Sams konar bilun í kæli/vatnskassa í Nissan Pathfinder hefur eyðilagt sjálfskiptingar í LandCruiser 90 (búnaðurinn er endurbættur í LC110).
Sams konar bilun í kæli/vatnskassa í Nissan Pathfinder hefur eyðilagt sjálfskiptingar í LandCruiser 90 (búnaðurinn er endurbættur í LC110).
Nissan Pathfinder sjálfskipting: Dýr Spurt: Ég á Nissan Pathfinder árgerð 2006. Í sumar fór sjálfskiptingin þegar rör gaf sig í kælilögn milli skiptingar og vatnskassa. Kælivökvi komst í skiptinguna og olli miklum skemmdum. Þar sem bíllinn var á 4.

Nissan Pathfinder sjálfskipting: Dýr

Spurt: Ég á Nissan Pathfinder árgerð 2006. Í sumar fór sjálfskiptingin þegar rör gaf sig í kælilögn milli skiptingar og vatnskassa. Kælivökvi komst í skiptinguna og olli miklum skemmdum. Þar sem bíllinn var á 4. ári taldi umboðið að ekki væri um ábyrgð að ræða og þar könnuðust menn ekki við þessa bilun sem galla. Mér var sagt að endurnýja þyrfti bæði sjálfskiptinguna og vatnskassann. Umboðið áætlaði kostnaðinn 2,2 milljónir króna. „En þar sem IH væri að reyna að bæta þjónustuna,“ eins og það var orðað, bauðst það til að gera við bílinn fyrir aðeins 1,7 milljónir króna! Eftir ábendingu hafði ég samband við Jeppasmiðjuna á Ljónsstöðum við Selfoss. Þar var gert við skiptinguna og vatnskassann fyrir 600 þús. kr. Hjá Jeppasmiðjunni var mér sagt að mitt tilfelli væri 12. Pathfinder-sjálfskiptingin sem þeir hefðu lagfært vegna sams konar bilunar. Kannast þú við þennan „galla“ í sjálfskiptingum í Nissan Pathfinder?

Svar: Viðbrögð Nissan-umboðsins eru hætt að koma mér á óvart. Þetta er þekkt bilun í Nissan Pathfinder frá og með árgerð 2003.

Gallinn er ekki í sjálfskiptingunni sjálfri, sem er 5 gíra af hefðbundinni gerð (ekki CVT eins og í X-Trail), heldur í vatnskassanum sem er með innbyggðan kæli fyrir sjálfskiptinguna. Sá kælir hefur gefið sig unnvörpum oft með þeim afleiðingum að skiptingin eyðileggst, eins og sjá má á vefslóðunum hér á undan. Sé ráð í tíma tekið má forðast þessa dýru bilun með því að setja stuttar háþrýstislöngur (fjöðrun) á tengistútana á vatnskassanum fyrir skiptinguna og stytta rörin sem þeim nemur (það hefðu flest umboð gert á ábyrgðartímanum). Oftar en ekki er vatnskassinn byrjaður að skemmast þannig að öruggari forvörn fæst með því að aftengja kælinn í vatnskassanum og koma fyrir sérstökum kæli fyrir skiptinguna í staðinn. Sjálfskiptingarkælar frá B&M hafa fengist hjá N1, Bílabúð Benna, Jeppasmiðjunni og víðar. Þeir eru festir framan á vatnskassann.

Sjá nánar:

www.carcomplaints.com/Nissan/Pathfinder/.../transmission/coolant_leaked_into_transmission.shtml

www.ask.com/questions.../Nissan-Pathfinder-Transmission-Problems

Skekktar álfelgur má rétta

Spurt: Í hálku varð ég fyrir því óhappi að bíllinn rann til á hringtorgi og skall utan í steinkant. Síðan hef ég fundið titring í bílnum, sem er á upphaflegum léttmálmsfelgum, og reikna því með að önnur eða báðar vinstra megin hafi skemmst (skekkst) þótt ekki sjái á þeim. Mér datt í hug að þú hefðir ráð við þessu.

Svar: Verkstæði uppi á Ártúnshöfða, felgur.is, er sérhæft í að gera við og rétta nánast allar gerðir felga undan öllum gerðum bíla og tækja, þ.m.t. léttmálmsfelgur. Séu felgurnar skekktar en ekki sprungnar/brotnar, geturðu sparað þér talsverða peninga með því að láta rétta þær.

Honda CR-V: Bilunarljós lýsir stöðugt

Spurt: Gangtruflun í Honda CR-V '05 reyndist vera vegna stíflaðs hvarfa. Hreinsað var út úr hvarfanum og súrefnisskynjari endurnýjaður. Gangur og vinnsla eru eðlileg en bilunarljósið í mælaborðinu lýsir stöðugt. Kóðalestur sýndi ,,Catalyst system low effiency PO 420.“ Hvað getur það þýtt?

Svar: Þar sem súrefnisskynjarinn er aftan á hvarfanum sem búið er að hreinsa innan úr (og er því óvirkur) er eðlilegt að bilunarljósið lýsi. Það hverfur ekki fyrr en með nýjum hvarfa. Þú færð hann og ísetningu fyrir lægra verð hjá BJB-þjónustunni í Hafnarfirði.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)

Ábending

Drifið vill stirðna

Ótrúlega algengt er að eigendur jeppa með háu og lágu drifi verði fyrir því, þegar færð er slæm, að framdrifið, sem þeir stóla á, reynist óvirkt – jafnvel þrátt fyrir nýlega og dýra ábyrgðarskoðun. Til að losna við óþægindi, kostnað og tafir, sem óvirkt framdrif getur valdið, ráðleggur framleiðandi jeppans að sett sé í framdrif og lágt drif einu sinni í mánuði allan ársins hring. Þannig má girða fyrir að drifbúnaður stirðni vegna notkunarleysis.