Börn 9% af slösuðum í umferðinni

Öryggi barna í bílum hefur lagast mjög mikið.
Öryggi barna í bílum hefur lagast mjög mikið. mbl.is/Thinkstock

Könnun sem starfsfólk Samgöngustofu og félagar í slysavarnadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar gerðu á síðasta ári sýnir að öryggi barna í bílum hefur batnað til muna undanfarin 32 ár.

„Árið 1985 voru um 80% barna laus í bílum en í dag er sá fjöldi kominn niður í 2%. Þó virðist sem foreldrar og forráðamenn barna slaki á kröfum um öryggi barnanna þegar þau eldast. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan eru öll börn, eins árs og yngri, í réttum búnaði og hið sama á við um rúmlega 95% barna tveggja til þriggja ára. Meira en 90% fjögurra til fimm ára barna eru í réttum búnaði en svo virðist sem 80% sex ára barna séu í réttum búnaði sem þýðir að um 20% þeirra eru eingöngu í bílbelti eða engum öryggisbúnaði sem er langt frá því að vera viðunandi. Hafa skal í huga að barn lægra en 135 cm á hæð skal ávallt vera í öryggis- og verndarbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd,“ segir Hildur Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Samgöngustofu. 

Hildur segir að það skipti máli að gefa sér góðan tíma þegar öryggisbúnaður barna er valinn, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. 

„Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Við mælum með því að skoða upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum. Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið í slysi ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum,“ segir hún. 

Öruggara er að barn snúi baki í akstursstefnu eins lengi og hægt er þar sem höfuð þess er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir.

„Með notkun bakvísandi barnabílstóla eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila lendi bíllinn í árekstri. Mælt er með notkun bakvísandi bílstóla til þriggja ára aldurs. Bílpúða með baki skal nota þar til barnið er 36 kíló og hefur náð yfir 135 cm hæð. Ekki er mælt með notkun bílpúða án baks. Bæði veitir bakið hliðarárekstrarvörn og eins kemur það í veg fyrir að bílpúðinn renni undan barninu. Á bakinu eru auk þess lykkjur eða hök til að festa beltið í sem tryggir að það falli rétt að líkama barnsins. Barn sem ekki hefur náð 150 sm hæð má ekki vera farþegi í framsæti bíls sem búinn er öryggispúða nema að púðinn hafi verið gerður óvirkur. Þessi regla á við þótt barnið sé í barnabílstól. Höggið sem öryggispúðinn gefur þegar hann springur út getur verið barni hættulegt þótt hann veiti fullorðnum öryggi. Munum að öryggi barna er á ábyrgð okkar fullorðnu, það er engin bílferð svo stutt að við gefum afslátt af því,“ segir Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert