Vistvænir bílar meirhluti sölunnar

Bílasala til einstaklinga það sem af er ári hefur aukist …
Bílasala til einstaklinga það sem af er ári hefur aukist um 1,0% miðað við sama tímabil í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Vistvænir bílar halda áfram að auka hlutdeild sína af heildarsölunni hér á landi og hafa þeir verið yfir helmingur sölunnar frá áramótum, eða 51,1% af sölu allra fólksbíla.

Hreinir rafmagnsbílar tróna þar á toppnum með 19,6% hlutfall og þar á eftir eru tengiltvinnbílar með 17,2% hlutdeild, hybrid bílar með 13,3% og metanbílar með 0,9%, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu (BGS).

„Það er því ljóst að þessar tegundir bíla eru að sækja mikið á og líklegt að svo verði áfram þar sem úrval tegunda slíka bíla eykt hratt þessa dagana og mun gera það enn frekar á næstu misserum,“ segir í tilkynnningu.

Alls seldust 694 fólksbílar í febrúar og er að það 13,4% undir sölunni í febrúar fyrir ári. Samtals hafa selst 1.402 fólksbílar frá áramótum en á sama tímabili í fyrra voru þeir 1.647 talsins og því er uppsafnaður samdráttur frá áramótum 14,9%.

„Ef skipting sölunnar frá áramótum er skoðuð með tilliti til mismunandi kaupendahópa þá sést að sala til einstaklinga hefur hinsvegar verið með ágætum þar sem hún hefur aukist um 1,0% frá 2019,“ segir í tilkynningu.

Samdrátturinn er því fyrst og fremst tilkominn vegna minni sölu til fyrirtækja en almenn fyrirtæki (án bílaleigu) hafa keypt 1,8% færri bíla frá áramótum og þá hafa 41,1% færri bílaleigubílar verið skráðir kaupendur miðað við sama tíma í fyrra.

mbl.is