Átta af 10 bílum í Evrópu með rangan loftþrýsting

Það varðar umferðaröryggi að hafa réttan þrýsting í dekkjum.
Það varðar umferðaröryggi að hafa réttan þrýsting í dekkjum. mbl.is/Árni Sæberg

Nýleg evrópsk rannsókn leiðir í ljós, að í átta af hverjum tíu bílum í Evrópu er rangur loftþrýstingur í dekkjum. Í Svíþjóð reyndust tveir bílstjórar af þremur ekki hafa hugmynd um hvenær þeir létu athuga þrýstinginn síðast.

Talsmaður samtaka norskra bíleigenda segir að Norðmenn séu síst skárri en Svíar. „Við þyrftum eiginlega að athuga dekkjaþrýsting einu sinni í mánuði því hann fjarar smám saman út.“ Það sé í þágu umferðaröryggis, buddunnar og vistkerfisins að það sé gert.

Veggripið verður öðruvísi

Sé þrýstingur í dekkjum rangur leggjast þau ekki rétt við malbikið og þar með er veggripið öðruvísi en vera skyldi, ekki hið ákjósanlegasta. Sé loftið of lítið verður bíllinn reikull í spori og vaggandi og svörun hans við stýrisbreytingum sein í beygjum. Sömuleiðis dregur úr akstursþægindum. Og mikið loft í dekkjum hefur einnig áhrif á ferðaþægindin.

Þá eykst mótstaða dekkjanna sé þrýstingur of lágur. Þar með slitna þau mun hraðar, sem bitnar á pyngju bíleigandans. Dekk eru hvorki ódýr né framleiðsla þeirra vistvæn. Því er það í þágu afkomu bíleigandans og náttúrunnar að reglulega sé fylgst með því að loftþrýstingur sé réttur í dekkjum bíla, jafnt stórra sem smárra.

Fróðir menn hafa reiknað út, að bíleigandi muni spara sem svarar 8.000 íslenskum krónum í bensínkaup á ári sé ætíð réttur loftþrýstingur í dekkjum bílsins í akstri. Við bætist sparnaður af því að dekkin endast lengur.

Mikilvægt er að loftþrýstingur sé mældur þegar dekkin eru köld. Sé þrýstingur leiðréttur með því að dæla lofti í heitt dekk þá verður hann í raun áfram of lítill því heit dekk valda því að loftið þenst út í þeim og veldur þar með auknum þrýstingi.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: