Eimskip fjölgar rafmagnsvörubílum

Þuríður segir að ánægja ríki innan Eimskips með rafmagnsvörubílana sem …
Þuríður segir að ánægja ríki innan Eimskips með rafmagnsvörubílana sem þegar eru komnir í rekstur hjá fyrirtækinu. „Bílstjórarnir hrósa þeim, finnst þeir mjög liprir og hljóðlátir í akstri.” Þuríður er fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Eimskip

Eimskip hefur fjölgað rafmagnsvörubílum sínum sem nú eru orðnir þrír í flutningabílaflota flutningafyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip.

Segir í tilkynningu að um sé að ræða enn eitt púslið í orkuskiptaátaki fyrirtækisins. Markmið Íslands er að um ríflega helmings samdráttur verði í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum árið 2030.

Í tilkynningu segir að bíllinn verði meðal annars notaður í gámaflutninga á höfuðborgarsvæðinu og milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga. Fyrr í sumar fékk Eimskip afhenta tvo rafmagnsvörubíla sem hafa verið í notkun á höfuðborgarsvæðinu og í akstri milli Reykjavíkur og Suðurnesja til flutnings á kælivöru með góðum árangri.

Haft er eftir Þuríði Tryggvadóttur, forstöðumanni vörudreifingar hjá Eimskip, í tilkynningunni að ánægja sé innan fyrirtækisins með að geta tekið enn frekari skref í átt að kolefnishlutleysi með kaupum á bílnum. Félagið hefur sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

„Við erum mjög ánægð með rafmagnsvörubílana sem þegar eru komnir í rekstur hjá okkur. Bílstjórarnir hrósa þeim, finnst þeir mjög liprir og hljóðlátir í akstri.”

mbl.is