Toyota Land Cruiser 150 er jeppi sem á jafnt heima í malbikuðu borgarlandslagi sem og óspilltri náttúru utan alfaraleiðar. Undirlagið skiptir hann tæpast máli og það sem meira er; hann afgreiðir ferðalagið með ótrúlega litlum eldsneytiskostnaði. Þótt ekki væri ástundaður neins konar meðvitaður sparakstur í reynsluakstrinum reyndist hann með afbrigðum neyslugrannur.
Toyota Land Cruiser 150 er jeppi sem á jafnt heima í malbikuðu borgarlandslagi sem og óspilltri náttúru utan alfaraleiðar. Undirlagið skiptir hann tæpast máli og það sem meira er; hann afgreiðir ferðalagið með ótrúlega litlum eldsneytiskostnaði. Þótt ekki væri ástundaður neins konar meðvitaður sparakstur í reynsluakstrinum reyndist hann með afbrigðum neyslugrannur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru áratugir síðan Toyota Land Cruiser skóp sér fyrst nafn sem vel búinn jeppi sem plumar sig jafn vel stífbónaður á strætum borgar sem og skítugur upp fyrir haus á vegleysum fjarri alfaraleið.
Það eru áratugir síðan Toyota Land Cruiser skóp sér fyrst nafn sem vel búinn jeppi sem plumar sig jafn vel stífbónaður á strætum borgar sem og skítugur upp fyrir haus á vegleysum fjarri alfaraleið. Þegar maður virðir Land Cruiser 150 fyrir sér þar sem hann stedur gljáfagur á malbikinu læðist að manni sú hugsun að synd væri að óhreinka þennan settlega bíl. Það er þó hrein ranghugmynd í sjálfu sér því 150-bíllinn er í essinu sínu í ófærum. Það fékk blaðamaður að reyna nýverið er Land Cruiser 150 með nýju vélinni var kynntur á Íslandi. Um 100 erlendir blaðamenn komu til landsins um síðustu mánaðamót og tóku bílinn til kostanna í íslensku landslagi. Um óbreytta bíla var að ræða og því kom frammistaðan að mörgu leyti skemmtilega á óvart. Í ljós kom að bíllinn finnur sig alveg jafn vel hálfur á kafi í drullupollum og þegar hann líður þveginn og strokinn um þjóðvegina.

Breyttur og bættur – einkum undir húddinu

Land Cruiser á sinn fasta aðdáendahóp hér á landi sem annars staðar og því skiljanlegt að varlega sé stigið til jarðar þegar kemur að útlitsbreytingum og sjónrænum uppfærslum, af hvaða tagi sem þær kunna að vera. Útlitsbreytingarnar eru því með minnsta móti að þessu sinni en þeim mun meira hefur verið breytt og bætt hvað vélarkostinn varðar. Þar er helst að nefna að nýja vélin, sem er 2,8 l í stað 3,0, uppfyllir Euro 6-mengunarstaðalinn, eyðslan er um leið minni en togið að sama skapi meira. Hann er sekúndunni lengur að ná 100 km/klst. en togið er sem fyrr sagði meira og leiða má getum að því að það hafi meira að segja meðal einstaklinga í kaupendahópi bílsins en spyrnugetan. Kappakstur á rauðu ljósi og þess háttar barnaskapur er líkast til ekki það sem Krúsurum þessa lands og annarra er efst í huga. Það heyrist óneitanlega svolítið í díselvélinni en það er á sinn hátt ekki nema traustverkjandi.

Krúsað með stæl um þjóðveginn

Það er vitaskuld í bænum sem ballið byrjar og það þarf sjálfsagt ekki að hafa mörg orð um þennan bíl á götum borgarinnar; til þess hefur hann verið nógu vinsæll síðasta aldarfjórðunginn hérlendis til að fólk viti hversu vel hann virkar í borginni. Land Cruiser 150 er að sönnu stór bíll sem situr nokkuð hátt á veginum en þökk sé fyrirtaks vökvakerfi í fjöðrunarbúnaði bílsins sveiflast hann merkilega lítið til og frá þótt farið sé skvettulega í beygjurnar, til að mynda á hringtorgum. Hann beygir lipurlega á bílastæðum og útsýnið er það gott að ökumaður skynjar sig býsna vel meðvitaðan um nánasta umhverfi sitt, sem er ótvíræður kostur þegar um bíl af þessari stærð er að ræða.

Þegar komið er á þjóðveginn líður „Krúserinn“ prýðisvel áfram. Hann er búinn hraðastilli sem frágenginn er með sama hætti og í Lexusbílum; með lítilli sveif aftan við stýrið þar sem allt má græja með vísifingri án þess að taka augun af veginum. Þá er vert að minna á myndavél í framgrillinu sem skimar veginn framundan þegar ekið er á „cruise control“ og metur næstu 30 metrana. Undirritaður sigldi þannig áfram uns flutningabíll framundan rauf geislann frá myndavélinni. Við það slökkti bíllinn á hraðastillinum og rauf sjálfvirkan aksturinn og ég varð að taka við inngjöfinni á ný. Flottur búnaður sem virkaði ljómandi vel.

Uppi á fjalli, úti í fljóti...

Þegar kom að því að taka bílinn til kostanna utan fólksbílafærra vega sýndi hann fyrst hvers hann er megnugur. Með því að hækka hann varð Land Cruiserinn einfaldlega til í allt, og þótt blaðamanni yrði ekki um sel andspænis sumum stórgrýtis-stígunum, sem voru allt annað en árennilegir, kleif jeppinn ófærurnar, upp og yfir það sem fyrir var. Þegar komið var út í sæmilega á gafst kostur á að prófa verulega skemmtilegan búnað, sem reyndar er ekki staðalbúnaður, og nefnist „Crawl Control“ og eigendur Land Cruiser 200 ættu margir hverjir að kannast við. Þegar búnaðurinn hefur verið ræstur fikrar bíllinn sig einfaldlega áfram, nánast eins og hann skríði á fjórum fótum – eða dekkjum, réttara sagt – og ökumaður tekur fótinn af inngjöfinni. Henni er þess í stað stýrt, í fjórum þrepum, með stórum snerilrofa í mælaborðinu fyrir ofan miðjustokkinn, og í þessum ham er sem bíllinn muni bókstaflega komast allt. Það gerði hann líka og það var hrein unun að aka 150-bílnum á miklum hraða um svarta sanda hálendisins, því þar fór hann jafn vel með beygjurnar og hann gerði í bænum, skrikaði lítið sem ekkert og fjöðrunin fór létt með flest sem fyrir varð. Sætin í jeppanum eru líka flennistór svo það væsir ekki um ökumann og farþega þegar farið er um landið. Aðbúnaðurinn er allur hinn prýðilegasti innanstokks en samt er torfæruslagsíða á Land Cruiser 150; hann er dugandi þjarkur sem fer hvert á land sem hann lystir og er auk þess hlaðinn búnaði, í stað þess að falla hinum megin línunnar og vera þá lúxusjeppi sem hentar í utanvegaakstur.

Eyðsla sem kemur á óvart

Loks er vel þess virði að nefna að eldsneytiseyðslan kom undirrituðum í opna skjöldu. Þegar ekið hafði verið úr Reykjavík og Hvalfjörðurinn farinn í kjölfarið, Draghálsinn, Húsafell, Langjökulsrætur og suður fyrir jökulinn að Skjaldbreið hafði nálin á mælinum vart haggast; hún var ennþá í toppi! Það heyrir heldur til undantekninga en hitt að bílar standi undir háleitum eyðslutölum frá umboðunum en í þetta sinn sást það frá fyrstu hendi. Eyðslan með nýju vélinni nær nýjum lægðum, ef svo má að orði komast og var þó fráleitt verið að rembast við einhvern sparakstur – nema síður væri.

Þar sýndi Land Cruiser 150 enn eina sparihliðina og ekki við öðru að búast en hinir ljónhörðu stuðningsmenn þessa ástsæla jeppa herðist enn í trúnni við að prófa hann þennan. Til þess hefur hann allt að bera.