang er eitt þekktasta „hestavörumerkið” í bílabransanum. Ekki einungis er bíllinn með hina ferfættu fótfráu skepnu í merki sínu, heldur heitir hann eftir Mustang-villihestinum sem þykir úthaldsgóður, kvikur og léttur á fæti.

Það sem Ford Mustang hefur einkum sér til ágætis er að hann er alrafmagnaður og einkar sprækur, rétt eins og nafni hans. Auk þess er hann mjúkur í öllum hreyfingum og maður situr vel í hnakknum, svo við höldum okkur áfram við það líkingamál. Þá skila hestöflin 351 undir húddinu manni á leifturhraða upp í eitt hundrað kílómetra hraða á klukkustund, jafnvel skjótar en í hefðbundnum jarðefnaeldsneytis-kraftakagga frá sama framleiðanda.

Þegar samið var um aðkomu mína að þessum skrifum var hugmyndin sú að ég færi með bílinn út að leika í vetrarófærð enda hefur tíðin verið óvenjuerfið að undanförnu. Frostið hefur bitið fast og endað ítrekað í tveggja stafa tölu. Örstutt hlé varð þó á harðindunum einmitt þann dag sem ég fékk bílinn til umráða. Því varð þessi vetrarakstur kannski ekki jafnkrefjandi og stofnað var til.

Ég leysti það með því að leita að sköflum og ófærum bílastæðum í borgarlandslaginu og gekk það ágætlega. Sá akstur skilaði frábærum árangri. Ég festi mig hvergi og bíllinn spanaði og spændi í gegnum alla troðninga.

Ford Mustang Mach-E er alrafmagnaður sportjeppi sem gaman er að …
Ford Mustang Mach-E er alrafmagnaður sportjeppi sem gaman er að keyra. Hákon Pálsson

Fótviss í hálkunni

Síðari daginn sem ég var með bílinn var aðeins farið að frysta á ný. Þá tóku ABS-bremsurnar vel við sér þegar ég hemlaði af krafti. Bílinn átti ekki í neinum vandræðum með þær kringumstæður. Mustanginn var fótviss eins og villihestar jafnan eru og fljótur að laga sig að hverjum þeim þrautum sem lagðar voru fyrir hann.

Innréttingin í bílnum er til fyrirmyndar. Leðurklædd sæti með rauðum saum eru bæði þægileg og gæjaleg í senn. Nægt höfuðrými var fyrir meðalmanninn bæði frammi í og aftur í og notalegt var að horfa til himins í gegnum glerþak bílsins sem teygir sig yfir allt innra rýmið.

Að stíga inn og út úr bílnum olli engum vandræðum, enda flokkast bíllinn sem sportjeppi og því aðeins hærra frá götu en ella. Akstursstillingarnar þrjár prófaði ég samviskusamlega, en verð að viðurkenna að ég fann ekki fyrir neinum rosalega miklum mun á þeim. Hann var sprækur og fjörugur í þeim öllum. Akstursstillingarnar heita Active, Whisper og Untamed og er þeim lýst samviskusamlega í upplýsingaefni bílsins. Til dæmis er lýsingin á Whisper, eða Hvísli, hnökralaus akstur, stilltur og hljóðlátur (e. Seamless Drive, calm and quiet).

Skjárinn er stór og veglegur með snúningstakka fyrir útvarp. Þá …
Skjárinn er stór og veglegur með snúningstakka fyrir útvarp. Þá er hægt að búa til listaverk á skjánum. Hákon Pálsson

Takkar og tvísmellir

Þegar bílar eins og þessir eru teknir til kostanna reynir maður jafnan að gefa smáatriðum sérstakan gaum, jafnvel þeim allra smæstu eins og hvernig maður stjórnar rúðuþurrkunni að aftan. Sú stjórnun fer fram í agnarlitlum takka á þurrkusveifinni hægra megin við stýrið, og maður spyr sig: þarf hún nokkuð að vera stærri?

Ég hef aldrei séð útfærslu á opnun eins og þá sem er á þessum bíl. Til að ökutækið ljúkist upp er einungis ýtt á lítinn upplýstan takka við rúðuna og þar fyrir neðan er smágert handfang sem hægt er að grípa í. Aftursætisfarþegar fá þó enga höldu, bara takka.

Ég var í smá tíma að átta mig á því hvernig ég opnaði skottið og húddið, en það var þá bara gamli góði tvísmellurinn sem virkaði. Skottið er ekki stórt í þessum bíl en það hefur að geyma tvo hanka fyrir innkaupapoka, hleðslusnúrur og fleiri nauðsynlega hluti. Hægt er að fella aftursætin niður í tveimur hlutum og þannig fæst meira pláss fyrir flutninga.

Ég get ekki lokið þessum skrifum nema minnast á það sem maður tók kannski fyrst eftir þegar sest var inn í bílinn: risastóran aðgerðaskjá, einar 15,5 tommur, mitt á milli framsætanna. Þar er hægt er að stjórna öllu því helsta í bílnum, ekki ósvipað og menn eiga að venjast í Teslum. Framleiðendur hafa þó ekki getað stillt sig um að hafa snúningstakka neðst í skjánum til að hækka og lækka í útvarpinu.

Það er gaman að segja frá því að boðið er upp á skissuhugbúnað í skjánum þar sem hægt er að teikna myndir og lita, rétt eins í tölvunni heima. Ekki tókst mér þó að vista listaverkið sem ég vann, þar sem ég fann ekki rétta takkann.

Lítill skjár er í mælaborðinu bak við stýrið, 10,2 tommur, og útvegaði hann ýmsar góðar upplýsingar á ferð, eins og um hraða, veður og fleira notadrjúgt.

Skottið á bílnum er ekki stórt en auðvelt er að …
Skottið á bílnum er ekki stórt en auðvelt er að leggja niður aftursætin til að auka flutningsrýmið. Hákon Pálsson

Flest komið í skjáinn

Um stjórntækin almennt vil ég hrósa því að búið er að koma þeim flestum fyrir í skjánum góða og stóra, en gírskiptingin er í mjög einföldum snúningstakka í miðjunni milli sætanna, sem auðvelt var að stjórna.

Eitt sem ég vil nöldra yfir er að útvarpsstjórnun í stýri sé hægra megin. Það er frekar óhentugt því oftar en ekki hefur maður vinstri hönd á stýri en hvílir þá hægri á fóðruðum armi milli sæta. Þegar þessu er svona komið fyrir þarf maður að lyfta hægri hendinni og setja hana á stýrið eða teygja sig í skjáinn til að skipta um stöð.

Útsýni úr bílnum er viðunandi og það er einnig vert að minnast á að í þessum bíl þarf maður varla að stíga á bremsuna. Hann býr yfir svokölluðu „One Pedal Drive“ sem þýðir að mikið dregur úr hraðanum þegar „bensínfætinum“ er lyft. Þarna er bílinn auðvitað að hámarka rafmagnsframleiðslu sína og þegar bremsað er af krafti kemur enn meiri orka inn á batteríið. Það er skilmerkilega útlistað í hvert sinn á skjánum í mælaborðinu.

Ég get hæglega mælt með þessum bíl og myndi klárlega vilja eiga hann sjálfur.

Það er við hæfi að enda þetta á öðru erindi Spretts sem hljómar svona og á vel við bílinn: „Það er sem fjöllin fljúgi móti mér, sem kólfur loftið kljúfi klárinn fer, og lund mín er svo létt, eins og gæti ég gjörvallt lífið geisað fram í einum sprett.“

Í mælaborði má fylgjast með hraða, hitastigi, rafmagnshleðslu og fleiru …
Í mælaborði má fylgjast með hraða, hitastigi, rafmagnshleðslu og fleiru gagnlegu. Hákon Pálsson

Ford Mustang Mach-E

99 kWh drifrafhlaða

351 hestöfl/580 Nm

Sjálfskipting

0-100 km/klst.: 5,1 sek

Hámarkshraði: 180 km/klst

Drif: AWD

19" álfelgur / Eigin þyngd: 2280

Farangursrými: 402l + 100l að framan

Mengunargildi: 0 g/km

Orkunotkun per 100km: 19,7 kWst

Umboð: Brimborg

Verð frá 10.590.000 kr

Greinin birtist upphaflega í Bílablaði Morgunblaðsins 7. janúar.

Afturljósin eru skemmtileg í laginu.
Afturljósin eru skemmtileg í laginu. Hákon Pálsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: