Spenntir fyrir fyrsta rafbíl Porsche

Porsche Taycan verður frumsýndur í september.
Porsche Taycan verður frumsýndur í september.

Fyrsti hreini rafbíll Porsche, Porsche Taycan, nýtur töluverðrar athygli á heimsvísu. Bíllinn mun ekki verða sýndur almenningi fyrr en í september og endanlegt útlit hans er ennþá ekki þekkt.

„Engu að síður hafa yfir 20.000 manns, allsstaðar að úr heiminum, sýnt kaupum á honum mjög mikinn áhuga eins og bílsmiðurinn staðfesti á alþjóðlegu bílasýningunni í Genf. Það er sá fjöldi sem nú þegar hefur staðfest áhuga sinn á kaupum á bílnum með greiðslu 2.500 evra staðfestingargreiðslu í Evrópu,“ segir í tilkynningu.

Porsche Taycan mun verða frumsýndur í september og er áætlað að afhending fyrstu bíla fari fram fyrir árslok. Hröðun bílsins úr kyrrstöðu í hundraðið mun taka þónokkuð skemmri tíma en 3,5 sekúndur og drægið verður um og yfir 500 kílómetrar, samkvæmt NEDC staðlinum. Auk þess verður mögulegt að ná fram 100 kílómetra hleðslu á einungis fjórum mínútum.

„Stórkostlegur áhugi á Taycan sýnir okkur að viðskiptavinir okkar og aðdáendur eru jafn yfirmáta spenntir fyrir fyrstu rafmögnuðu afurð Porsche og við – og af þeim sökum höfum við aukið við framleiðslugetuna,“ staðfestir Detlev von Platen hjá Porsche. „Taycan mun verða sportlegasti og tæknilegasti bill sinnar tegundar – sannur Porsche.“

mbl.is