Leiðtogar í eigin íþróttalífi

Bjarni hefur reynslu af því að vera í fremstu röð …
Bjarni hefur reynslu af því að vera í fremstu röð í sinni íþrótt. Hann er sálfræðimenntaður og hefur starfað sem þálfari sjálfur. Ljósmynd/Hari

Að vera óstöðvandi í íþróttum er Bjarna Fritzssyni hugleikið. Enda þekkir hann það af eigin reynslu sem atvinnumaður íþróttum og sem rithöfundur svo dæmi séu tekin. Hann er sálfræðimenntaður, fyrirlesari, þjálfari og eigandi Út fyrir kassann sem sérhæfir sig í sjálfstyrkinganámskeiðum. Hann gaf einnig út vinsæla barnabók þessi jólin, bókina Orri Óstöðvandi.

Á námskeiðinu Vertu óstöðvandi, sem hefst 27. janúar kennir hann ungu íþróttafólki hvað það er sem skiptir máli þegar kemur að því að verða óstöðvandi í sinni grein. Þar fer Bjarni til að mynda inn á mikilvægi þess að vera með rétt hugarfar, ná tökum á hugsunum sínum og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Hann byggir námskeiðið á því sem hann hefur lært í gegnum námið sem hann hefur farið í gegnum, feril sinn og á öðru íþróttafólki sem hann hefur unnið með. 

„Á hæsta stigi íþróttanna eru allir rosalega góðir. Þannig að ef þú vilt ná langt og verða ein/n af þeim bestu verður þú að verða svakalega sterk/ur andlega. Það er það sem afreksfólk í íþróttum hefur umfram aðra.“

Bjarni segir að eftir því sem samkeppnin harðnar í íþróttum þegar krakkar verða eldri þurfi að huga að því að þjálfa hugarfarið og sýna þeim hvað virkar og hvað virkar ekki. „Að mínu mati er gott að vekja athygli barna á þessum hlutum þegar þau eru að fara í 7. bekk. Síðan er þessi aldur frá 16 ára til 21 árs einnig mikilvægur. Þar þurfa krakkar að læra að komast í gegnum hindranir, skerpa á hæfileikum sínum og vinna í veikleikunum.“

Hvernig komast krakkar í gegnum mótlæti?

„Í síðasta tímanum á námskeiðinu hjá mér fjalla ég um mótlæti. Það lenda allir afreksíþróttamenn í mótlæti. Spurningin er hins vegar sú hvernig maður tekst á við það. Mótlæti er alltaf leiðinlegt meðan á því stendur, en það er risastór þáttur í að ná árangi. Maður þarf bara að átta sig á hvernig best er að tækla það, kunna leiðirnar og bregðast svo rétt við.“

Er afreksfólk í íþróttum krakkar sem hafa alltaf verið bestir?

„Alls ekki. Margir vilja jafnvel meina það að afreksfólk sé oftar en ekki þeir sem hafa mætt miklu mótlæti þegar það er yngra, það hefur fundið leiðir og lætur ekkert stoppa sig. En auðvitað er líka til afreksfólk sem hefur alltaf verið best í sínum  flokki, en það er ekki endilega alltaf raunin.“

Bjarni er á því að hugarfar skipti miklu máli þegar …
Bjarni er á því að hugarfar skipti miklu máli þegar kemur að því að skara fram úr í íþróttum. Hann kennir krökkum að vera óstöðvandi á sjálfsstyrkinganámskeiði. Ljósmynd/Hari

Fyrir hverja er námskeiðið Vertu óstöðvandi?

„Það er fyrir þá sem stefna langt í íþróttum. Fyrir þá sem langar að tileinka sér rétt hugarfar. Ég bjó til þetta námskeið þegar ég hætti að spila sjálfur til að svara spurningunni: Hvernig hefði ég getað staðið mig betur? Ég var mjög góður í minni grein, en ég varð ekki sá besti. Þetta hefur verið fimm ára ferðalag þar sem ég hef verið að þróa námskeiðin og breyta aðeins áherslum í gegnum árin.“

Þetta er mjög þroskað viðhorf – hvernig datt þér þetta í hug?

„Mig langaði að halda afreksmiðað hugarþjálfunarnámskeið fyrir ungt íþróttafólk og datt inn á þess hugmynd. Ég er einnig að skrifa bók um þetta ferðalag sem ég þarf að gefa mér tíma í að klára. En þetta er spennandi viðfangsefni og rannsóknarspurningin margslungin.“

Bjarni segir ótrúlega erfitt að verða bestur, sama í hvaða íþrótt maður er. Það sé ákvörðun sem hver íþróttakona/maður verður að taka fyrir sig og er ekki léttvæg ákvörðun. „Þetta er rosaleg vinna, maður þarf að vera ákveðinn persónuleiki og með rétta hugarfarið. Það verða margar hindranir á vegi manns, en þar þarf maður að taka ábyrgð og vera leiðtogi í eigin íþróttalífi.“

Hann segir að allt of margir kenni umhverfinu um ef þeim gengur ekki vel. „Þjálfarar eru að sjálfsögðu misgóðir, en maður getur ekki kennt honum um ef manni gengur illa. Örlögin okkar eru í okkar höndum ekki annarra höndum. Það er stórt stef í mínum námskeiðum.“

Er þetta námskeið skemmtilegt?

„Já ég passa upp á að hafa þetta verkefnamiðað og við förum í alls konar leiki, sem eru skemmtilegir en hafa allir tilgang. En þetta er alvara líka og við viljum ná fram hugarfarsbreytingu hjá krökkum sem hjálpar þeim að ná lengra.”

Er eins gaman að vera í þessu og að spila sjálfur?

„Að þjálfa og vinna með ungu fólki er gefandi starf og kennir manni mikið. Þegar maður var að spila sjálfur, hafði maður ekki hugmynd um upplifun þjálfara. Leikmenn sem hafa karakter, sem rífa aðra með sér, mæta á réttum tíma og gera sitt allra besta eru ótrúlega dýrmætir. Þeir láta verkin tala og maður veit að þeir eru alltaf að gera sitt allra besta. Þegar maður er að vera þessi leikmaður sjálfur, áttar maður sig kannski ekki á verðmætunum í þessu en sem þjálfari er magnað að fylgjast með þessu.“

Hvað með þá krakka sem vilja vera í íþróttum vegna hreyfingarinnar og félagsskapsins?

„Íþróttir eiga að mínu mati að vera fyrir alla. Það hafa ekki allir þessa þrá um að skara fram úr. Ef þig langar að spila og vera í íþróttum af því það er gaman, þá er það mjög jákvætt að mínu mati. Klúbbarnir eiga að sjá til þess að slíkir íþróttakrakkar fái stöðugt að spila og keppa og uppskera ánægju af því.“

En það er kannski ekki upplifun allra foreldra? Sumir foreldrar upplifa mikið stress tengt íþróttaiðkun barna sinna. Hver er þín skoðun á því?

„Foreldrar eiga fyrst að fremst að styðja börnin sín, vera hvetjandi og hjálpa þeim að vinna eftir gildunum sínum. Ef barninu gengur kannski ekki allt of vel í íþróttinni sinni og er ósátt við stöðu sína er mikilvægt fyrir foreldrana að bregðast rétt við. Hjálpa barninu að finna hvar það getur bætt sig og svo styðja við það í að leggja hart að sér við að verða betri, gott er að gera þetta í samvinnu við þjálfara eða einhvern hæfan utanaðkomandi aðila. Að taka ábyrgð á þjálfun sinni er mikilvægt, en krakkar verða að sjálfsögðu að læra það hugarfar á námskeiði eins og mínu og af foreldrum sínum. Við bjóðum einnig upp á námskeið fyrir foreldra til að styðja við börnin sín á heilbrigðan hátt. Þá er ýmislegt hægt að gera til að skara fram úr í íþróttum ef viljinn er fyrir hendi. Mótlæti er hluti af íþróttinni, en ekki undantekning. En gott er að hafa það hugfast að mótlæti er oftar en ekki tímabundið og þegar krakkar komast í gegnum mótlæti þá eru þeir vanalega reynslunni ríkari og aðeins öflugri en áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert