Mikil áhrif systkina

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Undanfarna áratugi hafa vísindamenn sýnt fram á ýmiskonar jákvæðar leiðir sem foreldrar geta haft á uppeldi barna sinna; til að mynda hvað varðar sjálfsöryggi þeirra, hvernig þeim gengur í námi og tómstundastarfi og hvernig samskipti þau eiga við vini sína og annað fólk í kringum sig. Minni áhersla hefur verið lögð á að skoða sambönd barna við systkini sín þó svo að mörg börn eyði jafnmiklum og oft meiri tíma með systkinum sínum en foreldrunum.
Nýlegar rannsóknir við Háskólana í Calgary og Toronto í Kanada sýna að systkini hafa meiri áhrif á þroska barna en fólk hefur gert sér grein fyrir. Þannig getur stuðningur, nánd og hlýja eldri systkinis aukið málskilning yngra barns auk þess sem börn geta almennt hjálpað systkinum að efla skilning á sjónarmiðum annarra og hluttekningu almennt.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Systkini getur haft áhrif á það hvernig hlutteknig þróast hjá barni

Í annarri rannsókn sem birt var í tímaritinu Child Development var sýnt fram á að systkini geta haft áhrif á það hvernig hluttekning gagnvart öðru fólki þróast hjá börnum. Einnig að börn sem eru almennt vingjarnleg og skilningsrík hafa jákvæð áhrif á systkini sín sem komast þannig í betri stöðu en önnur börn að þróa með sér hluttekningu, hafi þau sýnt lítinn þroska á því sviði.

Barn sem á í erfiðleikum með hluttekningu, en á systkini sem sýnir styrk á því sviði, á betri möguleika að efla hæfni sína á þessu sviði ef samskipti systkininna eru náin. Barn sem sýnir hluttekningu gagnvart öðrum verður almennt umhyggjusamara gagnvart öðrum í umhverfinu sem þarf á aðstoð að halda. Þetta lærdómsferli; að læra að sýna hluttekningu snemma á lífsleiðinni, er líklegt til að hrinda af stað ævilöngu ferli þar sem velvild, virðing og skilningur gagnvart öðru fólki er í öndvegi. Börn sem læra að sýna hluttekningu verða að fullorðnu fólki; vinum, mökum, starfsfélögum og foreldrum, sem kann að aðstoða annað fólk og sýna því samkennd.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í rannsóknunum var fylgst með því hvernig börn tjá hluttekningu sína þegar þau bregðast við fullorðnum sem þykist vera í uppnámi þegar mikilvægur hlutur brotnar eða skemmist, þegar hann meiðir sig á hné eða klemmir fingur. Fylgst var sérstaklega vel með því hvernig hæfileikinn til að sýna samkennd eykst með tímanum og með hvaða hætti systkini og nærvera þess hefur áhrif á það barn sem fylgst er með.

Yngri systkini geta haft jákvæð áhrif á eldri systkini

Almennt hefur fólk litið svo á að eldri systkini hafi meira afgerandi uppeldisleg áhrif á systkini sín, þau hafa jú haft meiri tíma til að verða sér úti um reynslu og þroska, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar geta yngri systkini einnig haft mikil áhrif á þroska eldri systkina – sérstaklega ef þau eru hæfari til að sýna samkennd. Þannig geta yngri systkini einnig verið fyrirmyndir eldri systkina, öfugt við það sem almennt er talið. Það sem mestu máli skiptir er að barn í systkinahópi sem sýnir mesta samkennd verður öðrum systkinum fyrirmynd. Aldur systkina skiptir máli, mest aldursbil í umræddum rannsóknum voru fjögur ár og ljóst að eftir því sem aldursbilið breikkar milli systkina eru það frekar eldri systkini sem hafa áhrif á hin yngri. Yngri bræður höfðu til að mynda ekki marktæk áhrif á eldri systur þegar aldursbilið var fjögur ár eða meira.

mbl.is