Fjölskyldulæsi – hvað er nú það?

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Nú þegar skólarnir eru að byrja af fullum krafti þarf að huga að lestri ungviðsins á ný, ekki síst ef fjölskyldan hefur slakað á með lesturinn í kæruleysi sumarsins.

Til eru ýmsar tegundir læsis og er fjölskyldulæsi ein slík tegund. Á lesvefnum er sagt frá því að hugtakið fjölskyldulæsi sé notað í víðu samhengi um allar athafnir daglegs lífs sem fram fara á heimilinu eða á vegum fjölskyldunnar og tengjast læsi með einum eða öðrum hætti.

„Í fjölskyldulæsi felst meðal annars lestur bóka og hvers kyns texta á heimilum en einnig ritun, til dæmis að skrifa minnismiða, að fylgja uppskriftum og leiðbeiningum. Það á auk þess við um sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru hvort sem það er í samræðum, með lestri eða ritun. Bókasafnsferðir fjölskyldunnar eru líka dæmi um athafnir sem tilheyra fjölskyldulæsi.“

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Láttu barnið lesa utan á vörur í búðinni

Þannig getur heilmikið fjölskyldulæsi falist í því að barn sem er að ná tökum á lestri fari með foreldrum sínum í búðina, lesi utan á vörurnar og aðstoði þannig við innkaupin. Sama má segja um einfalda eldamennsku og bakstur eftir uppskriftum.

Einnig má hvetja börn til að lesa blöðin, sumar fyrirsagnir kveikja áhuga barna á grunnskólaaldri og hvetja þau til að lesa texta sem þeim dytti annars ekki í hug að lesa. 

Barnabókahöfundurinn og vísindamaðurinn Ævar Þór Benediktsson minnti á það nýlega að snobb er ekki í boði þegar velja þarf lesefni fyrir börnin og því geta ýmiss konar auglýsingabæklingar með mörgum litríkum myndum, til dæmis þegar auglýstur er spennandi matur eða tölvuleikir, verið ágætisæfing í hversdagslegum heimilislestri þó svo aðrir í fjölskyldunni kunni að hafa minni áhuga á slíkum lestri. 

mbl.is