Hætta að smíða Punto

Punto hefur verið tekinn úr framleiðslu.
Punto hefur verið tekinn úr framleiðslu.

Einn af táknrænustu bílum Fiat hverfur senn af vegum því framleiðslu hans hefur verið hætt.

Hér er um aðp ræða Fiat Punto sem verið hefur í sölu í 13 ár. Ólíklegt er talið að boðið verði upp á arftaka í sama stærðarflokki, þar sem rými í bílsmiðjunni í Melfi á Ítalíu verður í staðinn notað til að framleiða nýjan Maserati lúxusjeppa.

Nú á lokasprettinum í framleiðslu hlotnaðist Fiat Punto hinn vafasami heiður að  fá enga stjörnu í árekstrarprófum öryggisstofnunarinnar Euro NCAP.
 
Síðasta kynslóðin af Punto var sú þriðja, en bíllinn kom fyrst á götuna 2005 sem Grande Punto. Fékk hann andlitslyftingu og uppfærslur árið 2009 og var upp frá því nefndur Punto Evo. Tók svo upphaflega Punto-nafnið við með annarri uppfærslu bílsins 2012.

Við brotthvarf Punto mun Fiat leggja aukna áherslu á sölu 500-bílanna og bæta við hana rafbíl 500e. Þá bætist 500 Giardinera langbakur við er ný kynslóð verður kynnt á næsta ári, 2019.

Hermt er að Panda muni senn fá nýjan arftaka. Tipo og 124 Spider munu áfram verða í boði.

mbl.is