Hvert barnabarn er lottóvinningur

Heppin amma með fallega hópinn sinn. Frá vinstri: Kjartan Pétur, ...
Heppin amma með fallega hópinn sinn. Frá vinstri: Kjartan Pétur, Brynjar Bragi, Sesselja Fanney, Þorsteinn Flóki í fanginu á ömmu, Önnu Margréti Ólafsdóttur, og svo Eydís Anna. Efri röð frá vinstri: Sólrún Una og Ágústa Birna. Ljósmynd/Aðsend

Ömmur, afar og barnabörn eiga gjarna sérstök tengsl sem annað fólk á ekki hlutdeild í, ekki einu sinni foreldrarnir. Stundum segir fólk á miðjum aldri, sem fær þetta nýja hlutverk upp í hendurnar frekar fyrirhafnarlaust, að það hafi verið yndislegt að eignast og ala upp börn en að barnabörnin séu einfaldlega alveg sérstakur happdrættisvinningur.

Forréttindi að fá að taka þátt í lífi barnabarnanna

Hjónin Anna Margrét Ólafsdóttir og Pétur Gunnarsson eru svo sannarlega lukkunnar pamfílar þegar kemur að barnabörnum en þau eiga fallegan hóp sjö barnabarna á aldrinum fimm til 11 ára.

„Ég hef nú reyndar alltaf haft mjög mikinn áhuga á börnum og valdi starf með börnum sem minn starfsvettvang. Þannig kemur það ekki á óvart að mér finnst ömmuhlutverkið skemmtilegasta hlutverkið sem ég hef fengið en það tók við titlinum af móðurhlutverkinu. Það eru einfaldlega svo mikil forréttindi að fá að vera þátttakandi í lífi barnabarnanna og það er okkur Pétri mjög mikilvægt,“ segir Anna Margrét.

Alvörubingó með vinningum á kósídegi heima hjá ömmu og afa ...
Alvörubingó með vinningum á kósídegi heima hjá ömmu og afa milli jóla og nýárs en dagurinn er löngu orðinn að hefð hjá fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að sér finnist mikilvægt að vera þátttakandi í áhugamálum barnanna og reynir alltaf að fara á danssýningar, íþróttamót og annað sem barnabörnin taka þátt í. „Þannig verða þeirra áhugamál líka mín áhugamál eins og áhugamál barnanna minna voru líka mín áhugamál.“

Hún segir að barnabörnin séu velkomin hvenær sem er og það sé alger undantekning ef þau hjónin geti ekki tekið á móti þeim. Við erum reyndar alger forréttindaamma og -afi því báðar dæturnar búa svo nálægt okkur að börnin geta öll labbað sjálf til okkar og heim til sín aftur nema yngsta barnið.

„Þá hef ég verið svo heppin að börnin hafa verið í leikskólanum hjá mér og oft komið með mér heim eftir vinnu. Nú er þessi yngsti að kveðja leikskólann en hann hefur gjarnan komið heim með ömmu úr leikskólanum og haft það notalegt eftir erilsaman dag. Þau eldri hringja gjarnan kvöldið áður og plana heimsókn.“

Popp og hrískúlur er staðalsnakk hjá ömmu og afa yfir ...
Popp og hrískúlur er staðalsnakk hjá ömmu og afa yfir bíómynd kvöldsins. Þarna er greinilega mjög notalegt að vera. Ljósmynd/Aðsend

Börnin koma oft í næturheimsókn, stundum bara eitt í senn og fá þá heilmikinn gæðatíma með ömmu og afa, en líka tvö og fleiri og efla þá oft frænda- og frænkutengslin sín á milli, stundum gista  alveg upp í fimm í einu og þá er ansi kátt á hjalla. Þá er hefð fyrir því að einn dagur milli jóla og nýárs sé tekinn frá fyrir allan hópinn, frá morgni til kvölds. Þá er eitthvað skemmtilegt gert saman, bakaðir kanilsnúðar, föndrað, spilað bingó með alvöruvinningum og margt fleira.

Græddi tvö aukabarnabörn gegnum tengdason

Anna Margrét segist hafa fengið auka lottóvinning þegar hún „græddi“ tvö aukabarnabörn gegnum tengdason sinn, tvær stúlkur, 9 og 11 ára. Þó svo það séu ekki nema nokkrir mánuðir síðan hún kynntist þeim hikar Anna Margrét ekki við að telja þær til hópsins, barnabörnin séu ekkert fimm plús tvö. Þau eru einfaldlega sjö og ekkert nema gleði að fá fleiri í hópinn.

Anna Margrét segir að það hafi myndast ákveðnar hefðir á heimilinu í tengslum við barnabörnin eins og oft vill verða. Eitthvað sem börnin upplifa bara þar. Hún nefnir sem dæmi að hún sé hálfdönsk og að hún hafi vanist á að borða kruður þegar hún var að alast upp. Þær fáist ekki  lengur en ristuð hamborgarabrauð komist ansi nærri danskættuðu kruðunum og því séu slíkar kræsingar oft á borðum. Stundum er boðið upp á croissant og spari morgunkorn.

„Svo fá börnin oft að velja hvað á að vera í kvöldmatinn. Stundum sækjum við mat eða förum eitthvað út en stundum vilja þau eitthvað ótrúlega gamaldags sem þau fá annars ekki. Þannig er stöku sinnum boðið upp á bjúgu og kjötfarsbollur þótt Anna Margrét segi að þess konar matur sé reyndar ekki oft á borðum heima hjá henni. En óskir barnabarnanna koma framar öðru.

Kjartan Pétur er yngstur og í dag er síðasti dagurinn ...
Kjartan Pétur er yngstur og í dag er síðasti dagurinn hjá honum í leikskólanum. Fyrr í sumar bað hann um kjöt(fars)bollur í matinn hjá ömmu og afa. Þótt slíkar bollur séu ekki oft á borðum hjá Önnu Margréti þá var bara farið út í búð og keypt kjötfars. Drengurinn ljómaði þegar maturinn var borinn fram. Ljósmynd/Aðsend

„Svo horfum við yfirleitt á mynd þegar þau koma og gista og við borðum popp og hrískúlur. Afi þeirra tekur gjarnan að sér að segja sögur fyrir svefninn, stundum eitthvað sem hann man eftir úr eigin æsku en stundum bara eitthvað sem honum dettur í hug þá stundina. Svo er ég nú svo kvöldsvæf sjálf og þau engin smábörn lengur þannig að við förum yfirleitt bara að sofa á sama tíma og spjöllum um daginn og veginn áður en við svífum inn í draumaheiminn. Það er mjög notalegt.“

Anna Margrét telur að það hafi mikla þýðingu fyrir börn að hafa ömmur og afa í lífi sínu, það eru ekki öll börn svo heppin. „Það er gott fyrir þau að geta sótt í annað heimili en þeirra eigið þar sem þeim líður vel og það eru ákveðnar hefðir og rútína. Ekki af því þeim líði ekki vel heima hjá sér, þetta snýst ekki um það.

Tilbreytingin, hefðirnar og tengslin við ömmu og afa skipta börnin einfaldlega miklu máli – rétt eins og ömmurnar og afana.  

mbl.is