Að utan er Subaru Levorg ekki að hrópa á athygli. Hönnunin er hófstillt en með stöku sportlegum línum sem gefa bílnum vöðva. Séð frá hlið er Levorg snotur skutbíll, en að framan gefur stórt loftinntakið í húddinnu bílnum tryllitækis-svip.
Að utan er Subaru Levorg ekki að hrópa á athygli. Hönnunin er hófstillt en með stöku sportlegum línum sem gefa bílnum vöðva. Séð frá hlið er Levorg snotur skutbíll, en að framan gefur stórt loftinntakið í húddinnu bílnum tryllitækis-svip. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Subaru Levorg er merkileg blanda ólíkra eiginleika. Þessi nýjasti meðlimur Subaru-fjölskyldunnar virðist eins og gerður fyrir heimsókn í réttir eða ferð upp í veiðikofa; fjórhjóladrifinn með verklegar gúmmímotturnar á gólfinu og rúmgott farangursrýmið.

Subaru Levorg er merkileg blanda ólíkra eiginleika. Þessi nýjasti meðlimur Subaru-fjölskyldunnar virðist eins og gerður fyrir heimsókn í réttir eða ferð upp í veiðikofa; fjórhjóladrifinn með verklegar gúmmímotturnar á gólfinu og rúmgott farangursrýmið. En um leið er hann ögn sportlegur; með tvö púströr að aftan, vígalegt loftinntak í miðju húddinu og blöku-gírskiptingu í stýrinu. Levorg hefur ekki það „massíva“ yfirbragð sem einkennir alla jafna bíla í lúxusflokki, og það glittir í plastið hér og þar, en samt er hann hlaðinn alls kyns tækni og eiginleikum sem gera bílinn vandaðan og eigulegan. Á köflum virðist Levorg bara hársbreidd frá því að lenda í lúxusbílaflokki.

Stundum er best að lýsa bílum eins og þeir séu fólk. Þá myndi ég líkja Levorg við hreystilega heimasætu eða reffilegan bóndason, sem tekur sig vel út í lopapeysunni, er laus við allan pempíuskap, kann að taka til hendinni á bænum en fer samt vel á armi nýþveginn og snyrtur. Hann vinnur ekki neinar fegurðarsamkeppnir, en er heldur ekki leiðinlegur á að líta, jarðbundinn, áreiðanlegur og tekur ekki upp á neinni vitleysu. Góður ferðafélagi hvort sem stefnan er sett á malarvegi uppi á hálendi eða á tónleika í Hörpunni.

Kalla má Levorg arftaka Subary Legacy, þó að strangt til tekið sé hann skyldari Imprezunni, ef Subaru-ættartrénu er fylgt upp á hár. Levorg-nafnið er ekki fengið úr frönsku eins og mætti kannski halda, heldur er um að ræða samsuðu þriggja orða: LEgacy, reVOlution, touRinG.

Fæst Levorg í þremur útgáfum: Grunnútgáfan kallast Premium og kostar 5.290 þús. LUX-útgáfan bætir við sóllúgu, rafdrifnu ökumannssæti með mjóbaksstuðning og leðuráklæði, og kostar 5.690 þús. Loks er LUX+ sem kemur með 18“ álfelgum og ýmsum fegrandi smáatriðum að innan og utan s.s. dekktu grilli, bláum saumum í sætum og állista í innréttingu og kostar þá 6.090 þús. kr. Í reynsluakstri var notast við LUX-útgáfu sem hafði verið hækkuð um 2,5 cm en hækkunin kostar 90.000 kr. aukalega.

Hásæti fyrir ökumanninn

Það fyrsta sem tekið er eftir þegar sest er upp í bílinn er sérdeilis þægileg ökumannsstaða. Sætið fellur vel að líkamanum, púði er í hárréttri hæð undir hægri olnboga og hægt að hvíla vinstri handlegginn á lítilli syllu á hurðinni. Gluggarnir eru stórir, gott útsýni í allar áttir, eins og maður fái strax góða tilfinningu fyrir umfangi bílsins og kvíði því ekki að rispa hann óvart eða dælda þegar lagt er í stæði. Meira að segja stýrið liggur mjög vel í hendi, virðist einhvern veginn vera með alveg rétta þykkt og með hnúða á hárréttum stöðum svo að höndin nær áreynslulaust góðu gripi.

Eftir að hafa ekið Levorg í um klukkustund varð ég var við einn smávægilegan galla; að vinstra hnéð virtist lenda utan í syllunni á bílhurðinni og var farið að valda óþægindum. Sennilega er þetta núningur sem venst, og er líklega ekki vandamál fyrir þá sem eru lægri til mittisins.

Það ætti að fara vel um bæði ökumann og farþega þó að allir séu þeir hávaxnir og þéttvaxnir. Armhvílan í aftursætunum leggst ekki alveg niður heldur myndar hillu svo þeir sem sitja aftur í geta setið gleiðir eins og kóngar. USB tengi eru við aftursætin svo ekki þarf að hafa áhyggjur af því að blessuð börnin, með spjaldtölvurnar sínar og snjallsímana límda við nefið, verði rafmagnslaus í miðjum bíltúr og neyðist til að horfa á landslagið.

Í farangursrýminu er plássið vandlega nýtt. Þar má finna litla vasa vinstra og hægra megin fyrir smáhluti sem fólk vill hafa til taks í skottinu og með því einu að ýta á hnapp falla aftursætin fram og leggjast alveg flöt. Þegar búið er að stækka farangursrýmið er plássið svo stórt að vel væri hægt að sofa í bílnum ef svo bæri undir.

Fingrafarasegulstál

Í miðju mælaborðinu er allstór snertiskjár og stjórnborð með glansandi svörtu gleryfirborði sem myndi sóma sér vel í lúxusbíl. Levorg er búinn leiðsögukerfi sem fellur örugglega í kramið hjá utanbæjarfólki sem þarf að skjótast í bæinn endrum og sinnum, enda virðist verða erfiðara að rata um höfuðborgarsvæðið með hverju árinu sem líður. Þetta miðjustjórnborð er agalega fagurt en getur fljótt orðið útbíað í fingraförum og óvitlaust að geyma klút í hanskahólfinu til að strjúka fitublettina burt endrum og sinnum.

Levorg er ekki tryllitæki en ekki heldur neinn ræfill, með tæplega 170 ha vél og 250 Nm tog. Bíllinn er snöggur af stað og maður veit ekki fyrr enn hann er skyndilega kominn vel yfir löglegan hámarkshraða. Það er ekki hægt að kvarta yfir aksturseiginleikunum í venjulegum innan- og utanbæjarakstri en líklega koma bestu eiginleikarnir ekki í ljós fyrr en þykkt lag af snjó er á vegum og aðrir bílar eiga fullt í fangi með skaflana.

Þeir sem prófa bílinn ættu að gæta þess að vera ekki með latan bremsufót. Ef vinstri fætinum er ekki lyft alveg af bremsunni þegar ekið er af stað þá vill bíllinn ekki hreyfast þó stigið sé nokkuð vel á bensíngjöfina.

Hér er kominn bíll sem er ekki gallalaus en stendur samt undir væntingum og vel það. Allt pláss er vel nýtt, mjög vel fer um ökumann og farþega, og fjórhjóladrifið er kjörið fyrir erfiða vegi og slæma færð. Ég hugsa að hér sé kominn bíll sem ætti að smellpassa við íslenska markaðinn; fjölskylduvænt farartæki fyrir þá sem þurfa að geta ekið út fyrir bæinn á snjóþungum vetrardögum, með hundinn, hnakkana, snjóbrettin og kæliboxið. Þetta er bíll sem fer ekki úr tísku því hann var ekki endilega að eltast við tískuna til að byrja með. Hvorki of dýr né of ódýr. Ekki svo praktískur að hann sé leiðinlegur, né svo íburðarmikill að jaðri við bruðl, og bifreið sem auðvelt er að ímynda sér að muni þjóna eiganda sínum vel og lengi.

ai@mbl.is