Ungabarn með hægðatregðu – hvað er til ráða?

Þegar hægðatregða er til staðar getur nokkurs konar vítahringur farið ...
Þegar hægðatregða er til staðar getur nokkurs konar vítahringur farið af stað. Barnið finnur fyrir sársauka við það að losna við harðar hægðir. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það er erfitt fyrir bæði barn og foreldri þegar allt er stopp í meltingunni. Barninu líður illa, það á erfitt með að kúka og það er sárt og foreldrum líður illa yfir vanlíðan barnsins. Hægðatregða er skilgreint vandamál þegar:

Hægðir koma sjaldnar en þrisvar í viku

Hægðir eru harðar

Það er erfitt og/eða sárt fyrir barnið að kúka

Ungabörn á brjósti hafa sjaldnast hægðatregðu og það þarf ekki að vera merki um tregðu þó þau  hafi hægðir sjaldan. Móðurmjólkin er þannig samsett að hún fellur að meltingarkerfi barnsins. En matargamanið kárnar stundum þegar ungabarnið fer á fasta fæðu og allt situr fast.

Yfirleitt má skella skuldinni á þann mat sem barnið fær en í einstaka tilfellum er um sjúkdómsástand að ræða en þá eru yfirleitt önnur einkenni til staðar s.s. of hæg þyngdaraukning og fleira.

Á heilsuvefnum doktor.is er sagt frá ákveðnum vítahring sem getur myndast í tengslum við hægðatregðu:

„Þegar hægðatregða er til staðar getur nokkurs konar vítahringur farið af stað. Barnið finnur fyrir sársauka við það að losna við harðar hægðir. Rifur geta myndast í endaþarminum, úr þeim getur blætt og þær valdið sársauka. Ósjálfráð viðbrögð barnsins eru að halda aftur af hægðunum til þess að forðast sársaukann. Við það hafa hægðirnar lengri viðdvöl í ristlinum, meiri vökvi frásogast og hægðirnar verða enn harðari. Þar með viðhelst hægðatregðan. Barn með hægðatregðu fær oft magakrampa vegna þess hve mikið er af hægðum í þörmunum sem eru á sífelldri hreyfingu. Þess eru dæmi að matarlyst minnki hjá þessum börnum og þau kúgist.“

Samkvæmt vef Barnaspítala Hringsins  eru helstu einkenni hægðatregðu ungra barna:

 • Barn hefur ekki hægðir í nokkra daga (sjaldnar en þrisvar í viku)
 • Hægðir eru harðar og barnið á erfitt með að hafa hægðir
 • Hægðir eru litlar
 • Klíningur í buxum (framhjáhlaup)
 • Þaninn kviður
 • Minnkuð matarlyst, ógleði
 • Ferskt blóð utan á hægðum

Einfaldar leiðir til að leysa þennan leiða vanda er m.a. að:

 • Draga úr mjólkurmat

 • Gefið barninu ávexti og grænmeti þrisvar á dag, t.d. sveskjur, döðlur, fíkjur, rúsínur, baunir, blómkál, spergilkál, hvítkál

 • Einnig er mælt með ávaxtasafa

 • Forðast sælgæti, kex og „ruslfæði“

 • Sleppa tímabundið eplum, banönum og gulrótum, sem annars er úrvalsfæða fyrir börn en getur valdið hægðatregðu.

Á eftirfarandi myndbandi má finna góð ráð og á tengli hér á BabyCenter-vefinn  má að auki finna einfaldar „leikfimiæfingar“ og kviðnudd sem getur hjálpað ungabörnum með hægðatregðu. 

Heimildir: Barnaspitali.is, Doktor.is og BabyCenter.co.uk

mbl.is